Ferill 312. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1466  —  312. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um áætlaðan aukinn kostnað af þjónustu við flóttafólk.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er áætlaður aukinn kostnaður við að veita þeim sem fá alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum, óháð því hvernig þeir koma til landsins, sömu þjónustu og kvótaflóttamönnum, annars vegar með tilliti til þess fjölda sem fékk alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum árið 2019 og hins vegar með hliðsjón af væntingum um fjölgun umsækjenda sem falla undir samræmda móttöku flóttafólks?

    Í febrúar 2021 setti félags- og vinnumarkaðsráðuneytið á fót tímabundið tilraunaverkefni með samningum við fimm sveitarfélög. Verkefnið fól í sér samræmda þjónustu við flóttafólk og einstaklinga sem fengið hafði dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum, óháð því hvort viðkomandi hafði komið til landsins í boði stjórnvalda (kvótaflóttafólk) eða á eigin vegum. Ekki var um að ræða sömu þjónustu og þá þjónustu sem flóttafólki sem kom hingað til lands í boði stjórnvalda stóð til boða fyrir árið 2021 heldur fól verkefnið eingöngu í sér að samræma umrædda þjónustu, meðal annars með aðkomu sveitarfélaga, Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs.
    Gildistími framangreinds tilraunaverkefnis var til 31. mars 2022 og var kostnaður við verkefnið á gildistíma þess metinn á um 330 m.kr. Í mars 2022 var settur á fót starfshópur um greiningu og endurmat á tilraunaverkefninu. Fram kom í vinnu hópsins að heilt yfir hafi reynslan af verkefninu verið jákvæð og þau sveitarfélög sem tóku þátt hafi sýnt áhuga á áframhaldandi samvinnu hvað varðar þjónustu við flóttafólk. Enn fremur taldi hópurinn mikilvægt að stjórnvöld veiti flóttafólki aukinn stuðning til þátttöku í samfélaginu í því skyni að koma eins og unnt er í veg fyrir að það þurfi varanlega á framfærslu að halda frá hinu opinbera. Í ráðuneytinu er nú unnið að samningum við sveitarfélög um samræmda móttöku flóttafólks þar sem meðal annars er byggt á fyrri samningum um framangreint tilraunaverkefni. Vinnu við gerð þessara samninga er ólokið og því ekki unnt að mati ráðuneytisins að áætla hver endanlegur kostnaður gæti orðið, ekki síst þar sem mikil óvissa ríkir varðandi fjölda flóttafólks sem mun koma hingað til lands, einkum vegna stríðsátaka í Úkraínu, sem og varðandi þann fjölda flóttafólks sem þiggja mun boð um samræmda móttöku.
    Í 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, er kveðið á um endurgreiðslu ríkissjóðs til sveitarfélaga á kostnaði vegna veittrar aðstoðar sveitarfélaganna við erlenda ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili í landinu. Á grundvelli 12. og 13. gr. sömu laga endurgreiðir ríkissjóður auk þess sveitarfélögum kostnað vegna veittrar aðstoðar við erlenda ríkisborgara sem hafa átt lögheimili í landinu skemur en tvö ár. Á árinu 2019 námu endurgreiðslur ríkissjóðs til sveitarfélaga á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga 84,9 m.kr., árið 2020 námu endurgreiðslurnar 1.519 m.kr. og árið 2021 námu þær 1.310 m.kr. Vert er að taka fram að framangreindar endurgreiðslur koma til eftir á þegar hlutaðeigandi sveitarfélag fer fram á slíka endurgreiðslu og endurspegla tölurnar því ekki heildarendurgreiðslur ríkisins til sveitarfélaga vegna kostnaðar sem fallið hefur til á viðkomandi ári.
    Í ljósi framangreinds telur ráðuneytið ekki unnt að áætla aukinn kostnað vegna þjónustu sem flóttafólk sem kom hingað til lands í boði stjórnvalda árið 2019 fékk samanborið við kostnað vegna þjónustu við flóttafólk sem fékk hér alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á sama tíma, enda ekki um sambærilega þjónustu að ræða.