Ferill 679. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1245  —  679. mál.
1. minni hluti.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (fjöldatakmörkun rafmagnsbifreiða o.fl.).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

    Frá árinu 2012 hafa 27,5 milljarðar kr. verið veittir í skattaívilnanir vegna vistvænna bifreiða. Með frumvarpi þessu er lagt til að hækka fjöldatakmörkun rafmagnsbifreiða sem geta notið slíkrar ívilnunar á þessu ári og því næsta um þriðjung. Gert er ráð fyrir því að það muni hafa í för með sér rúmlega 5,5 milljarða kr. aukið tekjutap fyrir ríkissjóð.
    Fyrsti minni hluti er fylgjandi orkuskiptum í samgöngum og telur jákvætt að í öndverðu hafi verið skapaðir hvatar til að flýta fyrir þeim, en bendir þó á að þeir hvatar eru engu að síður ómarkvissir og virðist lítill gaumur hafa verið gefinn að því hvernig þeir dreifðust á ólíka þjóðfélagshópa. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er algengasta verð þeirra rafmagnsbifreiða sem hafa notið ívilnunarinnar á bilinu 4,5–5,5 millj. kr. og meiri hluti þeirra kostaði meira en 4 millj. kr. Lágtekjuhópar á borð við öryrkja og fólk á lágmarkslaunum sem þurfa á bifreið að halda vegna hreyfihömlunar eða fjölskylduþarfa hafa einfaldlega ekki efni á svo dýrum bifreiðum. Þau notast frekar við gamlar ódýrar bifreiðar sem nota hefðbundnari orkugjafa, þ.e. jarðefnaeldsneyti. Þar sem vistspor framleiðslu þeirra bifreiða er þegar markað og vistspor förgunar þeirra verður óhjákvæmilegt, væri nærtækara að veita þeim ívilnanir vegna viðhalds og skapa þannig hvata til að framlengja líftíma þeirra. Mikilvægt er að fullnýta óhjákvæmilegt vistspor og seinka myndun nýrra vistspora sem endurnýjun þessara bifreiða með nýjum bifreiðum mun á einhverjum tímapunkti hafa í för með sér.
    Einnig gerir 1. minni hluti athugasemdir við þá forgangsröðun sem endurspeglast í frumvarpinu þegar litið er til hækkandi verðbólgu, m.a. vegna ört hækkandi eldsneytisverðs ásamt miklum vaxtahækkunum, sem hafa leitt til hækkandi greiðslubyrði lána og ört hækkandi leigu, sem ljóst er að mörg heimili munu ekki geta staðið undir. Á meðan það ástand gengur yfir telur 1. minni hluti að þessum fjármunum yrði betur varið til að hjálpa þeim sem minnst hafa og verst eru staddir, frekar en að beina þeim að hópum sem hafa, þrátt fyrir ástandið sem hér er lýst, næg fjárráð til að eignast eða endurnýja rafmagnsbifreið.
    Fyrsti minni hluti styður heilshugar 1. gr. frumvarpsins um ívilnun til björgunarsveita vegna breytinga á bifreiðum til að sérútbúa þær fyrir björgunarstörf. Aftur á móti getur 1. minni hluti ekki stutt frekari ívilnanir til þeirra sem hafa yfir nægu fé að ráða fyrir rafmagnsbifreiðum, á meðan hægt væri að nýta þær tekjur sem annars rynnu í ríkissjóð til að styðja við þá hópa sem höllustum fæti standa. 1. minni hluti mun því ekki styðja 2. gr. frumvarpsins.

Alþingi, 13. júní 2022.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir.