Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 854  —  405. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um B-2-sprengiflugvélar.


     1.      Hvað felst að mati ráðuneytisins í hugtökunum útstöð og framvarðarstöð, eins og Bandaríkjaher skilgreinir Keflavíkurflugvöll fyrir B-2-sprengiflugvélar sínar, sbr. fréttatilkynningu bandaríska flughersins frá 29. ágúst 2019 og yfirlýsingu yfirmanns Whiteman-flugherstöðvarinnar frá 10. september 2021?
    Hugtökin útstöð og framvarðarstöð hafa ekki verið skilgreind sérstaklega af utanríkisráðuneyti. Hugtökin hafa fyrst og fremst verið notuð af hálfu bandarískra hermálayfirvalda. Þar af leiðandi grennslaðist ráðuneytið fyrir hjá fulltrúum þeirra um merkingu hugtakanna. Svarið sem barst hljóðar svo í íslenskri þýðingu: „Vera vélanna í Keflavík gerði flugher Bandaríkjanna kleift að sýna fram á getu sína til að gera sprengjuflugvélar út frá ólíkum tímabundnum staðsetningum í Evrópu, til stuðnings við norðurslóðastefnu varnarmálaráðuneytis. Þessi viðvera á Íslandi, eins og önnur framtíðarviðvera í Evrópu, er hluti af varanlegum tilflutningi bandarísks liðsafla sem starfar með bandamönnum sínum. Eins og stendur eru engin áform um uppbyggingu á Íslandi aðra en þá sem þarf til að styðja við tímabundna viðveru.“ 1

     2.      Á hvaða hátt breyttist hernaðarleg staða Keflavíkurflugvallar við það að hann var skilgreindur sem útstöð og framvarðarstöð fyrir slík loftför? Hvaða samskipti áttu sér stað á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda í aðdraganda þess?
    Með vísan til svars við 1. tölul. er ljóst að í huga hermálayfirvalda Bandaríkjanna er staða Keflavíkurflugvallar óbreytt frá því sem verið hefur frá árinu 2006 þegar varanlegri viðveru Bandaríkjahers lauk hér á landi. Þetta er einnig skilningur íslenskra stjórnvalda og engar breytingar verða gerðar þar á nema með samþykki íslenskra stjórnvalda.

     3.      Byggist viðvera og umsvif B-2-sprengiflugvéla hér á landi á sérstöku samkomulagi við íslensk stjórnvöld?
    Almennt gildir að vera liðsafla og búnaðar Bandaríkjanna hér á landi er á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og síðari viðauka við hann, m.a. frá árinu 2006 og 2016. Ekki eru gerðir sérstakir samningar um viðdvöl einstakra flugvéla eða sjófara, en ávallt er haft samráð við utanríkisráðuneyti um komur flugvéla og sjófara. Koma erlendra ríkisloftfara, þ.m.t. herflugvéla, sem og erlendra ríkisskipa, þ.m.t. herskipa, inn á íslenskt yfirráðasvæði er þó alltaf háð samþykki utanríkisráðherra í samræmi við ákvæði laga um loftferðir og laga um vaktstöð siglinga. Hingað koma því einungis flugvélar og sjóför sem fengið hafa til þess samþykki og hafa hér viðdvöl eða fljúga eða sigla um íslenskt yfirráðasvæði í lögmætum tilgangi.

     4.      Telur ráðherra að skilgreining Keflavíkurflugvallar sem útstöðvar eða framvarðarstöðvar véla sem ætlaðar eru til beitingar kjarnorkuvopna samrýmist markmiðum þjóðaröryggisstefnu Íslands, sem tiltekur sérstaklega bann við slíkum vopnum hér á landi? Hvernig ganga stjórnvöld úr skugga um að slíkum vopnum sé ekki komið fyrir á Íslandi?
    Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland er afdráttarlaus hvað varðar þá stefnu að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga. Þessi yfirlýsta stefna Íslands hefur verið kynnt og áréttuð við bandalagsríki sem búa yfir kjarnavopnum.

    Alls fóru 5 vinnustundir í að taka þetta svar saman.
1    Svarið hljóðar svo á upprunamáli: „The deployment to Keflavik allowed the USAF to demonstrate its ability to operate bombers out of different temporary locations across the European theater in support of the DoD Arctic Strategy. Although this deployment to Iceland, as well as future deployments within the European theater, are part of the persistent and rotational presence of U.S. Forces operating alongside our allies, there are currently no plans to establish anything more than support for temporary missions in Iceland.“