Ferill 380. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 942  —  380. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðgerðir á ábyrgð ráðuneytisins gegn ofbeldi og afleiðingum þess.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvað hefur verið gert til að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem eru á ábyrgð ráðuneytisins í þingsályktun nr. 35/149, um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess? Svar óskast sundurliðað eftir aðgerðum og árum.
     2.      Hvaða fjármunum hefur verið varið til þeirra aðgerða? Svar óskast sundurliðað eftir aðgerðum og árum.


B.1. Stuðlað að menntun um ofbeldismál fyrir þá sem starfa innan réttarvörslukerfisins .
    Fræðslu um ofbeldismál í víðu samhengi verði ýtt úr vör til þeirra sem starfa innan réttarvörslukerfisins. Lögð verði áhersla á að fræðslan snúist um eðli og afleiðingar ofbeldis, birtingarmyndir þess og þá einkum á sérstöðu tiltekinna viðkvæmra hópa, þ.m.t. innflytjenda, fatlaðs fólks, aldraðra og hinsegin fólks, í því skyni að efla getu starfsmanna til að bregðast við ofbeldismálum. Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar og embætti ríkissaksóknara verði falið að annast framkvæmd slíkrar fræðslu. Aukin verði þekking þeirra sem starfa innan réttarvörslukerfisins á ofbeldismálum sem skili sér í betri rannsóknum og meðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins.
          Markmið: Bætt verklag við rannsókn og málsmeðferð ofbeldismála innan réttarvörslukerfisins.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar, embætti ríkislögreglustjóra, embætti ríkissaksóknara, neyðarmóttaka og áfallateymi Landspítalans og réttindagæslumenn fatlaðs fólks.
          Mælikvarði: Reglubundin fræðsla verði komin á í árslok 2020.“

    Staða: Hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar hefur verið tryggt að fræðsla um ofbeldi verði fastur liður í endurmenntun starfsmanna lögreglu. Á árunum 2019–2021 voru til að mynda sjö námskeið haldin sem tæplega 230 manns sóttu, bæði lögreglumenn og ákærendur. Um var að ræða námskeið um heimilisofbeldi, um skýrslutökur af krefjandi sakborningum, um rannsóknir kynferðisbrota og um stafrænt kynferðislegt ofbeldi. Einnig fjöldi námskeiða um tæknirannsóknir en sönnunargögn í málum er varða kynferðislegt ofbeldi eru oftar en ekki á rafrænu formi. Einnig hafa verið haldin námskeið árlega fyrir rannsakendur kynferðisbrota. Þá hefur Mennta- og starfsþróunarsetur útbúið vefnámskeið sem eru aðgengileg öllu starfsfólki lögreglu frá vorinu 2021 en námskeiðin verða að skyldunámi á þessu ári fyrir alla starfandi lögreglumenn.
    Ákærendafélag Íslands og embætti ríkissaksóknara hafa einnig haldið fræðslu þar sem fjallað hefur verið um rannsókn og saksókn kynferðisbrota.
     Heildarkostnaður: Hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar er kostnaður vegna námskeiða ekki sundurliðaður en kostnaðurinn við framangreind námskeið var innan ramma.

B.2. Lagaákvæði og reglur um þagnarskyldu hindri ekki framvindu mála.
    Dómsmálaráðuneytið kanni hvort ákvæði gildandi laga um þagnarskyldu hindri með einhverju móti eðlilega framvindu ofbeldismála innan kerfisins og geri tillögur að úrbótum verði þess talið þörf. Athugað verði sérstaklega hvort nauðsynlegt sé að rýmka heimildir lögreglu til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til viðeigandi stofnana við rannsókn einstakra mála og öfugt. Þá verði þessi vinna unnin samhliða og með hliðsjón af innleiðingu Istanbúlsamningsins ásamt innleiðingu dómsmálaráðuneytisins á tilskipun Evrópusambandsins um vinnslu og miðlun persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
          Markmið: Þverfaglegt samráð og samstarf sé óhindrað við rannsókn og meðferð ofbeldismála.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Félagsmálaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, embætti landlæknis, Barnaverndarstofa, embætti ríkislögreglustjóra, embætti héraðssaksóknara, lögregluembætti, embætti ríkissaksóknara og Persónuvernd.
          Mælikvarði: Niðurstaða liggi fyrir í árslok 2020.“

