Ferill 682. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1470  —  682. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um atvinnuleyfi.


     1.      Hversu stórt hlutfall starfsemi Vinnumálastofnunar felst í vinnslu umsókna um atvinnuleyfi og tengdra mála á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002? Óskað er eftir sundurliðun þar sem fram kemur fjöldi stöðugilda í þessum málaflokki, unnar vinnustundir og hámarks-, lágmarks- og meðalvinnslutími umsóknar eftir flokkum atvinnuleyfa. Er upplýsinga óskað fyrir hvert ár sl. 10 ár.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun fer afgreiðsla og umsýsla í tengslum við tímabundin atvinnuleyfi fram á réttindasviði stofnunarinnar (áður stjórnsýslusvið). Undanfarin fimm ár hefur stofnunin ráðstafað um þremur stöðugildum til útgáfu og umsýslu í tengslum við tímabundin atvinnuleyfi og hafa stöðugildin dreifst til fimm starfsmanna sem allir hafa þó sinnt öðrum verkefnum samhliða. Árin þar á undan ráðstafaði stofnunin um tveimur stöðugildum til útgáfu og umsýslu í tengslum við tímabundin atvinnuleyfi og dreifðust þau til þriggja starfsmanna. Umræddur starfsmannafjöldi hefur verið um 1–2% af heildarstarfsmannafjölda Vinnumálastofnunar á hverjum tíma. Þar sem umræddir starfsmenn sinna fleiri verkefnum samhliða útgáfu og umsýslu í tengslum við tímabundin atvinnuleyfi liggja ekki fyrir upplýsingar hjá Vinnumálastofnun um unnar vinnustundir í því sambandi síðastliðin tíu ár.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hefur afgreiðslutími tímabundinna atvinnuleyfa undanfarin ár verið um þrjár vikur að jafnaði frá því að umsókn um slíkt leyfi hefur borist stofnuninni þar til ákvörðun hefur verið tekin um veitingu eða synjun um veitingu atvinnuleyfis. Við útreikning á afgreiðslutíma gerir Vinnumálastofnun ekki greinarmun á virkum dögum og frídögum. Ef fullnægjandi gögn fylgja umsókn um tímabundið atvinnuleyfi þegar umsóknin berst Vinnumálastofnun er afgreiðslutíminn almennt skemmri. Árið 2018 voru teknar upp rafrænar gagnasendingar hjá Vinnumálastofnun í tengslum við umsóknir um tímabundin atvinnuleyfi og er því unnt að sjá meðalfjölda afgreiðsludaga tímabundinna atvinnuleyfa hjá stofnuninni eftir það tímamark en ekki liggja fyrir sambærilegar upplýsingar fyrir þann tíma. Í eftirfarandi töflu má sjá upplýsingar um meðalafgreiðslutíma vegna veittra atvinnuleyfa á árunum 2018–2021 eftir leyfaflokkum. Meðalfjöldi afgreiðsludaga vegna veittra atvinnuleyfa var 19 dagar árið 2018, 20 dagar árið 2020, 22 dagar árið 2021 og 23 dagar árið 2022.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Heimild: Vinnumálastofnun.

    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun liggja ekki fyrir upplýsingar um hámarks- og lágmarksafgreiðslutíma stofnunarinnar síðastliðin tíu ár í tengslum við tímabundin atvinnuleyfi, greint eftir flokkum þeirra.

     2.      Hver er árlegur kostnaður Vinnumálastofnunar við afgreiðslu umsókna um atvinnuleyfi?
    Kostnaður Vinnumálastofnunar á árinu 2021 vegna þriggja stöðugilda á réttindasviði var alls 32.793.600 kr. Þá nam annar rekstrarkostnaður í tengslum við afgreiðslu umsókna um atvinnuleyfi alls 5.935.156 kr. á sama ári.

     3.      Hversu margar umsóknir berast á ári hverju, hvert er hlutfall veitingar og synjunar um atvinnuleyfi og hverjar eru helstu ástæður synjunar? Óskað er sundurliðunar eftir tegundum atvinnuleyfa fyrir hvert ár sl. 10 ár.

    Fjöldi umsókna um atvinnuleyfi hefur farið vaxandi ár frá ári frá árinu 2012 að undanskildu árinu 2020. Í eftirfarandi töflu má sjá heildarfjölda veittra atvinnuleyfa sem og heildarfjölda synjaðra umsókna um atvinnuleyfi á árunum 2011–2021.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Heimild: Vinnumálastofnun.

    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun er helsta ástæðan fyrir synjun stofnunarinnar um veitingu tímabundins atvinnuleyfis að skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga teljast ekki uppfyllt. Í því sambandi má nefna tilvik þegar starf telst að mati Vinnumálastofnunar ekki gera kröfu um að sá sem gegni því búi yfir tiltekinni sérfræðiþekkingu í skilningi 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga þegar sótt hefur verið um tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Þá kann það að vera mat Vinnumálastofnunar, þegar sótt hefur verið um tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki á grundvelli 9. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, að ekki sé um að ræða skort á starfsfólki innan Evrópska efnahagssvæðisins til að gegna umræddu starfi. Helsta ástæða þess að umsóknum á grundvelli 11.–13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er synjað er aftur á móti þegar atvinnurekandi sinnir ekki úrbótum hvað varðar ráðningarkjör til samræmis við athugasemdir Vinnumálastofnunar þar um. Þá kann umsóknum að vera synjað þegar í ljós kemur að atvinnurekandi hafi ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta eða öðrum opinberum gjöldum og bregst ekki við kröfum Vinnumálastofnunar um viðhlítandi úrbætur þar um.
    Hlutfall synjana hefur á síðastliðnum tíu árum verið um 7% af heildarfjölda umsókna um tímabundin atvinnuleyfi, en var lægst 4% árin 2011 og 2021 og hæst 12% árið 2017. Í eftirfarandi töflum má sjá annars vegar heildarfjölda veittra atvinnuleyfa greint eftir leyfaflokkum og hins vegar fjölda synjana um veitingu atvinnuleyfa greint eftir leyfaflokkum síðastliðin tíu ár.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Heimild: Vinnumálastofnun.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Heimild: Vinnumálastofnun.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Heimild: Vinnumálastofnun.