Ferill 511. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1141  —  511. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Evu Dögg Davíðsdóttur um hagrænt mat á þjónustu vistkerfa og virði náttúrunnar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Telur ráðherra fýsilegt að gera heildstætt og hagrænt mat á þjónustu vistkerfa Íslands og virði náttúrunnar í efnahagslegum skilningi?
     2.      Hyggst ráðherra beita slíkri vistkerfisnálgun í auknum mæli við stefnumótun og ákvarðanatöku sem tengist t.d. nýtingu á auðlindum?
     3.      Telur ráðherra þörf á að leggja mat á hagrænt gildi óbyggðra víðerna á Íslandi í ljósi sérstöðu þeirra og í ljósi þess að kortleggja þarf víðerni Íslands vegna breytinga á náttúruverndarlögum?


    Við ákvarðanir um nýtingu náttúruauðlinda þarf ávallt að taka mið af sjónarmiðum um sjálfbærni. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer ekki með málefni auðlinda og náttúruverndar en vert er að benda á að stuðlað er að sjálfbærri þróun, m.a. með lögum nr. 111/2021, um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Eftir atvikum getur umhverfismat falið í sér hagrænar greiningar. Þá er kolefnishlutlaus framtíð ein af sex velsældaráherslum ríkisstjórnarinnar sem hafa sérstök áhrif á stefnumótun í ríkisfjármálum, þ.m.t. við gerð fjármálaáætlunar ár hvert.
    Mat á hagrænu gildi umhverfisþátta, þ.m.t. vistkerfa og víðerna, er í mörgum tilfellum fýsilegt en flókið viðfangsefni þar sem erfitt getur verið að komast að einhlítri niðurstöðu. Vel þekkt vandamál eru við slíkar greiningar eins og fjallað er um í skýrslu Dasgupta um hagfræði líffræðilegrar fjölbreytni sem gefin var út á vegum fjármálaráðuneytis Bretlands á árinu 2021. 1 Það hefur meðal annars reynst vandkvæðum háð að afla áreiðanlegra niðurstaðna um verðmæti umhverfisþátta með spurningakönnunum meðal almennings, sem oft mynda kjarnann í slíkum greiningum.
    Á vegum Sameinuðu þjóðanna er unnið að aðferðafræði til að meta verðmæti svokallaðs náttúrulegs fjármagnsstofns, þ.e. tiltekinna þjónustuþátta sem náttúran veitir, svo sem orkugjafa og uppskeru. Slíkar greiningar geta veitt tiltekna innsýn þótt langt sé í land með að þær fangi allt virði náttúrunnar. Í skýrslu Dasgupta er fjallað um beitingu slíkra greininga í Bretlandi og Kína. Af þeirri umfjöllun má ráða að nokkuð sé í land með að þær greiningar nýtist fyllilega við stefnumótun. Eðlilegt er að viðeigandi aðilar á Íslandi fylgist með þessari alþjóðlegu þróun. Hagstofa Íslands hefur forystu um gerð og samhæfingu opinberra hagtalna á Íslandi.



1    Dasgupta, P. (2021), The Economics of Biodiversity: The Dasgupta Review. (London: HM Treasury).