Ferill 656. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1053  —  656. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Ernu Bjarnadóttur um greiningu á matvælaframboði á Íslandi næstu 12 mánuði.


     1.      Hefur ráðherra aflað upplýsinga um eða látið gera framleiðsluspár fyrir landbúnaðarvörur sem framleiddar eru hér á landi til næstu 12 mánaða í ljósi ört hækkandi matvæla- og aðfangaverðs í heiminum?
    Matvælaráðuneytið fylgist grannt með þróun matvæla og afurðarverðs á heimsmarkaði í kjölfar innrásar í Úkraínu og hvaða áhrif innrásin getur haft á fæðuöryggi á Íslandi og öðrum Evrópulöndum. Matvælaráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum verið í sambandi við matvælaframleiðendur, birgja og hagsmunasamtök vegna röskunar á aðfangakeðju matvæla vegna heimsfaraldurs COVID-19 og nú síðast vegna innrásarinnar í Úkraínu og reglulega er kallað eftir upplýsingum frá söluaðilum áburðar, fóðurs o.fl. Matvælaráðherra upplýsir ríkisstjórn reglulega um þróun mála.

     2.      Hvernig líta slíkar framleiðsluspár út og hvaða þættir sýna slíkar greiningar að geti haft hvað mest áhrif á að út af geti brugðið?
    Ráðuneytið fylgist grannt með þróun á innlendri matvælaframleiðslu og öðrum þáttum sem hafa áhrif á matvælaframleiðslu hverju sinni sem og þróun á alþjóðamörkuðum. Ekki hefur verið gerð heildarframleiðsluspá fyrir næstu 12 mánuði enda breytist staðan ört. Ljóst er að áframhaldandi röskun á alþjóðlegum hrávörumörkuðum getur leitt til ýmissa áskorana fyrir matvælaframleiðslu í heiminum öllum og áhrifa þess mun einnig gæta á Íslandi.

     3.      Hefur ráðherra aflað upplýsinga um birgðir helstu framleiðsluvara í landinu hjá afurðastöðvum og horfur um birgðabreytingar?
    Matvælaráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum verið í sambandi við matvælaframleiðendur, birgja og hagsmunasamtök vegna röskunar á aðfangakeðju matvæla vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og nú síðast vegna innrásarinnar í Úkraínu. Þá er reglulega kallað eftir upplýsingum frá söluaðilum áburðar, fóðurs o.fl. og fylgst með stöðunni. Fram hefur komið í samskiptum ráðuneytisins við framangreinda söluaðila að ýmsar áskoranir hafi komið upp vegna innrásarinnar í Úkraínu en þær hafi ekki til þessa leitt til raskana á framboði á fóðri eða öðrum aðföngum.
    Þá hefur verið skipaður starfshópur um nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum. Starfshópurinn er skipaður af forsætisráðherra. Hlutverk starfshópsins er að annast gerð viðbragðsáætlunar er fjalli m.a. um söfnun upplýsinga um birgðastöðu á hverjum tíma, leiðir til að bregðast við óásættanlegri birgðastöðu mikilvægra þátta og skömmtun og stýringu á úthlutun mikilvægra birgða. Í slíkri viðbragðsáætlun verði skilgreint hvað teljist til neyðarbirgða, umfang og skylda til nauðsynlegs birgðahalds og leiðir til að tryggja nauðsynlega birgðastöðu með hliðsjón af skilgreindum markmiðum, þ.m.t. kerfisbundið samstarf þeirra sem flytja inn eða framleiða vörur sem nauðsynlegar teljast. Hópurinn er að störfum og fyrstu áfangaskýrslu hans er að vænta fljótlega. Matvælaráðherra hefur lagt fyrir ríkisstjórn tillögur og greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands að fæðuöryggisstefnu fyrir Ísland. Tillögurnar eru í 16 liðum og miða að því að efla fæðuöryggi á Íslandi.
     4.      Telur ráðherra að grípa þurfi til frekari ráðstafana til að tryggja framboð búvara og afkomu bænda á komandi mánuðum? Ef svo er, hvaða leiðir hafa verið til skoðunar?
    Fyrr á árinu greiddi matvælaráðuneytið út stuðning, samkvæmt fjárlögum 2022, sem ætlaður er til að koma til móts við miklar hækkanir á áburði sem orðið hafa á milli áranna 2021 og 2022. Miðað við þær upplýsingar sem ráðuneytið hefur á þessum tímapunkti er þess ekki að vænta að skortur verði á framboði. Ástæða er þó til þess að fylgjast grannt með þróun mála, til að mynda fjölda búfjár og öðru sem getur gefið vísbendingar um framboð á næstu misserum. Að svo stöddu hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort eða hvernig verði brugðist við til að koma enn frekar til móts við bændur, til viðbótar við framangreindan stuðning vegna hækkunar á áburðarverði.