Ferill 762. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1438  —  762. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um makríl.


     1.      Áformar ráðherra að takmarka geymsluheimild á kvóta makríls við 15% vegna síðasta árs? Ef svo er, hvers vegna er sú ákvörðun tekin?
    Veiðar á makríl hafa á undanförnum árum staðið fram í september/október. Það er því ekki fyrr en þá sem sést hvernig veiðarnar hafa gengið, þ.e. hversu mikið af leyfilegu aflamarki hefur veiðst. Ráðherra mun taka ákvörðun hvort heimilaður verður aukinn flutningur á óveiddu aflamarki í makríl frá árinu 2022 til ársins 2023 þegar sér fyrir endann á makrílveiðum 2022.

     2.      Hversu mikil gæti skerðingin á útflutningsverðmætum orðið samanborið við fulla geymsluheimild?
     3.      Hvert yrði áætlað tjón vegna minni tekna fólks sem starfar við makrílveiðar og vinnslu auk hafnargjalda og annarra beinna og óbeinna áhrifa?
     4.      Hvaða sveitarfélög myndu líða mest fyrir minni geymsluheimild?

    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar

     5.      Í ljósi þess að Noregur og Færeyjar juku einhliða hlutdeild sína í heildarmakrílkvóta milli áranna 2020 og 2021, má ekki vænta þess að með takmörkun á geymsluheimild veiki Ísland samningsstöðu sína til langs tíma?
    Makrílveiðar á Norðaustur-Atlantshafi hafa undanfarin ár farið langt umfram ráðgjöf ICES og það er alvarleg staða sem ógnar stöðugleika stofnsins. Haldi sú þróun áfram tapa allir. Strandríkin sex hafa ekki náð samningum um veiðar innan ráðgjafar en samningaumleitanir eru í fullum gangi og bindur Ísland miklar vonir við að samningar náist fyrir árið 2023. Samningsstaða Íslands í makríl er byggð á vel rökstuddum gögnum í samræmi við þau fjögur viðmið sem tilgreind eru í úthafsveiðisamningnum, þ.e. líffræði, veiði, hæði og framlagi til vísinda. Þau ríki sem koma að þessum veiðum hafa, á vettvangi fiskveiða sem og annars staðar, lagt ríka áherslu á sjálfbærni, ábyrga umgengni og hófsemi í nýtingu auðlinda sinna. Það er mikilvægt að þau orð endurspeglist í aðgerðum. Ísland hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í ábyrgri fiskveiðistjórn enda er sú nálgun arðbærust þegar til lengri tíma er litið. Ísland hefur þar af leiðandi ekki viljað elta Noreg og Færeyjar í óábyrgum einhliða hækkunum hlutdeildar og ótakmarkaðri geymsluheimild. Nýleg stefna þeirra, að auka enn frekar á ofveiðina, er ekki til þess fallin að styrkja stöðu þeirra og orðspor á alþjóðavettvangi, gagnvart neytendum eða við samningaborðið. Ísland hefur lagt áherslu á stöðugleika og haldið sig við óbreytta hlutdeild utan samnings, auk þess að leyfa hóflega geymsluheimild milli ára.

     6.      Í ljósi nýs samnings milli Noregs og Færeyja um gagnkvæmt aðgengi til veiða í lögsögu þeirra, sem lengir veiðitímabilið mjög umfram það sem Ísland hefur, má ekki vænta þess að staða Íslands veikist enn frekar?
    Það er öllum strandríkjum í hag að í gildi sé alhliða samningur um makrílveiðar með aðgengi að lögsögum hvors annars. Stofninn, og þar með hagsmunir ríkjanna, er ekki varinn nema öll strandríki séu aðilar að samkomulagi. Slíkt samkomulag myndi tryggja besta nýtingu auðlindarinnar með tilliti til gæða afurða og heilbrigði stofnsins. Enginn samningur er í gildi um makrílveiðar eins og stendur.

     7.      Telur ráðherrann það ekki fela í sér neikvæð skilaboð að þjóðir sem tóku sér aukakvóta hafi ávinning af því en Íslendingum sé refsað fyrir að gera það ekki?
     8.      Kallar ekki færsla makríls úr íslenskri lögsögu á meira svigrúm til geymslu kvóta frekar en minna?

    Sjá svar við 5. tölul. fyrirspurnarinnar.

     9.      Má ekki vænta þess að færeyskar útgerðir styrki enn frekar stöðu sína á kostnað þeirra íslensku þegar kemur til samninga um makrílstofninn með tilliti til veiðireynslu í ljósi þess að Færeyingar eiga eftir um 35% makrílkvótans og þarlend stjórnvöld hafa heimilað geymslu á öllum óveiddum makríl sem er 57.000 tonn og þeir tóku sér 60.000 tonna aukakvóta á síðasta ári og leyfðu því færslu 95% viðbótarkvótans milli ára?
    Það er vafasamt að telja það styrkja samningsstöðu að úthluta einhliða kvóta sem ekki tekst að veiða. Frekar mætti telja það sem rök fyrir því að strandríkið hafi stundað ofskömmtun og þurfi að draga í land.

     10.      Telur ráðherra ekki mikilvægt að hægt sé að haga veiðum þannig að sem mest af makrílheimildum sé nýtt þegar fiskurinn er verðmætastur og líklegastur til að fara í vinnslu og skila þannig meiru til fólksins sem vinnur fiskinn, byggðarlaganna og þjóðarbúsins?
    Ráðherra telur sannarlega mikilvægt að hægt sé að haga veiðum þannig að nýting auðlindarinnar sé sem best. Eina leiðin til að tryggja það er með heildstæðum samningi meðal strandríkjanna sex.

     11.      Er ekki mikilvægt að veita hærri geymsluheimild en sem nemur 15% og geyma eftirstöðvar milli ára, eins og ráðherrar sjávarútvegsmála hafa ítrekað gert í krafti laga, nú þegar ljóst virðist að umfang heimildarinnar getur haft veruleg áhrif á hagsmuni Íslands og margra byggðarlaga til framtíðar?
    Síðastliðin 5 ár hefur verið flutningsheimild á aflamarki í makríl verið aukin á hverju ári úr 10% í 15% að undanskildu árinu 2020 þegar heimilað var að flytja allt ónotað aflamark í makríl til næsta árs. Að öðru leyti vísast til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.