Ferill 289. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 918  —  289. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um starfslokaaldur hjá opinberum hlutafélögum í eigu ríkisins.


    Fyrirspurnin var send til Isavia, Íslandspósts, Matís, Neyðarlínunnar, Nýja Landspítalans, Orkubús Vestfjarða, Rariks og Ríkisútvarpsins sem eru opinber hlutafélög í fullri eigu ríkisins. Svar ráðherra byggist því á svörum sem bárust frá félögunum.

     1.      Hvaða reglur gilda um starfslok starfsmanna sem starfa hjá hlutafélagi sem er að fullu í eigu ríkisins? Eru þessar reglur mismunandi milli opinberra hlutafélaga (ohf.)?

Isavia:
    Starfslok hjá almennum starfsmanni félagsins og dótturfélaga miðast við lok þess mánaðar er hann nær 67 ára aldri, uppfylli hann almenn skilyrði um hæfi eins og þau er á hverjum tíma, enda standi kjarasamningur eða lög ekki í vegi fyrir því að svo lengi sé starfað að öðru leyti.
    Reglan á ekki við um starfslokaldur einstakra starfshópa sem starfa á grundvelli skírteinis eða þar sem um störf þeirra gilda sérstakar kröfur um hæfi samkvæmt ráðningarsamningi, kjarasamningi eða lögum og reglum.
    Starfslok flugumferðarstjóra er við 63 ára aldur enda uppfylli starfsmaður kröfur um hæfi.

Íslandspóstur:
    Reglur um starfslok hjá félaginu taka mið af kjarasamningum sem gilda á hinum almenna markaði. Samtök atvinnulífsins fara með samningsumboð fyrir hönd félagsins. Í mannauðsstefnu félagsins eru ákvæði um starfslok sem unnið er eftir. Fylgt er faglegu starfslokaferli þar sem tekið er tillit til aðstæðna hverju sinni. Í því felast m.a. vel undirbúin og sveigjanleg starfslok vegna aldurs þar sem einnig er lögð áhersla á yfirfærslu þekkingar og ábyrgðar á verkefnum.

Matís:

    Engar reglur eru til staðar hjá félaginu um að starfslok þurfi að eiga sér stað við ákveðinn aldur.

Neyðarlínan:
    Almennt séð eru aðstæður félagsins líklega talsvert frábrugðnar öðrum opinberum hlutafélögum þar sem félagið var upphaflega stofnað sem hlutafélag í eigu nokkuð margra félaga, en varð síðan að opinberu hlutafélagi þegar ríkið eignaðist meiri hluta í félaginu árið 2008.
    Engar sérstakar reglur gilda um starfslok starfsmanna vegna aldurs, en almennur skilningur er í þá veru að starfsmenn ljúki störfum um það leyti sem þeir hefja lífeyristöku, en þó samkvæmt nánara samkomulagi hverju sinni, enda er lífeyristaka með mismunandi hætti eftir því hvar til réttinda hefur verið unnið.

Nýi Landspítalinn:
    Engar reglur hafa verið settar hjá félaginu um starfslokaaldur, en í bígerð er að vinna slíkar reglur.

Orkubú Vestfjarða:
    Félagið er með starfslokastefnu en í henni kemur m.a. fram að miðað er við að starfsmenn láti af störfum í lok þess mánaðar sem þeir verða 70 ára. Þar kemur einnig fram að hinn almenni eftirlaunaaldur á Íslandi er 67 ár og því má gera ráð fyrir að einhverjir starfsmenn óski eftir að draga úr starfshlutfalli eitthvað fyrr eða láta af störfum, t.d. við 67 ára aldurinn. Jafnframt kemur fram í stefnunni að unnt sé að ráða starfsmann á tímavinnukaupi, í hámark 12 mánuði að ósk vinnuveitanda, eftir að 70 ára aldri er náð. Við mat á því er horft til sérfræðiþekkingar og framboðs mannafla á hverjum tíma.

Rarik:
    Hjá félaginu er miðað við að starfsmenn láti af störfum næstu mánaðamót eftir að þeir verða sjötíu ára.

Ríkisútvarpið:
    Hjá félaginu hættir starfsfólk störfum þegar 70 ára aldri er náð.

     2.      Hafa ríkisstarfsmenn haldið áunnum réttindum sínum hvað starfslok varðar þegar ríkisfyrirtæki er breytt í opinbert hlutafélag? Hefur verið farið með þessi réttindi með mismunandi hætti milli opinberra hlutafélaga?

Isavia:
    Fram kemur í svari félagsins að ekki sé ljóst hvað átt er við með áunnum réttindum. Starfslok starfsmanna hafa tekið mið af ráðningarsamningi og reglum félagsins á hverjum tíma. Starfslok þeirra starfsmanna sem féllu undir lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, voru óbreytt þar til reglum um starfslokaaldur starfsmanna hlutafélagsins var breytt af stjórn félagsins í 67 ár.

