Ferill 605. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1083  —  605. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Hildu Jönu Gísladóttur um jarðgangaframkvæmdir í Fjallabyggð.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Stendur til að flýta jarðgangaframkvæmdum í Fjallabyggð? Ef svo er, hvenær er stefnt að því að hefja framkvæmdir?

    Endurskoðun samgönguáætlunar hófst með gerð grænbókar um samgöngumál sem út kom í september 2021. Gert er ráð fyrir því að tillaga til þingsályktunar um nýja samgönguáætlun fyrir árin 2023–2037 verði lögð fyrir Alþingi haustið 2022.
    Þá er unnið að heildstæðri greiningu á jarðgangakostum á Íslandi í samræmi við samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024. Þar er gert ráð fyrir því að valkostir á einstökum leiðum verði metnir með tilliti til fýsileika, kostnaðar og félagshagfræðilegs ábata. Á grunni þeirrar greiningar verður síðan gerð tillaga að forgangsröðun jarðgangakosta til lengri tíma sem tekin verður til umfjöllunar við gerð nýrrar samgönguáætlunar.
    Vegagerðin gaf út yfirlitsáætlun jarðganga í júlí 2021. Þar er gerð grein fyrir athugunum á alls 18 jarðgangakostum utan höfuðborgarsvæðisins. Í áætluninni eru tilgreind 11 jarðgangaverkefni sem mælt er með að tekin verði fyrst til nánari skoðunar. Þar á meðal eru jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar auk breikkunar Múlaganga. Vegagerðin vinnur jafnframt að því að meta samfélagsáhrif þessara 18 jarðgangakosta.
    Það mun því koma til kasta Alþingis að forgangsraða jarðgangakostum á grundvelli framangreindrar vinnu þegar tillaga að nýrri samgönguáætlun verður tekin til meðferðar á næsta löggjafarþingi.