Ferill 587. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 829  —  587. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018 (lenging lánstíma).

Frá menningar- og viðskiptaráðherra.



1. gr.

    Í stað orðanna „sex árum“ í 2. málsl. 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I í lögunum kemur: tíu árum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Ferðaábyrgðasjóður var settur á fót með lögum nr. 78/2020, um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, til að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemi skipuleggjenda eða smásala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar og til að tryggja hagsmuni neytenda. Hlutverk sjóðsins var að veita lán til ferðaskrifstofa til að endurgreiða neytendum vegna pakkaferða sem var aflýst eða voru afbókaðar vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem sköpuðust í upphafi kórónuveirufaraldursins. Lánin voru veitt til allt að sex ára en með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að lengja lánstímann til allt að tíu ára.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í upphafi kórónuveirufaraldursins á vormánuðum 2020 var fjölda pakkaferða sem þá áttu að koma til framkvæmda aflýst eða þær afbókaðar vegna áhrifa faraldursins. Víðtækar ferðatakmarkanir voru á þessum tíma settar á í flestum Evrópulöndum og í Norður-Ameríku og flug víða felld niður. Ómögulegt var því að koma fjölda pakkaferða í framkvæmd samkvæmt áætlun. Í þeim tilvikum sem pakkaferð er aflýst eða afpöntuð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna á neytandi rétt á fullri endurgreiðslu innan 14 daga frá því tilkynnt var um aflýsingu ferðarinnar eða hún afpöntuð, sbr. 3. mgr. 15. gr. og b-lið 1. mgr. 16. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018. Lausafjárstaða ferðaskrifstofa á þeim tíma var hins vegar með þeim hætti að margar þeirra áttu erfitt með að endurgreiða neytendum að fullu eða þeim var það ómögulegt vegna bágrar stöðu. Til að tryggja hagsmuni neytenda og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot ferðaskrifstofa var Ferðaábyrgðasjóði komið á fót með lögum nr. 78/2020. Sjóðurinn veitti ferðaskrifstofum lán til að endurgreiða ferðamönnum vegna pakkaferða sem var aflýst eða afbókaðar vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem koma áttu til framkvæmda á tímabilinu frá 12. mars til og með 30. september 2020. Heimilt var að sækja um lán frá sjóðnum til 1. nóvember 2020 og Ferðamálastofa hafði til 31. desember 2020 til að taka afstöðu til umsókna. Alls voru veitt 54 lán að heildarfjárhæð rúmlega 3,2 milljarðar kr. Heimilt var að veita lánin til allt að sex ára. Aðeins var heimilt að nýta lánsfjárhæðir til að endurgreiða neytendum vegna pakkaferða sem var aflýst eða afbókaðar á framangreindu tímabili. Ferðaábyrgðasjóður er í vörslu Ferðamálastofu sem fór með eftirlit með því að lánsfjárhæðir væru aðeins nýttar í þeim tilgangi sem lögin heimiluðu.
    Á grundvelli laga nr. 78/2020 var sett reglugerð um skilyrði fyrir tímabundnum lánveitingum Ferðaábyrgðasjóðs vegna COVID-19, nr. 720/2020. Í reglugerðinni var kveðið á um nánari framkvæmd við veitingu lána Ferðaábyrgðasjóðs, m.a. um vaxtakjör og endurgreiðslur, en lántakendur skyldu endurgreiða Ferðaábyrgðasjóði höfuðstól kröfu sjóðsins ásamt vöxtum á allt að sex árum og skyldu gjalddagar vera fjórir ár hvert. Fyrsta afborgun skyldi greidd 1. mars 2021. Með reglugerð nr. 56/2021, um breytingu á reglugerð nr. 78/2020, var fyrsta gjalddaga frestað til 1. desember 2021. Með reglugerð nr. 1038/2021, um breytingu á reglugerð nr. 78/2020, var fyrsta gjalddaga aftur frestað til 1. desember 2022. Ástæða þess að fyrsta gjalddaga hefur verið frestað í tvígang er að neikvæðra áhrifa kórónuveirufaraldursins á ferðaþjónustuna hefur gætt lengur en fyrirsjáanlegt var. Viðspyrna ferðaþjónustunnar hefur verið hægari en vonir stóðu til og óvissuástand varað lengur. Vegna þessa hefur ekki orðið sá viðsnúningur í rekstri ferðaskrifstofa líkt og spár gerðu ráð fyrir í upphafi faraldursins og sem einnig er forsenda þess að ferðaskrifstofum verði mögulegt að endurgreiða Ferðaábyrgðasjóði í samræmi við upphaflega áætlun. Fjárhagsstaða ferðaskrifstofa er enn mjög bágborin og fyrirsjáanlegt að margar þeirra muni ekki geta endurgreitt sín lán í samræmi við upphaflega áætlun. Til að styðja við viðspyrnu ferðaþjónustunnar og stuðla að bættu rekstrarhæfi ferðaskrifstofa hér á landi er því nauðsynlegt að heimila að lengja lánstíma lánanna og dreifa þannig endurgreiðslum yfir lengri tíma en gert var ráð fyrir. Um heimild er að ræða sem lántakendum mun standa til boða að nýta sér en þeim verður það ekki skylt. Ekki verða gerðar aðrar breytingar á lánskjörum og ekki verða veitt nein ný lán.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið hefur aðeins að geyma eina grein þess efnis að í stað þess að fram komi í ákvæði til bráðabirgða I við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun að heimilt sé að veita lán til allt að sex ára standi heimildin til að veita lán til allt að tíu ára. Lánstíminn miðast við þann tíma sem lánin voru veitt og ber því að telja tíu ára tímabilið frá því tímamarki en ekki frá því tímamarki sem frumvarp þetta kann að verða að lögum.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi þess við stjórnarskrá. Lánveitingar Ferðaábyrgðasjóðs fela í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993. Aðstoðin er heimil á grundvelli b-liðar 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins, sem kveður á um að viðeigandi ríkisaðstoð sé heimil til að ráða bót á alvarlegri röskun á efnahagslífi EES-ríkis. Aðstoðin er tilkynningarskyld til Eftirlitsstofnunar EFTA sem samþykkti hana fyrir sitt leyti með ákvörðun í júlí 2020 og málsmeðferð varðandi lengingu lánstíma er nú yfirstandandi. Frumvarpið er því í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins sem leiða af EES-samningnum.

