Ferill 658. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 948  —  658. mál.
Flutningsmaður.




Tillaga til þingsályktunar


um eftirfylgni einstaklinga sem eru í sjálfsvígshættu.


Flm.: Eva Sjöfn Helgadóttir, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Helga Þórðardóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Páll Jóhannsson, Sigmar Guðmundsson, Tómas A. Tómasson.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að gera aðgerðaáætlun til að tryggja eftirfylgni með einstaklingum sem leita til heilbrigðiskerfisins og eru í sjálfsvígshættu og að tryggja nauðsynlegt fjármagn til áætlunarinnar. Ráðherra hafi samráð við geðheilbrigðissvið Landspítala, Geðhjálp, Hugarafl og Píeta samtökin við gerð áætlunarinnar. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir fullbúinni og fjármagnaðri áætlun eigi síðar en 1. janúar 2023.

Greinargerð.

    Staðan í geðheilbrigðismálum er grafalvarleg. Árið 2020 féllu 47 einstaklingar fyrir eigin hendi samkvæmt tölum frá landlæknisembættinu. Árið 2018 var lögð fram aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum, með sex tilgreindum markmiðum og 54 aðgerðum. Í svari við fyrirspurn þingmannsins Evu Sjafnar Helgadóttur til heilbrigðisráðherra (þskj. 536) á yfirstandandi löggjafarþingi kom fram að aðeins fimm aðgerðir hafi komið til framkvæmda eða hafi verið lokið á síðastliðnum fjórum árum. Þá eru 49 aðgerðir eftir, 28 eru tilgreindar í vinnslu, 19 eru í bið og stöðu tveggja skortir. Í svarinu kom einnig fram að árið 2018 hafi aðgerðaáætluninni verið úthlutað 25 millj. kr., engu árið 2019, 5 millj. kr. fyrir árið 2020 og 12 millj. kr. árið 2021. Fjármagn til aðgerðaáætlunarinnar fer því minnkandi þrátt fyrir að meirihluti markmiða og aðgerða áætlunarinnar hafi ekki enn komið til framkvæmda. Ekki hefur dregið úr tíðni sjálfsvíga og var fjöldinn töluvert hærri árið 2020 eftir faraldurinn af völdum COVID-19 og tengdra aðgerða stjórnvalda. Þörfin var orðin mikil fyrir faraldurinn og nú er nauðsynlegt að bregðast við.
    Fólki með geðrænan vanda er vísað frá Landspítala vegna þess að spítalinn annar ekki komufjölda. Því er nauðsynlegt að setja nýja áætlun sem miðar að því að sinna eftirfylgni með einstaklingum í sjálfsvígshættu eftir að þeir hafa leitað til kerfisins, hvort sem meðferð fékkst eða ekki, og að tryggja fullfjármögnun áætlunarinnar. Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja líf og heilbrigði einstaklinga með geðrænan vanda.