Ferill 365. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 816  —  365. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um loftslagsáhrif botnvörpuveiða.


    Telur ráðherra ástæðu til að kanna loftslagsáhrif botnvörpuveiða innan landhelgi og efnahagslögsögu Íslands í ljósi þess að erlendar rannsóknir á áhrifum botnvörpuveiða á losun gróðurhúsalofttegunda benda til að rask á hafsbotni losi yfir milljarð tonna af koltvísýringi á ári, sem samsvarar því sem allar flugsamgöngur heimsins losa? Mun ráðherra beita sér fyrir aðgerðum í þessum efnum? Ef svo er, með hvaða hætti?
    Ísland gerir grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis skv. reglum Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, sem byggja aftur á ítarlegum vísindalegum leiðbeiningum sem unnar eru af Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Þar er einkum miðað við bein mælanleg áhrif starfsemi, svo sem vegna bruna jarðefnaeldsneytis, iðnferla, iðragerjunar í búfé og metanmyndunar við meðferð úrgangs.
    Ýmis mannleg starfsemi getur haft óbein áhrif, svo sem varðandi margs konar landnotkun, sem erfiðara er að mæla og meta. Þar er ekki heldur alltaf auðvelt að gera greinarmun á hlut mannlegra athafna og náttúrulegra ferla. Kolefnisbúskapur hafsins er almennt minna þekktur en á landi, en þekking og áhugi á honum fer vaxandi, m.a. með tilliti til þess hvort mannlegar athafnir geti haft þar áhrif til aukinnar losunar eða bindingar kolefnis. Losun vegna fiskveiða er reiknuð út frá notkun fiskiskipa á eldsneyti, en ekki er í losunarbókhaldinu gert ráð fyrir óbeinum loftslagsáhrifum á borð við það sem fyrirspurnin virðist vísa til. Rétt er þó að skoða hverju sinni möguleg óbein áhrif aðgerða og starfsemi til gagns eða ógagns fyrir loftslagið, eins þótt þau séu ekki tekin inn í formlegt losunarbókhald og óvissa um áhrifin sé fyrir hendi.
    Ráðuneytið hefur ekki sérfræðiþekkingu til að meta þær erlendu vísindarannsóknir sem vísað er til, sem eru væntanlega m.a. rannsóknir á áhrifum þess að botnvarpa getur valdið uppróti á efni af hafsbotni og umbreytingu kolefnis sem er geymt þar yfir í koldíoxíð (sbr. m.a. grein í tímaritinu Nature frá mars 2021, sem mikið var fjallað um í fjölmiðlum). Ljóst er að óvissa í mati á áhrifum er mikil, en einnig að skoða þarf hugsanleg loftslagsáhrif botnvörpu á hverjum stað, m.a. með tilliti til botngerðar, þar sem t.d. getur orðið mikið upprót efnis þegar varpa er dregin yfir mjúkan setbotn.
    Sjálfsagt er að skoða og meta þessar rannsóknir og niðurstöður þeirra með tilliti til íslenskra aðstæðna. Hafrannsóknastofnun væri sú stofnun sem best væri til þess fær. Ráðuneytið hefur verið í sambandi við matvælaráðuneytið og Hafrannsóknastofnun í því sambandi.