5. Samráð.
    Frumvarpið felur í sér heimild til breytinga á lánskjörum lána sem veitt voru af Ferðaábyrgðasjóði á árinu 2020. Breytingin er ívilnandi í þágu lántakenda og er tilkomin vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Frumvarpið er unnið á grundvelli ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA um að heimilt sé að lengja lánstíma lánanna þannig að hann verði allt að tíu árum. Í ljósi tilurðar og efnis frumvarpsins gafst ekki tími til hefðbundins innra né ytra samráðs en við vinnslu frumvarpsins var haft óformlegt samráð við Ferðamálastofu.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið hefur áhrif á rekstrarstöðu þeirra ferðaskrifstofa sem sóttu um og fengu lán frá Ferðaábyrgðasjóði til að endurgreiða neytendum vegna pakkaferða sem var aflýst eða voru afbókaðar í upphafi kórónuveirufaraldursins á árinu 2020. Viðspyrna ferðaþjónustunnar hefur ekki orðið jafn hröð og vonast var til og fjárhagsstaða flestra ferðaskrifstofa er um þessar mundir verulega slæm og ljóst að flestum lántakendum mun reynast erfitt að standa í skilum með endurgreiðslur af lánum sínum á sex árum frá lánveitingu. Í ljósi rekstrarstöðu ferðaskrifstofa metur Ferðamálastofa hæfilega varúðarfærslu útlána sjóðsins í árslok 2021 á um 37% af útlánum hans. Með því að heimilt verði að lengja lánstímann í allt að tíu ár frá lánveitingu dreifast endurgreiðslur yfir lengra tímabil sem telja verður viðráðanlegra fyrir lántakendur. Það hefur einnig í för með sér að endurgreiðslur í ríkissjóð munu eiga sér stað yfir lengra tímabil, en heildarfjárhæð lána Ferðaábyrgðasjóðs nemur ríflega 3,2 milljörðum kr. Í ljósi mikilvægis ferðaþjónustunnar fyrir hagkerfið leiðir heildarmat á hagsmunum til þess að rétt sé að veita heimild til að lengja lánin til allt að tíu ára og styrkja þannig rekstrarstöðu ferðaskrifstofa. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á áætlaðar fjárheimildir málefnasviðs 14.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting á 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I við lög um pakkaferðir og samtengda ferðtilhögun þess efnis að lán frá Ferðaábyrgðasjóði geti verið til allt að tíu ára frá því þau voru veitt í stað sex ára. Lánstíminn miðast við þann tíma sem lánin voru veitt og ber því að telja tíu ára tímabilið frá því tímamarki en ekki frá því tímamarki sem frumvarp þetta kann að verða að lögum. Breytingin mun hafa í för með sér skilmálabreytingu fyrir þá lántakendur sem kjósa að nýta sér heimildina. Framkvæmd hennar verður í höndum Ferðamálastofu sem hefur umsýslu með Ferðaábyrgðasjóði.

Um 2. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.