Ferill 618. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 943  —  618. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um þvingaðar brottvísanir.


     1.      Hvaða reglur gilda um verklag þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd eru fluttir úr landi með aðstoð lögreglu? Sérstaklega er óskað upplýsinga um það hvaða reglur gilda um valdbeitingu lögreglu eða annarra í þeim tilvikum.

    Samkvæmt 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, er það hlutverk lögreglu og Útlendingastofnunar að annast framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun. Stoðdeild embættis ríkislögreglustjóra hefur það hlutverk að sjá um alla flutninga á erlendum einstaklingum frá Íslandi, sbr. 23. gr. reglugerðar um starfsemi, hlutverk og ábyrgð embættis ríkislögreglustjóra nr. 325/2021, sbr. 3. mgr. 5. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.
    Fyrirliggjandi er samningur milli embættis ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnunar (ÚTL) um verkefni stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Að jafnaði gefur ÚTL útlendingi frest í 7–30 daga til að yfirgefa landið sjálfviljugur þegar um er að ræða frávísun frá Íslandi.
    Í viðauka 2 við samninginn kemur fram það verklag sem stoðdeild byggir á við framkvæmd flutnings úr landi með aðstoð lögreglu. Hér fyrir neðan eru upplýsingar um verklag Stoðdeildar sem kemur fram í viðauka 2 við samninginn en verklagið byggist m.a. á íslenskum lögum, einkum lögreglulögum og lögum um útlendinga, og alþjóðasamningum sem um málefnið gilda og Ísland hefur undirgengist eða er aðili að. Eftirfarandi texti er tekinn beint upp úr viðauka 2 við samninginn sem inniheldur verklagsreglur um brottvísanir og frávísanir:

„Beiðni um brottvísun og/eða frávísun.
    Beiðni kemur til stoðdeildar frá ÚTL um brottvísun og/eða frávísun og er málið skoðað meðal annars út frá því hve áríðandi er að framkvæma umbeðna beiðni. Stoðdeildin verður, eins og frekast er unnt, við öllum þeim beiðnum og forgangsraðar eftir eftirfarandi:
    –     Beiðni: Óskað er eftir að viðkomandi framkvæmd sé sett í forgang vegna krefjandi aðstæðna.
    –     Hættumat stoðdeildar: Hættumat stoðdeildar (sjá verklag hættumats).
    –     Starfsfólk tiltækt í framkvæmdina: Mannaflaþörf fyrir framkvæmdina metin – tiltækt starfsfólk í stoðdeild – geta annarra deilda eða embætta til aðstoðar.
    –     Ferðaleið: Stoðdeildin er háð fáanlegum flugsætum en einnig þarf að skoða flugvelli á millilendingarstað en aðstaða og reynsla af þeirri aðstoð sem okkur er veitt er mikilvægur þáttur í hvar er millilent.

Hættumat.
    Vinna við gerð hættumats fer af stað um leið og málið berst lögreglumanni sem falin hefur verið ábyrgð framkvæmdar. Hættumatið gerir ábyrgðarmaður framkvæmdarinnar með því að skoða viðkomandi einstakling sem þarf að flytja til að gera framkvæmd fylgdarinnar eins örugga og hægt er. Við hættumat eru bæði kannaðir gagnagrunnar sem lögreglan hefur aðgang að, í samræmi við lagaheimild, og haft er samband við þjónustuaðila, aðra lögreglumenn og/eða starfsfólk fangelsa sem upplýsingar eru um að hafi haft samskipti við einstaklinginn. Þessi upplýsingaöflun byggist á lagaheimild. Að lokum er sá einstaklingur, sem á að flytja úr landi vegna stjórnvaldsákvörðunar þess efnis, heimsóttur og hegðun hans metin og viðhorf viðkomandi gagnvart fyrirhugaðri framkvæmd á flutningi úr landi, en hún er oftast kynnt á þeim tímapunkti. Stundum er slík framkvæmd kynnt með símtali en viðkomandi heimsóttur fljótlega eftir það símtal til að meta viðkomandi á grundvelli hættumats.
    Ef upplýsingar liggja fyrir um eða í ljós kemur að viðkomandi einstaklingur hefur átt sögu um erfiðleika er varða líkamlegt eða andlegt heilbrigði skal ábyrgðarmaður framkvæmdarinnar tryggja að skoðun þar til bærra starfsmanna heilbrigðisyfirvalda hafi farið fram svo öruggt sé að framkvæmdin stefni ekki viðkomandi í hættu. Öflun vottorða (e. Fit to Fly) í slíkum tilfellum þarf að hafa farið fram.
    Ef nauðsynlegt þykir vegna heilsu viðkomandi einstaklings, er óskað eftir að starfsmaður heilbrigðisyfirvalda komi með í framkvæmd fylgdar.

