Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Prentað upp.

Þingskjal 1262  —  80. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og húsaleigulögum (aðgerðir til að sporna við áhrifum verðbólgu á húsnæðislán og húsaleigu).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas Brynjólfsson og Guðmund Kára Kárason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Róbert Farestveit frá Alþýðusambandi Íslands, Ragnar Þór Ingólfsson frá VR, Valdísi Ösp Árnadóttur, Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Þuríði Hörpu Sigurðardóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Guðmund Hrafn Hallgrímsson frá Samtökum leigjenda á Íslandi og Guðmund Ásgeirsson, Sigríði Örlygsdóttur og Hafþór Ólafsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Hagsmunasamtökum heimilanna, Öryrkjabandalagi Íslands, Samtökum leigjenda á Íslandi og VR.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að vísitala sem reiknuð er og birt í nóvember 2021 skuli gilda um verðtryggingu neytendalána og fasteignalána frá 1. janúar til 31. desember 2022. Við útreikning verðbóta í janúar 2023 verði miðað við breytingu á vísitölunni frá október til nóvember 2022, en síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá októbermánuði til nóvembermánaðar 2022 og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli mánaða. Þá eru lagðar til breytingar þess efnis að óheimilt verði að hækka leigufjárhæð íbúðarhúsnæðis í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar til 31. desember 2022.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ólík sjónarmið um áhrif vísitölufrystingar á verðtryggð húsnæðislán og verðtryggða leigusamninga.
    Meiri hlutinn bendir á að frysting vísitölunnar hefur víðtæk efnahagsleg áhrif sem geta gengið þvert á tilgang og markmið frumvarpsins. Meiri hlutinn telur þó rétt að haldið verði áfram að fylgjast með stöðu á húsnæðismarkaði og stöðu heimilanna í landinu.
    Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið um mikilvægi þess að áfram verði unnið að því að draga úr vægi verðtryggingar, en ein forsenda þess er stöðugt verðlag. Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið að gera úttekt á kostum og göllum aðgerðarinnar.

Alþingi, 13. júní 2022.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Ágúst Bjarni Garðarsson. Diljá Mist Einarsdóttir.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.