Ferill 679. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1215  —  679. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (fjöldatakmörkun rafmagnsbifreiða o.fl.).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hlyn Ingason, Elínu Guðjónsdóttur og Guðlaugu Maríu Valdemarsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Óskar Helga Albertsson og Bjarna A. Lárusson frá Skattinum, Jóhannes Jóhannesson frá Bílgreinasambandinu og Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Umsagnir bárust frá Bílgreinasambandinu, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum ferðaþjónustunnar, Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur, KPMG ehf., Rafbílasambandi Íslands, Skattinum og Ungum umhverfissinnum.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þrjár breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem ætlað er að gilda tímabundið. Í fyrsta lagi er um að ræða heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts til björgunarsveita vegna vinnu við að sérútbúa ökutæki björgunarsveita til björgunarstarfa. Í öðru lagi er lagt til að fjölga rafmagnsbifreiðum sem hafa fengið niðurfellingu virðisaukaskatts og kveða á um ný fjárhæðarmörk þeirrar heimildar. Í þriðja lagi er lögð til breyting að því er varðar heimild til að undanþiggja tiltekna fjárhæð frá skattskyldri veltu við endursölu á vistvænum bifreiðum.

Umfjöllun nefndarinnar.
Langtímastefna og lengri gildistími.
    Fyrir nefndinni komu m.a. fram tillögur um að lengja gildistíma frumvarpsins og að mikilvægt væri að sett yrði skýr langtímastefnu í þessum málum. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að þær aðgerðir sem gripið er til séu til samræmis við skýra framtíðarsýn en jafnframt er nauðsynlegt að til staðar sé svigrúm til að meta árangur og reynslu af tilteknum aðgerðum. Þá bendir meiri hlutinn á að þessar aðgerðir og fyrirliggjandi frumvarp eru í samræmi við langtímaáætlun stjórnvalda enda er það markmið ríkisstjórnarinnar að fjöldi rafbíla og annarra vistvænna bifreiða á Íslandi verði orðinn 100.000 árið 2030. Þá er gert ráð fyrir því í stjórnarsáttmálanum að full orkuskipti verði eigi síðar en árið 2040. Þær heimildir sem verið hafa í lögum í tæpan áratug um lægri virðisaukaskatt af rafmagnsbifreiðum hafa leikið stórt hlutverk í orkuskiptum í fólksbifreiðaflotanum og mikilvægt að halda áfram í þá átt en að framlenging aðgerða sem þessara sé byggð á reynslu og góðu árangursmati.

Breytingartillögur.
Létt bifhjól.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að rétt væri að afnema einnig virðisaukaskatt af léttum bifhjólum. Umhverfis- og samgöngunefnd fjallaði sérstaklega um skráningarskyldu léttra bifhjóla á síðasta löggjafarþingi í tengslum við umfjöllun sína um breytingu á umferðarlögum (280. mál á 151. löggjafarþingi). Nefndin hafði við setningu umferðarlaga, nr. 77/2019, lagt til að létt bifhjól í flokki I yrðu áfram skráningarskyld og var sú breytingartillaga samþykkt. Eins og fram kemur í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar (þingskjal 1028, 280. mál á 151. löggjafarþingi) olli þessi skráningarskylda nokkrum vandkvæðum í framkvæmd og skráningarskyldan hefði reynst borgurum meira íþyngjandi en efni stóðu til. Auk þess fæli skráningarskyldan í sér aukna stjórnsýslubyrði þar sem ákvæðið hefði afturvirk áhrif gagnvart þeim farartækjum sem þegar væru í umferð.
    Skilgreining á léttu bifhjóli í 9. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, tekur mið af skilgreiningu létts bifhjóls í umferðarlögum. Við breytingu umferðarlaga og afnám skráningarskyldu léttra bifhjóla í flokki I var samhliða ekki gerð breyting á 2. tölul. 9. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt sem kveður á um skráningarskyldu léttra bifhjóla í ökutækjaskrá. Afleiðing þess er sú að við tollafgreiðslu hafa tollyfirvöld hafnað niðurfellingu virðisaukaskatts við innflutning á léttum bifhjólum í flokki I þar sem gerð er krafa um skráningu léttra bifhjóla í ökutækjaskrá. Vegna þessa er lögð til sú breyting á 2. tölul. 9. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt að skráningarskylda léttra bifhjóla í flokki I í ökutækjaskrá verði afnumin og að skráningarskyldan verði eingöngu miðuð við létt bifhjól í flokki II. Með því verður heimilt að fella niður virðisaukaskatt af léttum bifhjólum að hámarki 96 þús. kr.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir f-lið 2. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Á eftir orðunum „Létt bifhjól“ í 3. málsl. 2. tölul. 9. mgr. kemur: í flokki II.

    Ágúst Bjarni Garðarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 11. júní 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
frsm.
Diljá Mist Einarsdóttir.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.