Ferill 544. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1102  —  544. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um tengingu almenningssamgangna við flugstöðvar.


     1.      Hversu langt er á milli flugstöðvarbygginga flugvalla í grunnneti samgönguáætlunar og næstu strætóstoppistöðva? Er markvisst unnið að eflingu tenginga á milli flugs og strætós, notendum til hagsbóta?
         Sjá hér að neðan töflu yfir flugvelli í grunnneti og vegalengd að stoppistöð þar sem hún er fyrir hendi.

Flugvöllur Stoppistöð Vegalengd að stoppistöð
Bíldudalsflugvöllur 0 m*
Gjögursflugvöllur Nei Enginn vagn
Hornafjarðarflugvöllur Nei Enginn vagn
Þórshafnarflugvöllur Nei Enginn vagn
Vopnafjarðarflugvöllur Nei Enginn vagn
Grímseyjarflugvöllur Nei Enginn vagn
Reykjavíkurflugvöllur 170 m
Ísafjarðarflugvöllur 0 m*
Akureyrarflugvöllur Nei Enginn vagn
Egilsstaðaflugvöllur 0 m*
Húsavíkurflugvöllur Nei Enginn vagn
Vestmannaeyjaflugvöllur Nei Enginn vagn
Keflavíkurflugvöllur 190 m
* Stoppistöð innan flugstöðvar

    Vegagerðin vinnur að endurnýjun leiðarkerfis almenningssamgangna á landsbyggðinni samkvæmt markmiðum stefnumótunarinnar Ferðumst saman. Í því felst m.a. að koma á öruggri tengingu á milli ferðakosta: með ferjum, flugi og almenningsvögnum.
    Sérleyfi fyrir flug, almenningsvagna og ferjur eru rekin samkvæmt útboðssamningum Vegagerðarinnar sem gilda í allt að fimm ár að meðtöldum framlengingarárum. Breytingarnar þarf því að vinna samhliða endurnýjun þessara samninga sem mun eiga sér stað á næstu þremur árum.

     2.      Telur ráðuneytið að staðsetning nýrrar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli sé ákjósanleg með tilliti til almenningssamgangna og aðgengis? Hvernig samræmist núverandi staðsetning stefnu ríkisins í almenningssamgöngum og umhverfismálum? Hvaða viðræður áttu sér stað við skipulagsyfirvöld varðandi möguleikann á annarri staðsetningu flugstöðvar, t.d. í nágrenni við BSÍ?
    Stutt er síðan tekin var ákvörðun um að flugstöð við Reykjavíkurflugvöll yrði áfram á sama stað. Ýmsir valkostir voru skoðaðir, þar á meðal á BSÍ-reitnum að tillögu Reykjavíkurborgar. Flugrekendur töldu það hins vegar lakari kost. Þá er jafnframt talið að ná megi ásættanlegri tengingu við almenningssamgöngur með núverandi staðsetningu.