Ferill 727. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1461  —  727. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um skilgreiningu auðlinda.


     1.      Hvenær telur ráðherra að frumvarp til laga um skilgreiningu auðlinda sem samþykkt var að leggja ætti fyrir Alþingi á 150. löggjafarþingi samkvæmt ályktun Alþingis frá 20. júní 2019, nr. 43/149, verði tilbúið og lagt fyrir þingið?
    Ráðherra leggur áherslu á að þegar liggi fyrir skýr vilji löggjafarvaldsins um framlagningu frumvarps þá beri framkvæmdarvaldinu að fara eftir þeim vilja. Að því sögðu hefur ráðuneytið hafið vinnu við skilgreiningar á náttúruauðlindum landsins til að auka skilning á eðli þeirra og umfangi. Vinnan er hins vegar ekki komin á þann stað að tímabært sé að leggja fram frumvarp á Alþingi. Mikilvægt er að ljúka þeirri undirbúningsvinnu sem fyrst, m.a. þannig að markmiðum með framlagningu frumvarpsins verði betur náð eins og fram kemur í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti. Til greina kemur að vinna svokallaða Grænbók með tillögum að skilgreiningu auðlinda sem myndi þá fara í opið samráðsferli. Í kjölfarið á því ferli myndi frumvarp um skilgreiningu auðlinda vera unnið og lagt fram á Alþingi. Ekki liggur fyrir nákvæmari tímasetning um hvenær frumvarpið verður tilbúið en horft er til haustsins 2024 í því samhengi.

     2.      Hvenær hóf ráðuneytið vinnu við undirbúning frumvarpsins, hvað hefur verið gert og hver er staða málsins?

    Vísað er til svars við 1. tölul.