Ferill 707. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1164  —  707. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um þvingaða lyfjagjöf við brottvísanir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur fólki, sem sótti um alþjóðlega vernd en flutt var úr landi með aðstoð lögreglu, verið gefin lyf gegn vilja þess í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísunina?

    Einstaklingum, sem fluttir hafa verið úr landi af hálfu stoðdeildar ríkislögreglustjóra, eru ekki og hafa ekki verið gefin lyf gegn vilja þeirra í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísun þannig að viðkomandi sé meðfærilegur í flutningum. Hins vegar hafa komið upp tilvik þar sem einstaklingur hefur við handtöku, sem undanfari flutnings úr landi í fylgd, farið í þannig ástand að nauðsynlegt hefur verið að gefa viðkomandi róandi lyf í þeim tilgangi að viðkomandi skaði hvorki sjálfan sig eða aðra. Slíkt er einungis og ávallt að undangenginni ákvörðun heilbrigðisstarfsfólks, ekki samkvæmt beiðni stoðdeildar, og er lyfjagjöfin þá framkvæmd af heilbrigðisstarfsmanni. Í slíkum aðstæðum er framkvæmd brottvísunar eða frávísunar frestað þangað til ástand viðkomandi er metið þannig af lækni að óhætt sé að flytja viðkomandi.