Íslandspóstur:
    Starfsfólk sem áður vann hjá stofnuninni Pósti og síma hafa ekki önnur réttindi þegar kemur að starfslokum en kveðið er á um í ráðningarsamningi og kjarasamningi. Starfsfólk hefur ekki biðlaunarétt eða lausnarlaun eins og komið hefur fram í málum sem farið hafa fyrir dómstóla. Þeir hafa sömu réttindi og þeir sem ráðnir voru eftir að félagið var gert að hlutafélagi.

Matís:
    Já, starfsmenn ríkisins héldu áunnum réttindum við stofnun félagsins.

Neyðarlínan:
    Þetta á ekki við þar sem rekstrarform félagsins fór ekki frá því að vera ríkisstofnun yfir í að verða opinbert hlutafélag heldur frá því að vera hlutafélag yfir í að verða opinbert hlutafélag.

Nýi Landspítalinn:
    Réttindi starfsmanna félagsins eru í flestum tilfellum þau sömu og taka mið af réttindum ríkisstarfsmanna, en það á þó ekki við að öllu leyti því starfsmenn heyra ekki undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Orkubú Vestfjarða:
    Þegar félagið var stofnað héldu allir starfsmenn þess áunnum réttindum sínum.

Rarik:
    Starfsmenn félagsins héldu áunnum réttindum við rekstrarformsbreytingu félagsins í opinbert hlutafélag.

Ríkisútvarpið:
    Já.

     3.      Hversu mörgum hefur verið sagt upp störfum vegna aldurs hjá hlutafélögum að fullu í eigu ríkisins sl. 4 ár? Um hvaða hlutafélög var að ræða?

Isavia:
    Til starfsloka kom hjá 45 starfsmönnum félagsins og dótturfélaga vegna aldurs.

Íslandspóstur:
    Starfsfólki er og hefur ekki verið sagt upp vegna aldurs hjá félaginu.

Matís:
    Engum.

Neyðarlínan:
    Engum.

Nýi Landspítalinn:
    Engum hefur verið sagt upp hjá félaginu á sl. fjórum árum vegna aldurs.

Orkubú Vestfjarða:
    Alls hefur 9 starfsmönnum verið sagt upp á árunum 2018–2021.

Rarik:
    Engum hefur verið sagt upp vegna aldurs.

Ríkisútvarpið:
    Það hafa 18 starfsmenn látið af störfum vegna aldurs á þessu tímabili.

     4.      Við hve marga þeirra starfsmanna sem vísað er til í 3. tölul. var gerður starfslokasamningur sem fól í sér betri kjör en fólust í almennum ákvæðum kjarasamninga?

Isavia:
    Dæmi er um starfslok samkvæmt ráðningarsamningi sem var með öðrum hætti en kveðið var á um í kjarasamningi.

Orkubú Vestfjarða:
    Enginn starfslokasamningur hefur verið gerður og starfsmenn hafa ekki fengið betri kjör en kjarasamningar segja til um.

Ríkisútvarpið:
    Enginn.

     5.      Hver var aldur þeirra starfsmanna sem var sagt upp vegna aldurs?

Isavia:
    Eftirfarandi tafla sýnir aldur þeirra starfsmanna sem látið hafa af störfum sl. fjögur ár vegna aldurs. Starfslokareglum félagsins var breytt árið 2020 í 67 ára aldur.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Orkubú Vestfjarða:
    Þeim níu starfsmönnum sem sagt var upp voru á aldrinum 70 ára til 84 ára.

Ríkisútvarpið:
    70 ára.

     6.      Hver er skoðun ráðherra á því að sömu reglur eigi að gilda um starfslok ríkisstarfsmanna og starfsmanna hjá hlutafélagi að fullu í eigu ríkisins?
    Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er sú meginregla sett fram að segja skuli starfsmanni upp störfum eða veita embættismanni lausn frá embætti frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Almennur eftirlaunaaldur er hins vegar við 67 ára aldur á einkamarkaði. Hvað varðar starfslok vegna aldurs hefur á síðustu árum verið hugað að auknum sveigjanleika varðandi það hvernig og hvenær starfsmaður lýkur atvinnuþátttöku en að óbreyttum lögum er óhjákvæmilegt að mismunandi reglur gildi um starfslok starfsmanna ríkisins og starfsmanna hjá hlutafélagi sem er að fullu í eigu ríkisins. Á þessu kjörtímabili er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar fyrirhugað að undirbúa ráðstafanir til þess að gera eldra fólki betur kleift að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði, m.a. með auknum sveigjanleika í starfslokum. Í því sambandi verður m.a. horft til þess að auka sveigjanleika í starfslokum hjá hinu opinbera.