Ferill 395. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 815  —  395. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Lenyu Rún Taha Karim um aðgerðir til að varna olíuleka úr flaki El Grillo.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að varna olíuleka úr flaki El Grillo í Seyðisfirði með varanlegum hætti? Ef svo er, hvenær og hvernig?
     2.      Hyggst ráðherra fara eftir tillögu starfshóps frá því í janúar og fjármagna aðgerðir til að stöðva mengun uns varanleg lausn finnst?


    Ráðherra hefur tryggt fjárveitingu vegna tveggja aðgerða til að varna leka á olíu úr flaki El Grillo og koma í veg fyrir mengunartjón í Seyðisfirði af þeim völdum og er undirbúningur að framkvæmd þessara verkefna þegar hafinn. Einnig verður leitað leiða til að koma varanlega í veg fyrir olíuleka frá flakinu.
    Olíumengun frá El Grillo hefur verið viðvarandi vandamál undanfarin sumur, þrátt fyrir umfangsmiklar hreinsunaraðgerðir árið 2001. Eftir mengunarviðburð sl. sumar setti ráðuneytið á fót vinnuhóp með þátttöku Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslunnar og Múlaþings, auk ráðuneytisins, um mótun tillagna til að bregðast við líklegri áframhaldandi mengun. Hópurinn skilaði tillögum um sl. áramót. Í kjölfar þeirra vinnu hefur verið ákveðið að kaupa flotkvíar til að fanga olíubrák frá El Grillo ef olía berst áfram upp á yfirborðið. Hafnaryfirvöld á Seyðisfirði hafa umsjón með uppsetningu á búnaðinum en kostnaður við þetta nemur um 10 millj. kr.
    Ráðuneytið hefur einnig fjármagnað aðgerðir við að steypa fyrir sprungur á tveimur tönkum skipsins og stöðva með því frekari olíuleka. Landhelgisgæslan hefur umsjón með þeim aðgerðum sem munu kosta um 40 millj. kr. Til stendur að farið verði í þessar aðgerðir í maí, þegar aðstæður eru hvað bestar. Vonir standa til að tekist hafi að finna alla helstu staði þar sem veikleikar eru þannig að viðgerðir haldi.
    Samhliða þessum aðgerðum verður rætt við erlenda sérfræðinga um mögulega langtímalausn til að koma í eitt skipti fyrir öll í veg fyrir mengun frá El Grillo. Ljóst er að þar er um flókið verkefni að ræða, þar sem aðstæður við flakið eru mjög erfiða. Það er á um 40 metra dýpi, þar sem nær engin náttúruleg birta nær niður og ósprungin skotfæri leynast í því.