Ferill 650. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1116  —  650. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um málefni kjörræðismanns Íslands í Hvíta-Rússlandi.


     1.      Hvenær og hversu oft hefur ráðherra eða stofnanir á vegum hans haft samskipti, á hverju ári, við Alexander Mosjenskí eða vegna hans frá því að hann varð kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi árið 2007?
    Ræðismaður Íslands í Belarús heyrir undir sendiráð Íslands í Moskvu. Regluleg samskipti eiga sér stað milli sendiráðs og ræðismanns og ræðismaður fær reglulega almennar leiðbeiningar og upplýsingar um framkvæmd ræðismála líkt og aðrir ræðismenn.

     2.      Hvenær og hversu mikil voru þau samskipti vegna áforma um að setja Mosjenskí á bannlista?
    Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur þegar verið gerð grein fyrir samskiptum utanríkisráðuneytisins í kjölfar þess að kjörræðismaður Íslands í Belarús hafði samband við sendiráðið í Moskvu vegna fregna af því að hann kynni að vera settur á lista yfir aðila sem sæta þvingunaraðgerðum. Skjöl úr málaskrá ráðuneytisins voru afhent nefndinni með áskilnaði um trúnað, sbr. 3. mgr. 50. gr. þingskapalaga, nr. 55/1991, og kynnt á lokuðum nefndarfundi vegna þess mats ráðuneytisins að nauðsynlegt væri að samskiptin færu leynt til að tryggja áframhaldandi góð samskipti og gagnkvæmt traust viðkomandi aðila.

     3.      Hafa íslenskum stjórnvöldum einhvern tíma borist ábendingar eða athugasemdir um meinta spillingu eða pólitísk tengsl Mosjenskís við Aleksander Lúkasjenkó eða hvítrússnesk stjórnvöld? Ef svo er, hvenær og hversu oft?
    Íslenskum stjórnvöldum hafa ekki borist slíkar ábendingar að undanskilinni umfjöllun íslenskra fjölmiðla. Auk þess hafa málefni ræðismannsins komið til umfjöllunar á Alþingi.

     4.      Hafa borist ábendingar um að íslenskar vörur séu endurmerktar í Hvíta-Rússlandi og uppruna þeirra breytt?
    Við leit í málaskrá ráðuneytisins fundust engin erindi eða ábendingar varðandi endurmerkingar íslenskra vara í Belarús þannig að upprunalandi hafi verið breytt. Bent er á að íslensk stjórnvöld hafa eftirlit með vörum hér á landi í samræmi við gildandi lög og reglur og stjórnvöld í Belarús gera slíkt hið sama í samræmi við gildandi lög og reglur þar í landi.

     5.      Hvers vegna eru samskipti við ESB um mögulegar þvingunaraðgerðir ESB gagnvart kjörræðismanni Íslands óformleg? Væri ekki eðlilegt að slík samskipti væru formleg og skráð til hins ýtrasta ef ESB væri að ósekju að ganga þannig að kjörræðismanni Íslands?
    Ýmsar hefðir og venjur gilda í samskiptum ríkja og samskiptum við fjölþjóðastofnanir og milli ríkja. Þannig fara formleg diplómatísk samskipti að jafnaði fram með svokölluðum nótusendingum (note verbale), svo og bréfaskiptum.
    Eðli mála, atvik og kringumstæður ráða miklu um hvort kosið sé að nota formleg samskipti eða óformleg. Formleg samskipti taka að jafnaði lengri tíma en óformleg og aðstæður geta krafist þess að samskipti séu óformleg.
    Samskipti við ESB eða aðrar fjölþjóðastofnanir og ríki, formleg sem óformleg, falla undir reglur um skráningarskyldu nr. 320/2016 um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands.

     6.      Hverjar eru reglur um hvort erindi skuli vera formleg eða óformleg? Hver tekur slíka ákvörðun? Hvaða reglur gilda um skráningu óformlegra erinda?
    Líkt og áður segir gilda ýmsar hefðir og venjur um samskipti ríkja og samskipti við fjölþjóðastofnanir. Þar sem Ísland er með sendiskrifstofur, fastanefndir eða aðalræðisskrifstofur gagnvart ríkjum og fjölþjóðastofnunum sinna útsendir fulltrúar virku og miklu samráði, óformlegum samskiptum og gagnkvæmri upplýsingamiðlun á hverjum stað.
    Það ræðst almennt af efni erindreksturs, venjum og hefðum í hvaða farveg hann er settur. Um skráningu óformlegra erinda gilda líkt og áður segir reglur nr. 320/2016 um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands.

    Þrjár vinnustundir fóru í að taka svarið saman.