Ferill 739. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1456  —  739. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um lögheimilisskilyrði laga um greiðsluaðlögun.


     1.      Hver eru rökin fyrir því að einstaklingar þurfi að hafa lögheimili á Íslandi til að geta leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun, nr. 101/2010?
    Í 2. gr. laga nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, kemur fram hverjir geta leitað greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins geta þeir einir leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi.
    Í upphaflegu frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, á 138. löggjafarþingi 2009–2010, þskj. 1363, 670. mál, var ekki gert ráð fyrir að lögheimili og búseta hér á landi væri skilyrði 2. gr. frumvarpsins þegar leitað væri samnings um greiðsluaðlögun, enda væri um frjálsa samninga að ræða, heldur þvert á móti bent á, í athugasemdum við greinina, að öll rök mæli með því að gera fólki kleift að leita greiðsluaðlögunar sem flutt hefur til útlanda vegna náms eða í atvinnuleit. Þrátt fyrir þetta var það niðurstaða Alþingis, sbr. þskj. 1421 og 1422 í 670. máli, að færa ákvæði 4. mgr. 2. gr. í núverandi horf og var það fyrirkomulag rökstutt með því að náist ekki samningur um greiðsluaðlögun og skuldari óskar eftir að fá heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar er eftir sem áður skilyrði fyrir nauðasamningi að einstaklingur hafi lögheimili á Íslandi, sbr. 4. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Þá séu ekki í gildi samningar við erlend ríki um gagnkvæma viðurkenningu nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Myndu því nauðasamningar til greiðsluaðlögunar á Íslandi ekki koma í veg fyrir að lánardrottnar gætu sótt kröfu sína fyrir dómstóli þar sem lögheimili skuldara væri. Þá lagði Alþingi áherslu á að greiðsluaðlögun væri ekki ætlað að ná til skuldbindinga sem stofnast hafa erlendis, enda væri m.a. gert ráð fyrir því í 10. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga að kröfur séu innkallaðar í Lögbirtingablaði og ekki væri hægt að leggja þá skyldur á erlenda kröfuhafa að þeir lesi það. Að auki gæti slíkt lagt þunga rannsóknarskyldu á umboðsmann skuldara. Í ljósi þessa taldi Alþingi vert að afmarka nánar skilyrði greiðsluaðlögunar og lagði því til þá breytingu að almennt yrði gert að skilyrði að einstaklingur eigi lögheimili og búsetu hér á landi.
    Því er meginreglan sú samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga að heimild til greiðsluaðlögunar er bundin því skilyrði að fólk eigi lögheimili og búi hér á landi. Þá lagði Alþingi til að frá þeirri meginreglu væri í undantekningartilvikum heimilt að víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar væri tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda, sbr. a- og b-lið 4. mgr. 2. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.

     2.      Telur ráðherra umrætt skilyrði samræmast meginreglum EES-samningsins um frjálsa för vinnuafls og samræmingu á sameiginlega markaðnum?
    Líkt og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar var við vinnslu frumvarps þess er varð að umræddum lögum ekki gert ráð fyrir að lögheimili og búseta hér á landi yrði skilyrði þegar leitað væri samnings um greiðsluaðlögun. Umræddri 4. mgr. 2. gr. laganna var breytt í meðförum þingsins og var gildandi fyrirkomulag rökstutt í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar.
    Ráðuneytið hefur því ekki metið sérstaklega hvort umrætt skilyrði sé í samræmi við meginreglur EES-samningsins um frjálsa för vinnuafls og samræmingu á sameiginlega markaðnum.

     3.      Telur ráðherra koma til greina að leggja til breytingar á lögunum svo að Íslendingar sem búsettir eru erlendis geti leitað greiðsluaðlögunar á Íslandi?
    Líkt og áður hefur komið fram er kveðið á um þá meginreglu í 4. mgr. 2. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eiga lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þeirri reglu má þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur áður átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í a.m.k. þrjú ár samfleytt, enda leiti hann hennar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili, sbr. a-lið 4. mgr. 2. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þá er einnig unnt að víkja frá reglunni ef greiðsluaðlögun er eingöngu ætlað að taka til veðkrafna sem hvíla á fasteign hér á landi, enda sé eigandi hennar einungis tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi áður átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í a.m.k. þrjú ár samfleytt, sbr. b-lið 4. mgr. 2. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.
    Þannig eru heimilaðar tvær undantekningar frá meginreglunni um lögheimili og búsetu hér á landi við tilteknar aðstæður. Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem er ekki ætlað að ná til allra sem flytja til útlanda um ótiltekinn tíma, t.d. vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt til útlanda. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími.
    Þá ber þess að geta að skráning lögheimilis samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, felur í sér tiltekna tilhögun opinberrar skráningar á búsetu sem getur veitt einstaklingi ýmis réttindi, svo sem réttur til greiðslna úr almannatryggingakerfinu, umsóknir um ýmis leyfi eru háð tiltekinni lögheimilisskráningu og skráning einstaklinga á kjörskrá er bundin við lögheimili. Þá má finna skilyrði um lögheimili og búsetu hér á landi í mörgum öðrum lögum sem eru félagslegs eðlis og heyra undir stjórnarmálefni ráðuneytisins. Má þar sem dæmi nefna lög nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, lög nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lög nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Er þannig krafa um lögheimili og búsetu hér á landi svo unnt sé að leita greiðsluaðlögunar í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga í samræmi við önnur lög á málefnasviði ráðherra.
    Með vísan til framangreinds og þeirra forsendna sem koma fram í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur það ekki komið til skoðunar hjá ráðherra að leggja til breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga hvað þetta atriði varðar.