Ferill 747. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1467  —  747. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni um ráðningar án auglýsingar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margir hafa verið ráðnir til aðstoðar við ráðherra, ráðuneyti eða ríkisstjórnina í heild án auglýsingar frá 2016 til 2022?

    Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, er ráðherrum heimilt að ráða til starfa í ráðuneyti sínu allt að tvo aðstoðarmenn en þess utan er heimilt samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur. Ákvæði um auglýsingaskyldu í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eiga ekki við um ráðningu aðstoðarmanna. Forsætisráðuneytið fer með málefni er varða ríkisstjórn Íslands, sbr. d-lið 1. tölul. 1. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, og gerir ráðningarsamninga við aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar. Eftirfarandi tafla sýnir hversu margir aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar hafa verið ráðnir á tímabilinu án auglýsingar. Fjöldi aðstoðarmanna tekur eðli máls samkvæmt mið af fjölda ráðherra í ríkisstjórn Íslands á hverjum tíma. Þá getur fjöldi ráðninga m.a. helgast af stjórnarskiptum, sbr. árið 2017:

Ár Fjöldi
2022 15
2021 16
2020 14
2019 6
2018 17
2017 27
2016 4

    Að því er varðar ráðningu annarra starfsmanna til aðstoðar við ráðuneytin án auglýsingar, svo sem á grundvelli heimildar í lögum um flutning embættismanna og annarra starfsmanna eða ráðningar til skamms tíma eða afleysingar, er til þess að líta að ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands bera ábyrgð á skipulagi, rekstri og starfsmannahaldi, hvert á sínu málefnasviði, sbr. forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022. Óski fyrirspyrjandi eftir upplýsingum um aðrar ráðningar sem kunna að hafa verið ákveðnar í ráðuneytum án auglýsingar og/eða um verksamninga sem ráðuneyti kunna að hafa gert við utanaðkomandi ráðgjafa er rétt að hann beini sérstökum fyrirspurnum þar að lútandi til viðkomandi ráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis.