Ferill 311. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1003  —  311. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um samræmda móttöku flóttafólks.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Ef komið verður á samræmdri móttöku flóttafólks, eiga þeir sem höfðu áður fengið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum rétt á sömu þjónustu og kvótaflóttamenn og ef svo er, hversu langt aftur gilda þau réttindi?

    Reynsluverkefni um samræmda móttöku flóttafólks hófst í febrúar 2021. Einstaklingar sem fengu alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum 1. apríl 2020 eða síðar áttu þess kost að taka þátt í verkefninu ef þeir voru búsettir í þátttökusveitarfélögum. Miðað var við að hver einstaklingur væri þátttakandi í verkefninu í 12 mánuði. Ekki er fyrirhugað að einstaklingum sem fengu alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum fyrir 1. apríl 2020 standi til boða að taka þátt í samræmdri móttöku flóttafólks, enda er tilgangur samræmdrar móttöku flóttafólks að veita fólki stuðning fyrst eftir að það kemur til landsins.
    Með samræmdri móttöku munu einstaklingar sem fá samþykkta umsókn um alþjóðlega vernd hljóta sömu þjónustu óháð því á hvaða forsendum þeir komu til landsins. Samræmd móttaka lýtur að aukinni félagslegri ráðgjöf og aðstoð við að útvega leiguhúsnæði auk þess sem Vinnumálastofnun annast íslenskunám og samfélagsfræðslu. Samræmd móttaka fjallar ekki um réttindi heldur um aukna þjónustu við hóp sem er í viðkvæmri stöðu.