     Staða: Á undanförnum árum hefur verið ráðist í ýmsar aðgerðir til að tryggja lagastoð fyrir miðlun persónuupplýsinga til og frá lögreglu. Svokölluð löggæslutilskipun, þ.e. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/680 frá 27. apríl 2016, var innleidd með lögum nr. 75/2019 og lögreglulögunum var breytt í samræmi við það með sömu lögum og nú síðast með lögum nr. 50/2021.
    Árið 2020 lagði dómsmálaráðherra fram fumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 en frumvarpið var samþykkt af Alþingi vorið 2021. Með breytingunni var lögfest ný málsgrein, 2. mgr. 11. gr., þess efnis að lögregla skuli, eftir því sem þörf er á, hafa gagnkvæmt samstarf við önnur stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök og einkaaðila við lögreglurannsóknir, framkvæmd löggæslu og önnur verkefni. Með ákvæðinu er lögreglu gert heimilt að skiptast á upplýsingum, þar á meðal persónuupplýsingum, að því marki sem nauðsynlegt er, til að lögregla eða samstarfsaðili geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Þá skal lögregla sérstaklega vinna með félagsmála-, heilbrigðis- og menntamálayfirvöldum að forvörnum eftir því sem tilefni gefst til og aðstæður leyfa og upplýsa þessa aðila um málefni sem krefjast afskipta þeirra. Með ákvæðinu voru því lögfestar enn skýrari heimildir lögreglu til að skiptast á upplýsingum, þar á meðal persónuupplýsingum, við þau stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök og einkaaðila sem hún er í samstarfi við á grundvelli lögbundins hlutverks síns. Breytingarnar eru því til þess fallnar að liðka fyrir eðlilegri framvindu ofbeldismála innan kerfisins.
         Heildarkostnaður: Innan ramma.

B.3. Heimildir stofnana og félagasamtaka til að afla upplýsinga úr sakaskrá ríkisins.
    Dómsmálaráðuneytið skipi starfshóp sem verði falið að greina núverandi heimildir stofnana og félagasamtaka sem starfa með börnum til að afla upplýsinga úr sakaskrá og meta þörfina á mögulegum úrbótum. Lögð verði áhersla á að starfshópurinn hafi hliðsjón af lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, við gerð tillagna til úrbóta.
          Markmið: Stofnanir geti með fullnægjandi hætti tryggt öryggi skjólstæðinga sinna með því að afla nægilegra, viðeigandi og nauðsynlegra upplýsinga úr sakaskrá ríkisins.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Embætti ríkissaksóknara, Persónuvernd, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Barnaverndarstofa, embætti ríkislögreglustjóra, Samband íslenskra sveitarfélaga, hlutaðeigandi stofnanir og frjáls félagasamtök.
          Mælikvarði: Tillögur liggi fyrir fyrir árslok 2020.“

    Staða: Í desember 2019 skipaði dómsmálaráðherra starfshóp um upplýsingagjöf úr sakaskrá. Hópurinn átti víðtækt samráð við hlutaðeigandi aðila. Gerði hópurinn samantekt á ákvæðum sem krefjast upplýsinga úr sakaskrá og skilaði hópurinn skýrslu með tillögum til úrbóta þann 20. september 2020. Í apríl 2021 lagði mennta- og menningarmálaráðherra fram frumvarp á Alþingi til breytinga á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningarmála, varðandi öflun sakavottorðs. Byggði frumvarpið m.a. á skýrslu starfshóps dómsmálaráðherra. Var frumvarpið liður í að auka öryggi viðkvæmra hópa í skóla-, íþrótta-, og æskulýðsstörfum, þá helst barna og ungmenna. Frumvarpið náði ekki fram að ganga á 151. löggjafarþingi 2020–2021 og hefur ekki verið lagt fram að nýju.
    Heildarkostnaður: Kostnaður við verkefnið var innan ramma fjárheimilda ráðuneytisins og undirstofnana og annarra sem komu að gerð skýrslunnar.

