Ferill 444. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1086  —  444. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um útgreiðslu séreignarsparnaðar til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.


     1.      Hversu margir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar hafa óskað eftir því hjá Skattinum að útgreiðsla séreignarsparnaðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða VIII í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sé skráð í reit 143 í skattframtali og hversu mörgum hefur verið synjað um slíka leiðréttingu?
    Sú úttektarheimild sem fyrirspurnin varðar hefur önnur áhrif á bótagreiðslur en almenna úttektarheimildin á séreignarsparnaði. Vegna þess er nauðsynlegt að færa þær í tvo mismunandi reiti á skattframtali þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Almenna úttektin fer í reit 140 en sérstök heimild vegna kórónuveirufaraldursins fer í reit 143.
    Á árinu 2021 kom í ljós að sumir lífeyrissjóðir og vörsluaðilar lífeyrissparnaðar höfðu ekki haldið þessum útgreiðslum aðgreindum. Gagnaskil þeirra til Skattsins í tengslum við forskráningu á framtöl einstaklinga voru því ófullkomin að þessu leyti sem varð til þess að of mikið var um að úttektir væru forskráðar í reit 140. Af þessu tilefni hefur þurft að gera leiðréttingar á framtölum talsvert margra einstaklinga sem nýttu sér heimildina og ef um er að ræða bótaþega getur leiðréttingin haft áhrif á bótagreiðslur. Þær leiðréttingar sem gerðar hafa verið af þessu tilefni hafa ýmist verið gerðar að frumkvæði einstaklinga eða vegna leiðréttra gagnaskila frá lífeyrisjóðum og vörsluaðilum.
    Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hafa alls 1.672 mál verið stofnuð hjá stofnuninni í tengslum við færslu á tekjum úr reit 140 (almenn úttekt séreignarsparnaðar) í reit 143 (sérstök útborgun séreignarsparnaðar). Fram kemur að 1.598 mál hafi verið stofnuð vegna leiðréttra gagnaskila lífeyrissjóða, 74 mál hafi verið stofnuð vegna kæra eða skatterinda frá einstaklingum, fallist hafi verið á beiðnir eða breytingar samþykktar í 1.627 málum, 36 beiðnum hafi verið hafnað, tvær beiðnir hafi verið samþykktar að hluta og sjö beiðnir séu í vinnslu.

     2.      Hjá hvaða vörsluaðilum var séreignarsparnaður þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem urðu fyrir skerðingu greiðslna hjá Tryggingastofnun við uppgjör ársins 2020 vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar?
    Við vinnslu svarsins óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Í svari stofnunarinnar kom fram að Tryggingastofnun hefði upplýsingar um greiðendur séreignarsparnaðar en greiðandi og vörsluaðili væri sá sami í flestum tilvikum. Fram kemur að nokkrir vörsluaðilar séu þó innan Greiðslustofu lífeyrissjóðanna. Samkvæmt úttekt stofnunarinnar höfðu ellefu greiðendur séreignarsparnaðar greitt út séreignarsparnað sem skráður var undir tekjulið 140 á skattframtali og hafði það áhrif til lækkunar á sérstaka uppbót á lífeyri til framfærslu.

    Um eftirtalda greiðendur er að ræða:
    Allianz Lebensversicherungs
    Almenni lífeyrissjóðurinn
    Frjálsi lífeyrissjóðurinn
    Greiðslustofa lífeyrissjóða
    Íslandsbanki
    Íslenski lífeyrissjóðurinn
    Landsbankinn Eignastýring
    Lífeyrisauki KB
    Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins – S-deild
    Lífeyrissjóður verzlunarmanna
    Sparnaður hf.

     3.      Í hve mörgum tilvikum hefur Skatturinn skorað á vörsluaðila að yfirfara gagnaskil sín vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar á árinu 2020? Í hve mörgum tilvikum hefur vörsluaðili orðið við þeirri beiðni?
    Í svari Skattsins kemur fram að í október 2021 hafi stofnunin skorað á átta lífeyrissjóði að endurskoða gagnaskil sín vegna úttekta úr séreignasjóði á árinu 2020 og eftir atvikum að gera breytingar á gagnaskilum sínum. Á þeim tímapunkti hafi einn sjóður þegar verið búinn að leiðrétta gagnaskil sín, af þessum átta lífeyrissjóðum hafi tveir sjóðir leiðrétt gagnaskil sín strax en hinir sex hafi ekki brugðist við innan 15 daga frá bréfi Skattsins. Síðan þá hafi þrír sjóðir leiðrétt gagnaskil sín fyrir nokkra einstaklinga sem allir hafa fengið leiðréttingu á framtali.

     4.      Hvers vegna setti ráðherra ekki skýrari reglur um útgreiðslu séreignarsparnaðar á grundvelli bráðabirgðaákvæðisins, sbr. reglugerðarheimild í 7. mgr. ákvæðisins, svo sem um skráningu tekna í skattframtal og samspil framkvæmdarinnar hjá vörsluaðila, Skattinum og Tryggingastofnun?
    Í 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VIII í lögum nr. 129/1997 kemur skýrt fram að hin tímabundna útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæðinu eigi ekki að hafa áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð né heldur áhrif á greiðslu annarra bóta sem þar eru upptaldar. Með vísan til skýrleika ákvæðisins var ekki talin þörf á að kveða nánar á um framkvæmd þess í reglugerð.

     5.      Hyggst ráðherra gera úrbætur í þessum málum og setja skýrari reglur um útgreiðslu séreignarsparnaðar? Hvenær er slíkra úrbóta þá að vænta?
    Með vísan til þess að hin tímabundna heimild til úttektar á séreignarsparnaði sem um er spurt er fallin úr gildi telur ráðherra að svo stöddu ekki þörf á að kveða nánar á um framkvæmdina í reglugerð. Þær leiðréttingar sem nauðsynlegt hefur verið að grípa til er hægt að gera að óbreyttum lögum og reglugerðum hjá þeim stofnunum sem eiga í hlut. Ráðuneytið fylgist þó með framgangi leiðréttinganna í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og mun gera það áfram þar til nauðsynlegum leiðréttingum telst lokið.