Ferill 569. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1235  —  569. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009 (framlenging bráðabirgðaákvæða).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinar Örn Steinarsson og Vilmar Frey Sævarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sigríði Mogensen og Nönnu Jakobsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Árna Grétar Finnsson og Pál Ásgeir Guðmundsson frá Samtökum atvinnulífsins, Jóhannes Stefánsson frá Viðskiptaráði Íslands, Hilmar Veigar Pétursson frá CCP hf., Svein Sölvason og Tómas Eiríksson frá Össuri hf., Tryggva Hjaltason frá hugverkaráði Samtaka iðnaðarins, Elvar Örn Þormar og Ásþór Tryggva Steinþórsson frá Reon ehf., Fróða Steingrímsson frá Framvís – samtökum vísifjárfesta, Harald Inga Birgisson og Jóhann Óla Eiðsson frá Deloitte ehf., Kristin Hróbjartsson frá Running Tide Iceland ehf., Björk Kristjánsdóttur frá Carbon Recycling International ehf., Ragnheiði M. Magnúsdóttur frá Möggum ehf., Ívar Kristjánsson frá 1939 Games ehf. og Pétur Má Halldórsson frá Nox Medical.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá 1939 Games ehf., Carbon Recycling International ehf., CCP hf., Össuri hf. og Marel hf., Deloitte ehf., Framvís – samtökum vísifjárfesta, hugverkaráði Samtaka iðnaðarins, Kvenréttindafélagi Íslands, Möggum ehf., Nox Medical ehf., Reon ehf., Running Tide Iceland ehf., Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Samtökum fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni, Samtökum leikjaframleiðenda, Samtökum sprotafyrirtækja og Viðskiptaráði Íslands. Þá barst nefndinni minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum til bráðabirgða í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2019, þess efnis að ákvæði sem varða skattfrádrátt nýsköpunarfyrirtækja vegna starfsemi þeirra árin 2020 og 2021 gildi einnig um starfsemi þeirra á árinu 2022. Þá eru lagðar til lækkanir bæði á frádráttarhlutfalli og hámarkskostnaði til útreiknings á frádrætti.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Fyrir nefndina komu líkt og að framan greinir fjölmargir gestir, sem flestir hvöttu til þess að framlengja bráðabirgðaákvæði laganna óbreytt, eða að hækka ætti frádráttarhlutfall og hámarkskostnað umfram það sem gert er ráð fyrir í núgildandi bráðabirgðaákvæði.
    Fyrir nefndinni kom fram að hugvit og nýsköpun væru að verða að styrkri stoð í hagkerfi Íslands. Nú starfi um 12.000 manns í þessum iðnaði eða um 6% vinnandi fólks í landinu. Hugverka- og nýsköpunariðnaðurinn sé vaxandi útflutningsstoð sem byggist að miklu leyti á fjárfestingu í rannsóknum og þróun og það sé í samræmi við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að efla rannsóknar- og þróunarverkefni í því skyni að fjölga störfum og gera hugviti hærra undir höfði innan íslensks efnahagslífs. Fyrirsjáanleiki skipti miklu máli þegar komi að fjárfestingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og að breytingar á hlutfalli styrkja, þó ekki séu nema að litlu leyti, geti skipt sköpun þegar kemur að því að laða erlenda sem innlenda aðila að fjárfestingu í íslensku hugviti.
    Nefndin ræddi mikilvægi greiningar á stöðu nýsköpunariðnaðarins hér á landi á vegum OECD sem nú er unnið að. Meiri hlutinn væntir þess að í framhaldi umræddrar greiningar verði mótuð heildstæð stefna um greinina til framtíðar. Að mati meiri hlutans er mikilvægt að mótuð verði stefna um nýsköpun líkt og gert er um annan samfélagslega mikilvægan iðnað svo að markmið og stefna Íslands á sviði rannsóknar- og þróunar sé skýr og raunhæf.
    Þá kom fram að margir höfðu talið nær tryggt að úrræðið yrði framlengt óbreytt, enda vísað til þess í stjórnarsáttmála að ríkisstjórnin hygðist viðhalda endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar og ívilnunum til grænna fárfestinga og efla grunnsjóði í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Um mikilvæga stoð sé að ræða, sem laði að fjárfestingar í rekstrarumhverfi sem reynist mörgum fyrirtækjum erfitt. Rannsóknir og þróun taki oft langan tíma, en skili sér á heildina litið margfalt til baka til samfélagsins í formi skatttekna.
    Einnig kom fram að mikilvægt væri að fram færi heildarúttekt á árangri verkefnisins. Telur meiri hlutinn brýnt að ráðist verði í slíka úttekt. Með henni megi stýra enn frekar með hvaða hætti fjármunir ríkisins nýtist til að efla rannsóknir og þróun á Íslandi. Meðal þess sem úttektin þarf að beinast að er að skilgreina betur hver skilyrði fyrir endurgreiðslum eru og efla getu Rannís til að fara yfir umsóknir til þess að tryggt sé að stuðningur í gegnum endurgreiðslur fari í það sem hann á að fara, þ.e. rannsóknir og þróun. Tryggja þarf að fastur kostnaður fyrirtækja verði ekki merktur liðnum nýsköpun og þróun. Einnig þurfi að liggja fyrir hver sé eigandi verkefnisins.

Breytingartillögur.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu þess efnis að frádráttarhlutfall skv. 1. gr. haldist óbreytt frá því bráðabirgðaákvæði sem nú er í gildi en að hámarkskostnaður verði sá sami og lagður er til í frumvarpinu, eða 1.000 millj. kr. Telur meiri hlutinn slíka breytingu koma til móts við þau sjónarmið sem höfð voru uppi fyrir nefndinni, en jafnframt koma til móts við aukna kröfu um ábyrga stjórn ríkisfjármála í ljósi óvissu um efnahagsþætti, svo sem verðbólgu og vaxtahækkanir. Markmið skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Sífellt fleiri nýsköpunarfyrirtæki hafa nýtt sér þennan stuðning sem hefur verið mikilvæg hvatning til nýsköpunarfyrirtækja og er talinn eiga stóran þátt í öflugum vexti nýsköpunarfyrirtækja á undanförnum árum. Þær ívilnanir sem felast í bráðabirgðaákvæðum laganna hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki í þeirri efnahagslegu óvissu sem fylgt hefur heimsfaraldri kórónuveirunnar. Meiri hlutinn telur mikilvægt að samkeppnishæfni íslenskra nýsköpunarfyrirtækja sé áfram tryggð eftir því sem dregur úr efnahagslegum áhrifum faraldursins hér á landi og á heimsvísu. Meiri hlutinn leggur því til, með hliðsjón af tillögum umsagnaraðila, að frádráttarhlutfall nýsköpunarfyrirtækja verði áfram 35 hundraðshlutar frá álögðum tekjuskatti þeirra árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar á rannsóknar- og þróunarverkefnum. Meiri hlutinn leggur til breytingu á 2. gr. frumvarpsins sem er tæknilegs eðlis og þarfnast ekki útskýringar.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi:

BREYTINGU


     1.      1. gr. orðist svo:
             Í stað orðanna „og 2022“ í ákvæði til bráðabirgða I í lögunum kemur: 2022 og 2023.
2.     2. gr. orðist svo:
             Við ákvæði til bráðabirgða II í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. málsl. 1. mgr. 10. gr. skal hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árið 2023 vera samtals 1.000.000.000 kr., þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu skv. 6. gr.

Alþingi, 10. júní 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form.
Ágúst Bjarni Garðarsson,
frsm.
Diljá Mist Einarsdóttir.
Guðbrandur Einarsson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.