Ferill 515. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 737  —  515. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um græna hvata fyrir bændur.


Flm.: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Sigmar Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að skipa starfshóp um bætt tækifæri bænda til að græða viðkvæm og illa farin vistkerfi, m.a. með skógrækt og endurheimt votlendis. Það verði gert með því að skapa græna hvata fyrir bændur til að auka uppgræðslu og draga úr kjötframleiðslu og annarri framleiðslu dýraafurða.
    Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum bænda, Landgræðslunnar, Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands. Starfshópurinn leggi til hvatakerfi og mælanleg markmið fyrir hvert ár. Matvælastofnun annist eftirlit með framkvæmd svo tryggt verði að fjármagn sem varið verði til aðgerðanna nýtist á sem bestan hátt. Ráðherra greini Alþingi frá framgangi og niðurstöðum verkefnisins á vorþingi 2023.

Greinargerð.

    Fyrir liggur að draga þarf úr losun heimsins á gróðurhúsalofttegundum um helming næsta áratuginn til að fyrirbyggja að hnattræn hlýnun verði umfram 1,5°C miðað við hitastig fyrir tíma iðnbyltingarinnar. Öll ríki heims standa nú frammi fyrir því að grípa þarf til stórtækra aðgerða til að ná þessu markmiði. Stærstu skrefin sem Ísland getur tekið til að draga markvisst og hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda er að endurheimta votlendi og stöðva losun frá illa förnu landi.
    Lagt er til að ráðherra skipi starfshóp með það að markmiði að auðvelda bændum að gera íslenskan landbúnað umhverfisvænni og að skapaðir verði jákvæðir grænir hvatar svo að bændur njóti góðs af skuldbindingum íslenska ríkisins í umhverfismálum.
    Þannig myndu bændur taka að sér enn metnaðarfyllra hlutverk en áður við endurheimt vistkerfa með því að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda. Samfélagslegur ávinningur yrði umhverfisvænni landbúnaður sem og tækifæri til nýsköpunar í greininni.
    Áætlað er að nettólosun landsins nemi um 14 milljónum tonna af koldíoxíð-ígildum á hverju ári, þ.e. með öllum þekktum tölum. Sérfræðingar telja að við það megi bæta 4 milljónum tonna vegna losunar frá illa förnu landi. Af þessum 18 milljónum tonna losar votlendi 9,5 milljónir tonna af CO2-ígildum en mest af því er talið vera vegna framræsingar. Óraskað votlendi losar gróðurhúsalofttegundir af náttúrulegum ástæðum en losun vegna framræsingar einnar er talin vera 7,4 milljónir tonna. Áætlað er að 10–15% framræsts votlendis sé í notkun í landbúnaði sem þýðir að hægt er með endurheimt votlendis að draga úr losun sem nemur 6,6 milljónum tonna af CO2-ígildum án þess að það hafi áhrif á ræktun í landbúnaði.
    Langvarandi sauðfjárbeit á viðkvæmum svæðum er talin vinna gegn markmiðum um uppgræðslu þeirra svæða.
    Að mati flutningsmanna gæti reynst sérstaklega þýðingarmikið fyrir dreifðar byggðir að veita sauðfjárbændum tækifæri til að gerast vistbændur, sérstaklega þar sem áskoranir í endurheimt vistkerfa eru miklar. Með því skapast raunhæfir valkostir á grænum störfum í landbúnaði og um leið gríðarlega mikill samfélagslegur ávinningur með meira vatni og lífi í ám og lækjum, færri sárum og skurðum í landslaginu. Vistbændur munu gegna þýðingarmiklu hlutverki í því að skógar stækki og geta með störfum sínum ýtt undir líffræðilegan fjölbreytileika. Með markvissu starfi vistbænda getur Ísland sótt fram og náð markmiðum um minni losun gróðurhúsalofttegunda og fjölbreyttari vistkerfi. Það er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar á sviði umhverfisnefndar, en einnig hvað varðarfugla, dýralíf og líffræðilegan fjölbreytileika. Má þar nefna Ramsar-samkomulagið, AEWA-samninginn, Bernarsamninginn og eyðimerkursamning Sameinuðu þjóðanna.
    Hér fara að mati flutningsmanna saman jákvæð markmið á sviði umhverfis- og loftslagsmála og tækifæri fyrir landsbyggðirnar með hvötum í átt að fjölbreyttari störfum á sviði landbúnaðar.