Ferill 532. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1064  —  532. mál.
Viðbót.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á fjármálamarkaði (innleiðing o.fl.).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Þorleifsdóttur, Elísabetu Júlíusdóttur, Guðmund Kára Kárason, Gunnlaug Helgason, Hjörleif Gíslason og Tinnu Finnbogadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Flóka Halldórsson, Kristjönu Jónsdóttur, Björk Sigurgísladóttur, Lindu Kolbrúnu Björgvinsdóttur og Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur frá Seðlabanka Íslands.
    Nefndinni barst umsögn um málið frá Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði sex Evrópugerða á fjármálamarkaði verði tekin upp í íslenskan rétt og eru í því skyni með frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021, lögum um aðgerðir gegn markaðssvikum, nr. 60/2021, lögum um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði, nr. 14/2020, lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, lögum um lánshæfismatsfyrirtæki, nr. 50/2017, og lögum um yfirtökur, nr. 108/2007, auk afleiddra breytinga á þrennum öðrum lögum.

Breytingartillögur 1. minni hluta.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands leggur Seðlabankinn til að heimild til eftirlits með útibúum erlendra aðila verði bætt við frumvarpið með tilvísun til 23. gr. laganna við upptalningu 5. mgr. 61. gr. Í 11. mgr. 16. gr. tilskipunar 2014/65/EB um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID II) er fjallað um skyldu lögbærs yfirvalds EES-ríkis þar sem útibú er staðsett til að framfylgja skyldunni sem mælt er fyrir um í 6. og 7. mgr. 16. gr. MiFID II. Er breytingunni ætlað að uppfylla áðurnefndar skyldur Seðlabanka Íslands sem lögbærs yfirvalds. Tekur 1. minni hluti undir tillögur Seðlabanka Íslands og gerir breytingartillögu þess efnis.
    Þá leggur 1. minni hluti til breytingu á 19. gr. frumvarpsins, að tillögu fjármála- og efnahagsráðuneytis. Lagt er til að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1717 frá 14. nóvember 2018 um breytingu á reglugerð (ESB) 1093/2010 að því er varðar aðsetur Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar verði veitt lagagildi. Gerðin varðar breytingu á stofnsetningu Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) að því leyti að höfuðstöðvar stofnunarinnar færast frá London til Parísar, vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Reglugerðin hefur ekki efnisleg áhrif hér á landi, en var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 260/2019 frá 25. október 2019. Í ljósi þess að reglugerðin tók gildi á Evrópska efnahagssvæðinu 1. mars 2021 og að umfang gerðarinnar er óverulegt þykir æskilegt að bæta henni við upptalningu á þeim gerðum sem innleiddar eru með frumvarpinu.
    Aðrar breytingartillögur 1. minni hluta eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „sem meginstarfsemi er ekki veiting“ í b-lið 2. gr. komi: sem hefur ekki að meginstarfsemi veitingu.
     2.      Á eftir 9. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Á eftir orðinu „ákvæðum“ í 5. mgr. 61. gr. laganna kemur: 23. gr.
     3.      Í stað orðanna „veita seljanleika“ í 3. tölul. c-liðar 11. gr. komi: stuðla að seljanleika.
     4.      18. gr. orðist svo:
                      Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: 2. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2115 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á tilskipun 2014/65/ESB og reglugerðum (ESB) nr. 596/2014 og (ESB) 2017/1129 að því er varðar að stuðla að notkun vaxtarmarkaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 20 frá 24. mars 2022, bls. 82–91.
     5.      Við 19. gr. bætist nýr stafliður, a-liður, svohljóðandi: Við 1. tölul. bætist: með þeim breytingum sem leiðir af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1717 frá 14. nóvember 2018 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1093/2010 að því er varðar aðsetur Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 90 frá 7. nóvember 2019, bls. 275–276, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 260/2019 frá 25. október 2019.
     6.      Við 25. gr. bætist nýr töluliður svohljóðandi: Lög um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu, nr. 20/2021: Í stað „63. tölul.“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: 64. tölul.

Alþingi, 19. maí 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir.