Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1089  —  475. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um breytingu á lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (lífræn framleiðsla).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Iðunni Maríu Guðjónsdóttur frá matvælaráðuneyti og Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum verslunar og þjónustu.
    Nefndinni barst umsögn um málið frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/848 frá 30. maí 2018 um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara og um niðurfellingu á reglugerð ráðsins (EB) nr. 834/2007. Í því felst að stefnt er að því að einfalda regluverk sem gildir um lífræna framleiðslu, styrkja eftirlitskerfi með framleiðslunni, stuðla að aukinni dýravelferð og ábyrgri notkun orku og náttúruauðlinda og að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni. Ákvæði reglugerðarinnar haldast í hendur við ákvæði reglugerðar (ESB) 2017/625 um opinbert eftirlit sem innleidd voru í lög um matvæli og lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Auk breytinga á þeim lögum er lagt til að lög um lífræna landbúnaðarframleiðslu verði felld úr gildi í heild sinni en þau veita ekki fullnægjandi lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðarinnar. Um efni frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar með því.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni var bent á að innflytjendur lífrænna vara frá Bretlandi hefðu lent í millibilsástandi vegna Brexit þar sem bresk vottun teldist ekki lengur gild við innflutning til Íslands. Fram kom að það ætti einungis við um vörur sem fluttar væru inn til Bretlands frá þriðja ríki og umpakkað í pakkningar með breskum merkingum. Hins vegar tæki jafngildisvottun til þeirra lífrænu vara sem framleiddar eru og vottaðar í Bretlandi. Brýnt sé því að ljúka innleiðingu reglugerðarinnar í íslenskan rétt til að stuðla að lagasamræmi og virkni gerðra samninga.
    Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið sem sett er fram í greinargerð frumvarpsins að brýnt sé að vinna að því að reglugerðin öðlist sem fyrst gildi svo að ekki komi til mikillar röskunar á opinberu eftirliti með lífrænum afurðum og að inn- og útflutningshagsmunum verði ekki stefnt í uppnám.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Helga Vala Helgadóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti meiri hlutans.

Alþingi, 30. maí 2022.


Stefán Vagn Stefánsson,
form.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
frsm.
Hildur Sverrisdóttir.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Hanna Katrín Friðriksson. Haraldur Benediktsson.
Helga Þórðardóttir. Helgi Héðinsson.