B.4. Uppbyggileg réttvísi í sakamálum.
    Dómsmálaráðuneytið taki til skoðunar hvaða úrræðum megi beita í ofbeldismálum sem miða að uppbyggilegri réttvísi, svo sem sáttamiðlun, og kanni hvort þörf sé á lagabreytingum, eftir atvikum með setningu sérlaga eða breytingum á lögum um meðferð sakamála. Við þá vinnu verði hliðsjón höfð af skýrslu nefndar um tilraunaverkefni um sáttamiðlun í sakamálum frá árinu 2009 og afrakstur og árangur af verkefninu metinn sérstaklega.
          Markmið: Uppbyggileg réttvísi verði nýtt í auknum mæli.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Dómsmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Embætti ríkissaksóknara, embætti ríkislögreglustjóra, embætti
          héraðssaksóknara, lögregluembættin.
          Mælikvarði: Niðurstaða liggi fyrir í árslok 2020.“

    Staða: Í september 2021 skipaði dómsmálaráðherra starfshóp um sáttamiðlun í sakamálum. Í janúar 2021 skilaði nefndin skýrslu þar sem lagðar voru til breytingar sem miða að því að nýta úrræði sáttamiðlunar í auknum mæli. Lagði nefndin til breytingar á ákvæðum laga um meðferð sakamála um möguleika á sáttamiðlun. Þá hefur fyrirmælum ríkissaksóknara um sáttamiðlun verið breytt í samræmi við tillögur nefndarinnar og ríkislögreglustjóra var falið að setja reglur um sáttamenn sem starfa innan lögreglunnar. Námskeið hafa verið haldin fyrir sáttamenn og nú þegar er farið að vinna eftir nýjum fyrirmælum ríkissaksóknara og verklagsreglum ríkislögreglustjóra um sáttamiðlun. Hefur frumvarp dómsmálaráðherra verið lagt fram á Alþingi en með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á b. lið 3. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála, þar sem orðunum „[…] að undangenginni sáttamiðlun hjá lögreglu.“ er bætt við stafliðinn til að úrræðið sé lögfest í sakamálalögum.
    Heildarkostnaður: Kostnaður við verkefnið var innan ramma fjárheimilda ráðuneytisins og undirstofnana.

C.14. Endurskoðun aðgerðaáætlunar þessarar.
    Aðgerðaáætlun þessi verði endurskoðuð. Ráðuneytin hafi víðtækt samráð við hagsmunaaðila og sérfræðinga í málaflokknum, þar á meðal á árlegum landssamráðsfundi, sbr. aðgerð C.12. Ný aðgerðaáætlun verði lögð fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþingi árið 2022. Ráðuneytin sem eiga aðild að þessari aðgerðaáætlun beri ábyrgð á endurskoðun hennar í samstarfi við opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök, fræðasamfélagið og aðra viðeigandi aðila.
          Markmið: Að leggja fram endurskoðaða aðgerðaáætlun fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþingi 2022.
          Kostnaðaráætlun: Innan ramma.
          Ábyrgð: Félagsmálaráðuneytið.
          Samstarfsaðilar: Dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið.
          Mælikvarði: Að endurskoðuð aðgerðaáætlun taki gildi í byrjun árs 2023.“

    Staða: Hlutaðeigandi ráðuneyti eru nú að fara yfir stöðu þeirra aðgerða sem heyra undir hvert ráðuneyti. Í framhaldinu verði ákveðið hvort þörf sé á að leggja fram endurskoðaða aðgerðaáætlun, einkum í ljósi þeirra verkefna sem nú er verið að vinna að á þessu sviði. Má þar nefna:
     *      Eftirfylgd þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.
     *      Gerð landsáætlunar um innleiðingu Istanbúl-samningsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
     *      Aðgerðir starfshóps dómsmálaráðherra um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreiti.
     *      Endurnýjun aðgerðáætlunar um meðferð kynferðisbrota, tekur gildi í heild sinni 2023.