Ferill 721. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1465  —  721. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um urðunarstöðina í Fíflholtum.


     1.      Hvað þjónar urðunarstöðin í Fíflholtum stóru svæði á Vesturlandi og hversu mörg sveitarfélög nýta sér þjónustuna?
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið aflaði hjá Sorpurðun Vesturlands hf., sem rekur urðunarstaðinn í Fíflholtum, þjónar urðunarstaðurinn þeim níu sveitarfélögum á Vesturlandi sem standa að Sorpurðun Vesturlands hf. Þau eru Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Snæfellsbær og sameinað sveitarfélag Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar. Auk þess hefur urðunarstaðurinn frá upphafi rekstrar þjónað Reykhólahreppi þar sem samlegð er með söfnun úrgangs í Dalabyggð. Í rúman áratug hefur urðunarstaðurinn í Fíflholtum jafnframt þjónað fimm öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum, þ.e. Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhreppi, Tálknafjarðarhreppi og Vesturbyggð. Samtals þjónar urðunarstaðurinn því fimmtán sveitarfélögum; níu á Vesturlandi og sex á Vestfjörðum.
    Þess má jafnframt geta að árið 2019 gerði Sorpurðun Vesturlands samning við Sorpstöð Suðurlands bs. um móttöku á 2.500 tonnum af úrgangi til urðunar. Samningurinn var nýttur að fullu fram í ársbyrjun 2021.

     2.      Nær urðunarstöðin að þjóna þessu svæði og hver eru þolmörk stöðvarinnar?
    Urðunarstaðurinn stendur á jörð sem er 1.571,6 ha að flatarmáli og er skilgreint urðunarsvæði, þ.e. urðunarreinar (urðunarhólf), svæði fyrir efnistöku og athafnasvæði, staðsett við miðju jarðarinnar. Þetta svæði er 120 ha. Sorpurðun Vesturlands hefur starfsleyfi frá Umhverfisstofnun til að taka á móti og urða allt að 15.000 tonn af úrgangi á ári. Starfsleyfið gildir til 5. febrúar 2028. Samkvæmt upplýsingum frá Sorpurðun Vesturlands nær urðunarstaðurinn að anna þjónustu við sveitarfélögin á Vesturlandi. Núverandi urðun fer fram í urðunarrein (nr. 4) sem áætlað er að muni endast til loka árs 2024 ef miðað er við að urðuð verði 25.000 tonn á ári. Á síðasta ári reyndist heildarmagn urðunar vera undir 15.000 tonnum en þrjú ár þar á undan hafði magnið farið upp í allt að 18.000 tonn á ári. Til að bregðast við auknu magni hefur Sorpurðun Vesturlands farið þess á leit við Umhverfisstofnun að heimild til urðunar verði aukin í 25.000 tonn á ári. Hönnun urðunarreinar sem næst verður tekin í notkun (nr. 5) stendur yfir og er áætlað að hún geti tekið við úrgangi til ársins 2036, ef miðað er við að urðun þar hefjist 2025 og urðuð verði 25.000 tonn á ári.

     3.      Hver er framtíðarsýn ráðherra um sorphirðu á þessu svæði?

    Í júní 2021 kom út heildarstefna ráðherra í úrgangsmálum, Í átt að hringrásarhagkerfi. Í stefnunni birtist sú framtíðarsýn að Ísland verði meðal leiðandi ríkja í loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Í því augnamiði verði komið á virku hringrásarhagkerfi þar sem dregið verði verulega úr myndun úrgangs, endurvinnsla aukin og urðun hætt. Aukin og bætt flokkun úrgangs er einn lykilþátta í þessu sambandi, í þeim tilgangi að skila sem mestu og bestu hráefni til endurvinnslu. Í sama mánuði samþykkti Alþingi mikilvægar breytingar á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. lög nr. 103/2021, sem stuðla eiga að aukinni sérsöfnun heimilisúrgangs á landsvísu. Umrædd ákvæði taka gildi 1. janúar nk. og til að ná árangri í úrgangsmálum hér á landi er nauðsynlegt að öll sveitarfélög leggist á árarnar og innleiði þær breytingar sem lögin kveða á um. Á það jafnt við um sveitarfélög á Vesturlandi sem og í öðrum landshlutum.
    Sveitarfélögin á suðvesturhluta landsins hafa unnið að gerð nýrrar svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs sem gilda á til næstu 12 ára og tekur til svæðisins frá Gilsfirði í vestri að Markarfljóti í austri. Í tillögu að svæðisáætluninni sem send var viðkomandi sveitarfélögum til staðfestingar í byrjun árs kemur fram að meginmarkmið með endurskoðun svæðisáætlunarinnar sé innleiðing hringrásarhagkerfis, í samræmi við stefnumörkun Evrópusambandsins og ákvæði í lögum um meðhöndlun úrgangs. Jafnframt kemur fram að það krefjist breyttrar meðhöndlunar úrgangs og lágmörkunar á urðun og horft sé til samræmdrar og aukinnar flokkunar úrgangs á svæðinu. Meðal markmiða svæðisáætlunarinnar sé að endurskoða flokkun og söfnun úrgangs frá grunni og til samræmis við nýsett lög. Er þar átt við lög nr. 103/2021, sem áður hafa verið nefnd. Enn fremur kemur fram í tillögunni að flokkun og söfnun heimilisúrgangs með núverandi 2ja eða 3ja tunnu kerfum uppfylli ekki ákvæði laganna og sveitarfélög á Suðvesturlandi undirbúi því öll breytingar sem miði að því að uppfylla allar kröfur um sérsöfnun sem settar voru á með umræddum lögum. Af því leiði að fjögurra tunnu kerfi verði tekið upp á öllu svæðinu, ásamt grenndargámakerfi og/eða endurvinnslustöðvum fyrir suma úrgangsflokka. Með þessu muni sérsöfnun úrgangs og möguleikar til endurvinnslu ýmissa úrgangsflokka aukast.