Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 855  —  321. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Evu Dögg Davíðsdóttur um aðkomu ungs fólks að ákvarðanatöku og stefnumótun.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja aðkomu ungs fólks að ákvarðanatöku og stefnumótun sem snúa að aðgerðum gegn loftslagsvá (sbr. 88. og 92. gr. loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna á COP26-loftslagsráðstefnunni í Glasgow)?
    Loftslagsváin snertir okkur öll en ekki síst börn og ungt fólk. Því er mikilvægt að rödd þessa hóps heyrist við stefnumótun og ákvarðanatöku þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Ákall um slíkt verður sífellt hærra og kom skýrt fram í lokaákvörðun aðildarríkjafundar loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í haust (COP26).
    Ráðuneytið vill leggja sig fram við að gefa ungu fólki tækifæri til að hafa áhrif. Tryggð er aðkoma ungmenna í loftslagsráði með sérstakri ákvörðun ráðherra þar um. Gætt er að því að samtök ungmenna fái tilkynningu um mál er varða umhverfis- og loftslagsmál þegar þau eru sett í samráðsgátt stjórnvalda og um leið minnt á möguleika til að senda umsögn um viðkomandi mál og gjarnan fundað sérstaklega til að fylgja málum eftir.
    Í vinnu ráðuneytisins við undirbúning að langtímastefnu um kolefnishlutleysi var fulltrúi ungra umhverfissinna skipaður í ráðgjafahóp fyrir hönd náttúru- og umhverfisverndarsamtaka vegna stefnumótunarvinnu um vegferð í átt að kolefnishlutleysi. Hópurinn hafði það hlutverk að veita ráðgjöf og styðja við rannsóknarverkefni um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040. Það er markmið ráðuneytisins að aðkoma og þátttaka ungs fólks að stefnumótun og innleiðingu ákvarðana um umhverfis-, orku- og loftslagsmál verði sem mest í þeirri miklu vinnu sem fram undan er.

     2.      Hefur ráðherra í hyggju að tryggja aðkomu ungs fólks að ráðstefnum og alþjóðlegum viðburðum tengdum loftslagsmálum? Ef svo er, þá hvernig?
    Aðildarríkjafundir loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP) eru langstærstu alþjóðlegu viðburðirnir á sviði loftslagsmála. Til að tryggja þátttöku ungmenna á þeim fundum hefur ráðuneytið komið á samstarfi við Landssamband ungmennafélaga (LUF) varðandi þátttöku loftslagsfulltrúa samtakanna á fundum loftslagssamningsins. Loftslagsfulltrúinn er kosinn í opinni kosningu meðal félaga í aðildarfélögum LUF í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
    Á síðustu tveimur fundum loftslagssamningsins (2019 og 2021) styrkti ráðuneytið loftslagsfulltrúa LUF til þátttöku að fullu. Til að undirstrika mikilvægi þátttöku ungmenna í starfinu var ákveðið fyrir síðasta fund (2021) að ungmennafulltrúinn yrði skráður í opinbera sendinefnd Íslands. Var það samdóma álit þeirra sem að málum komu að þetta hefði gefið góða raun og er nú fyrirhugað að festa það fyrirkomulag í sessi til frambúðar að loftslagsfulltrúi LUF verði skráður í opinbera sendinefnd Íslands á aðildarríkjafundum loftslagssamningsins (COP) og að ráðuneyti kosti þátttökuna.
    Í fyrra var jafnframt veittur sérstakur styrkur til Ungra umhverfissinna til þátttöku á aðildarríkjafundi loftslagssamningsins.

     3.      Með hvaða móti hyggst ráðherra styðja við starfsemi frjálsra félagasamtaka ungs fólks sem vinna að málefnum sem tilheyra málefnasviði ráðherra? Hefur ráðherra áform um að nýta reynslu og sérþekkingu slíkra félagasamtaka í auknum mæli í ráðuneytinu, til að mynda við opinbera stefnumótun, og ef svo er, hvernig?
    Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur ætíð lagt mikla áherslu á að styðja við starfsemi frjálsra félagasamtaka á málefnasviði ráðuneytisins. Ráðuneytið veitir árlega rekstrarstyrki til félagasamtaka og í ár (2022) verður tæpum 49 millj. kr. úthlutað til reksturs félagasamtaka sem starfa á málefnasviði ráðuneytisins.
    Að auki veitir ráðuneytið styrki til umhverfisverkefna og hafa félagasamtök verið meðal styrkþega en árið 2022 er heildarfjárhæð til úthlutunar 56 millj. kr.
    Ráðuneytið hefur í starfi sínu leitast við að tryggja aðkomu frjálsra félagasamtaka í nefndum og ráðum. Nefna má m.a. að Ungir umhverfissinnar hafa frá upphafi átt fulltrúa í stýrihópi um framkvæmd áætlunarinnar Hreint loft til framtíðar, áætlunar um loftgæði á Íslandi, og tekið þátt í vinnu við endurskoðun hennar sem nú stendur yfir. Loftslagsráð veitir stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum. Frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála eiga þar fastan fulltrúa og ungir umhverfissinnar hafa setið í ráðinu með sérstakri ákvörðun ráðherra þar um. Ráðuneytið leggur áherslu á aðkomu ungs fólks að stefnumótun og hvetur félagasamtök ungs fólks til að taka virkan þátt og koma á framfæri hugmyndum og tillögum varðandi þau verkefni sem eru í vinnslu hverju sinni í ráðuneytinu.

     4.      Hafa frjáls félagasamtök ungs fólks eða einstaklingar á þeirra vegum fengið styrki vegna verkefna á málefnasviði ráðuneytisins síðastliðin tíu ár? Svar óskast sundurliðað eftir verkefnum, styrkupphæðum, árum og fjárlagaliðum.
    Í töflunni hér að aftan má sjá styrki á málefnasviði ráðuneytisins til félagasamtaka ungs fólks tímabilið 2012–2021.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.