Ferill 619. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 982  —  619. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um móttökustöðvar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.


     1.      Telur ráðherra að þvinguð vistun umsækjenda um alþjóðlega vernd í móttökustöðvum þar sem ferðafrelsi einstaklinga er skert og þeir lokaðir inni, sbr. viðbragðsáætlun ríkislögreglustjóra vegna yfirálags á landamærum vegna umsókna um alþjóðavernd, standist 67. gr. stjórnarskrárinnar? Hvaða lagaheimild er fyrir slíkri þvingaðri vistun í móttökustöðvum?
    Viðbragðsáætlun vegna yfirálags á landamærum vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd (UAV) sem gefin var út af embætti ríkislögreglustjóra þann 15.12.2020 er, eins og segir í inngangi hennar, ætlað að segja til um skipulag og stjórn aðgerða til að takast á við yfirálag á landamærum. Markmið hennar er að tryggja skipulögð og samræmd viðbrögð lögreglunnar og annarra viðbragðsaðila, stofnana og æðstu stjórnar ríkisins og er ætlað að vera til leiðbeiningar um fyrstu viðbrögð en felur ekki í sér endanleg fyrirmæli. Þannig er hægt að breyta starfstilhögun með tilliti til ástands og aðstæðna hverju sinni, þrátt fyrir tilvist þessarar áætlunar.
    Í fyrrgreindri viðbragðsáætlun er í lið 6.1 fjallað um móttökustöð fyrir UAV þar sem fram kemur að slík starfsemi er starfrækt í stuttan tíma þegar fjöldi UAV fer yfir þau mörk að ekki er lengur hægt að veita daglega og nauðsynlega þjónustu í venjulegum búsetuúrræðum. Undir sama lið er einnig fjallað um val á staðsetningu, hverjir fara með umsjón og verkefni og verkefnaskiptingu í starfsstöðinni. Í móttökustöð er gert ráð fyrir skráningaraðstöðu til að hefja feril umsókna um alþjóðlega vernd. Þar hefur verið sett upp viðtalsaðstaða ásamt því að heilsugæslan hefur þar starfsaðstöðu og lögreglan sinnir öryggisgæslu og miðar viðbúnað við ástand í móttökustöðinni. Gert er ráð fyrir að Rauði Kross Íslands sjái um daglegan rekstur stöðvarinnar, fæði, svefnaðstöðu, fatnað, aðstöðu fyrir börn og annan þann búnað sem nauðsynlegur er til reksturs stöðvarinnar í samráði við aðgerðastjórn.
    Um móttökumiðstöð er einnig fjallað í 27. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, og 24. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017. Rétt er að taka fram hér, til að fyrirbyggja misskilning, að tilvísun í hugtakið móttökumiðstöð í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, og hugtakið móttökustöð í áðurnefndri viðbragðsáætlun er tilvísun í eitt og sama úrræðið.
    Aðeins ein móttökustöð fyrir UAV er í dag rekin vegna virkjunar viðbragðsáætlunar um yfirálag á landamærum, þ.e. í húsnæði Domus Medica við Egilsgötu í Reykjavík, þar sem umsækjendur um vernd koma aðeins í að meðaltali 2-4 klukkustundir, til viðtala og heilsufarsskoðunar áður en þeim er komið í tímabundið búsetuúrræði. Hvorki í móttökustöð né í tímabundnum búsetuúrræðum er ferðafrelsi einstaklinga skert eða þeir lokaðir inni. Ítrekað er að móttökustöð má ekki rugla saman við svokallaða varðhaldsstöð eða lokað úrræði (e. detention centre) sem þekkist víða erlendis, m.a. sem tímabundin aðstaða fyrir flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd, en slíkt úrræði er ekki til hér á landi.


     2.      Telur ráðherra að eftirlit með umsækjendum um alþjóðlega vernd í móttökustöðvum, svo sem líkamsleit, myndavélaeftirlit og leit í sorpi, sbr. sömu viðbragðsáætlun, standist 71. gr. stjórnarskrárinnar? Hvaða lagaheimild er fyrir slíku eftirliti?
    Í viðbragðsáætlun um yfirálag á landamærum er í lið 6.3 um öryggisgæslu/lögreglu fjallað um aukið eftirlit, s.s. leit á fólki, en þar segir um aukið eftirlit að metið sé eftir aðstæðum og fjölda á hverjum tíma hvort leita þurfi á einstaklingum áður en þeir fara inn í móttökustöðina. Einnig þurfi að meta hverju sinni og eftir aðstæðum hvort nauðsynlegt sé að setja upp eftirlitsmyndavélar.
    Í móttökustöðinni í Domus Medica er almennt ekki gerð leit á fólki og/eða í farangri þess og yrði ekki gert nema sérstök ástæða þætti til. Leit á fólki færi þá aðeins fram að það veitti áður samþykki sitt fyrir því, en heimilt er, sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, að takmarka friðhelgi einkalífs ef það er talið nauðsynlegt til að hægt sé að vernda réttindi annarra einstaklinga. Slíkar takmarkanir verða að byggja á lögum, vera nauðsynlegar, stefna að lögmætum markmiðum og uppfylla skilyrðið um meðalhóf. Þá getur lögregla leitað á einstaklingi ef það er talið nauðsynlegt til þess að vernda þann sem leitað er á og til að vernda aðra einstaklinga, t.d. ef ástæða er til að ætla að einstaklingur beri vopn. Að öðrum kosti þarf að óska eftir úrskurði dómara fyrir því að leita megi á einstaklingi.
    Þannig færi hvers konar leit alltaf fram í samræmi við heimildir lögreglu til leitar, m.a. skv. 17. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, 110. gr. útlendingalaga, nr. 80/2016, og X. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og síðast en ekki síst í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar.
    Eftirlitsmyndavélar eru ekki í móttökustöð umsækjenda um alþjóðlega vernd en ef slíkt úrræði yrði notað þá yrði það einungis á opnum svæðum, og í samræmi við gildandi reglur, í þeim tilgangi að tryggja öryggi einstaklinga. Rétt er að hafa í huga að gera verður ráð fyrir þeim möguleika að fjöldi umsækjenda vaxi svo hratt og verði svo mikill að ekki verði ráðrúm til að útvega þeim annað úrræði við móttöku en gistingu í einhvers konar fjöldahjálparstöð. Forgangsatriði er að tryggja öryggi umsækjenda og við aðstæður af því tagi verður að tryggja eins og unnt er að menn séu óvopnaðir.
    Um rafræna vöktun er fjallað í reglum nr. 837/2006, um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun, sbr. 14. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Í 3. gr. reglnanna kemur fram að vöktun með leynd er óheimil nema hún styðjist við lagaheimild eða úrskurð dómara. Í 4. gr. segir að rafræn vöktun verði að fara fram í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, svo sem í þágu öryggis eða eignavörslu. Í 5. gr. er fjallað um meðalhóf þar sem segir að við alla rafræna vöktun skuli þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn beri til miðað við þann tilgang sem stefnt er að. Skal gæta þess að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skal því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.