Ferill 474. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1434  —  474. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um kærur vegna ákvarðana um synjun fjárhagsaðstoðar til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.


     1.      Hversu margar kærur bárust ráðherra frá ársbyrjun 2014 til ársloka 2021 vegna ákvarðana umboðsmanns skuldara um synjun fjárhagsaðstoðar samkvæmt lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, nr. 9/2014? Svar óskast sundurliðað eftir árum, ástæðum synjunar og niðurstöðu máls.
    Lög nr. 9/2014, um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, tóku gildi 1. febrúar 2014. Samkvæmt upplýsingum úr málaskrám ráðuneytisins hafa átta kærur borist ráðuneytinu á tímabilinu frá ársbyrjun 2014 til ársloka 2021 vegna ákvarðana umboðsmanns skuldara um synjun fjárhagsaðstoðar samkvæmt lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.
          Árin 2014 og 2015 bárust engar kærur.
          Árið 2016 bárust ráðuneytinu þrjár kærur og var úrskurðað í þeim öllum sama ár.
          Árið 2017 barst engin kæra.
          Síðla árs 2018 barst ein kæra og var úrskurður kveðinn upp 2019.
          Árið 2019 barst engin kæra.
          Árið 2020 bárust ráðuneytinu þrjár kærur síðla árs. Úrskurðað var í þeim málum á árinu 2021.
          Árið 2021 barst ein kæra og var úrskurðað í því máli sama ár.
    Ástæður synjunar umboðsmanns skuldara í þessum átta málum voru eftirfarandi:
          á grundvelli c-liðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 9/2014, fjögur mál,
          á grundvelli e-liðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 9/2014, tvö mál,
          á grundvelli c- og e-liðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 9/2014, eitt mál,
          á grundvelli f-liðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 9/2014, eitt mál.
    Niðurstaða ráðuneytisins var sú að í sex af átta málum var synjun umboðsmanns skuldara, um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, staðfest.
    Í tveimur málanna var synjun umboðsmanns skuldara felld úr gildi. Í öðru þeirra felldi ráðuneytið synjun umboðsmanns skuldara úr gildi vegna annmarka sem fólust í því að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hafði ekki verið gætt sem skyldi og ekki hafði farið fram heildstætt mat á aðstæðum skuldara í samræmi við 3. gr. laga nr. 9/2014 og athugasemdir með umræddu ákvæði í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 9/2014. Í hinu málinu var synjun umboðsmanns skuldara felld úr gildi vegna þess að ráðuneytið taldi að skilyrði c-liðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 9/2014 hefði verið uppfyllt og umboðsmanni skuldara bæri að taka málið til efnislegrar meðferðar að nýju. Ráðuneytið vísaði til þess að alltaf þyrfti að meta umsækjendur heildstætt og einnig að skuldari hefði verið í góðri trú þegar hann afturkallaði umsókn um greiðsluaðlögun á grundvelli ráðlegginga/upplýsinga frá umsjónarmanni sem starfaði fyrir umboðsmann skuldara.


     2.      Hversu mörgum umræddra kærumála var vísað frá á þeim grundvelli að umboðsmaður skuldara tók mál kæranda til skoðunar á ný á meðan ráðherra var með málið til umfjöllunar? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Í málaskrám ráðuneytisins er ekki að finna upplýsingar um að nokkru máli hafi, á tímabilinu frá ársbyrjun 2014 til ársloka 2021, verið vísað frá á þeim grundvelli að umboðsmaður skuldara hafi tekið mál kæranda til skoðunar á ný á meðan ráðherra var með málið til umfjöllunar.

     3.      Hver var meðalmálsmeðferðartími umræddra kærumála, þ.e. frá því að kæra barst og þar til úrskurður lá fyrir, að undanskildum málum sem var vísað frá á þeim grundvelli að kæra barst eftir að kærufrestur rann út? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
          Engir úrskurðir voru kveðnir upp á árunum 2014 og 2015.
          Meðalmálsmeðferðartími mála sem úrskurðað var í árið 2016 var 6,5 mánuðir.
          Engir úrskurðir voru kveðnir upp á árunum 2017 og 2018.
          Meðalmálsmeðferðartími mála sem úrskurðað var í árið 2019 var 5,2 mánuðir.
          Engir úrskurðir voru kveðnir upp á árinu 2020.
          Málsmeðferðartími mála sem úrskurðað var í árið 2021 var 4,9 mánuðir.

     4.      Í hversu mörgum umræddra kærumála var málsmeðferðartími ráðherra lengri en þrír mánuðir? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Í þessum átta málum var málsmeðferðartíminn á tímabilinu 2014 til og með 2021 lengri en þrír mánuðir, eða frá þremur mánuðum og 23 dögum upp í sjö mánuði og 12 daga.

     5.      Hversu oft hefur umboðsmaður skuldara höfðað dómsmál til að fá úrskurði ráðherra hnekkt? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Ráðuneytið hefur aflað upplýsinga frá umboðsmanni skuldara þar sem fram kom að umboðsmaður skuldara hafi aldrei höfðað mál til að fá hnekkt úrskurði ráðherra í kærumáli er varðaði synjun umboðsmanns skuldara um fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, nr. 9/2014.

     6.      Hversu oft hafa aðrir en umboðsmaður skuldara höfðað dómsmál til að fá úrskurði ráðherra hnekkt? Svar óskast sundurliðað eftir árum og aðilum.
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hvort aðrir en umboðsmaður skuldara hafi höfðað dómsmál til að fá úrskurði ráðuneytisins hnekkt.