Undirbúningur framkvæmdar.
    Degi fyrir framkvæmdina er útbúið skeyti með öllum nauðsynlegum upplýsingum varðandi fylgdina, þátttakendur, tímasetningar og ef óskað er eftir aðstoð einhverra á flugvellinu við fylgdina. Þetta skeyti er sent á fyrirfram skilgreindan hóp í tölvupósti sem samanstendur af lögreglu á flugvellinum (Keflavíkurflugvelli), öryggisdeild flugvallarins og öðrum yfirvöldum flugvallarins og IGS (þjónustudeild flugfélaga á flugvellinum).
    Skeyti fer því til allra aðila sem með beinum eða óbeinum hætti koma að framkvæmd fylgdarinnar á Keflavíkurflugvelli og eru þeir upplýstir um komu fulltrúa stoðdeildar ríkislögreglustjóra þrátt fyrir að starfsmenn deildarinna hafi í flestum tilfellum verið í sambandi við þessa aðila áður til að tilkynna. Einnig eru flugstjóra flugsins afhentar upplýsingarnar svo hann geti áttað sig á umfangi framkvæmdar en ef um sérstaklega erfiða fylgd er að ræða, er rætt við flugstjóra í síma nokkru áður. Flugstjóri kynnir þá einnig áhöfn sinni um framkvæmdina svo allir séu upplýstir og komi engum á óvart þegar við birtumst.“

Samantekt, sbr. framangreint verklag í viðauka 2 í samningi embættis ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnunar um verkefni stoðdeildar ríkislögreglustjóra.
    Verklag það sem gildir um valdbeitingu lögreglu, þegar þess er talin þörf vegna hættumats eða annarra ástæðna, sbr. umfjöllun hér að framan, byggist ávallt á skýrri lagaheimild og verklag stoðdeildar er til þess að tryggja að framkvæmd flutnings, þegar þörf er á aðstoð lögreglu við framkvæmd flutnings með fylgd og jafnvel þvingunarúrræðum eins og notkun flutningsbeltis, samræmist stjórnarskrárvörðum réttindum, sbr. 7. kafla laga nr. 33/1944, lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, og öðrum alþjóðasamningum sem Ísland hefur undirgengist. Í þessu sambandi er við framkvæmdina einkum byggt á ákvæðum laga um útlendinga, nr. 80/2016, sbr. einkum 7. mgr. 104. gr. og 105. gr., sbr. 115. gr. sömu laga og 14. og 16. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996.
    Við ákvörðun um það hvort þörf er á því að einstaklingur, sem fara þarf af landi brott samkvæmt ákvörðun stjórnvalda eða dómstóla þess efnis, þurfi lögreglufylgd og þvingunarúrræði eins og handtöku við framkvæmd fylgdarinnar og í því sambandi að vera í flutningsbelti, er ávallt höfð hliðsjón af meðalhófsreglu lögreglulaga, stjórnsýslulaga og sakamálalaga. Þess vegna er verklag stoðdeildar skýrt um þetta efni, sbr. framangreint, þ.e. að valið sé vægasta úrræðið fyrir hvern einstakling og þá að undangengnu heildstæðu mati og mati heilbrigðisstarfsfólks og jafnvel að heilbrigðisstarfsfólk komi með í fylgd. Flutningsbelti er því notað í algjörum undantekningartilfellum.

     2.      Hvaða þvingunarúrræðum hefur verið beitt gagnvart einstaklingum þegar þeir eru fluttir úr landi með aðstoð lögreglu og á hvaða lagastoð eru þau byggð? Sérstaklega er óskað upplýsinga um það hvort fólki hafi verið gefin lyf gegn vilja þess í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísunina.
    Þvingunarúrræði þau sem beitt hefur verið gagnvart einstaklingum sem fluttir eru úr landi með aðstoð lögreglu og heimild til þeirra byggjast á ákvæðum lögreglulaga, nr. 90/1996, stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, laga um útlendinga, nr. 80/2006, og laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Við notkun þvingunarúrræða er ávallt höfð hliðsjón af stjórnarskrárvörðum réttindum, sbr. lög nr. 33/1944, um Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, og lög um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, sem og öðrum alþjóðaskuldbindingum og samningum sem Ísland hefur gengist undir.
    Þau þvingunarúrræði sem beitt hefur verið við fylgd einstaklinga úr landi af hálfu lögreglu eru notkun flutningsbeltis, handtaka, í samræmi við heimild þess efnis í 14. og 16. gr. lögreglulaga og við slíka framkvæmd er ávallt höfð hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og 2. málsl. 14. gr. lögreglulaga. Í þessu sambandi vísast einnig til 6. gr. reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna þar sem eftirfarandi kemur fram: „Heimilt er að fjötra menn á fótum með fótjárnum við flutning sem öryggisráðstöfun ef rík ástæða er til, t.d. við flutning í flugvél eða hann er svo æstur eða órólegur að hann er sjálfum sér eða öðrum hættulegur.“
    Viðkomandi einstaklingur, ef þörf er á í samræmi við framangreint, er settur í flutningsbelti sem er leðurbelti með handjárnum. Flutningsbelti getur líka verið úr nælonefni og „velox“. Það er þó einungis í undantekningartilvikum sem viðkomandi einstaklingur er settur í flutningsbelti að undangengnu áhættumati, og skoðun heilbrigðisstarfsfólk ef það á við, og í þessu sambandi er ávallt valið vægasta mögulega úrræði ef valdbeitingar er þörf, sbr. m.a. 14. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og framangreint.
    Ef talin er þörf á því að einstaklingur þurfi að vera í flutningsbelti í flugvélinni er auk þess alltaf óskað sérstaklega heimildar flugstjóra, þegar komið er um borð, í samræmi við ákvæði laga um loftferðir, nr. 60/1998, sbr. einkum 40.–42. gr.