Ferill 261. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 381  —  261. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um nafnskírteini.


     1.      Hvers vegna var horfið frá því að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um útgáfu og notkun nafnskírteina á 150., 151. og 152. löggjafarþingi?
    Til skoðunar hafa verið mismunandi kostir við útgáfu nafnskírteina, þ.e. útgáfa nafnskírteina án rafrænna skilríkja eða með rafrænum skilríkjum eða einvörðungu á rafrænu formi. Þessa kosti hefur þurft að meta út frá því hvaða kröfur eru gerðar til öruggra ferðaskilríkja á alþjóðlegum vettvangi, tæknilegum möguleikum og kostnaði. Að einhverju marki hefur verið hröð þróun í þeim efnum sem þurft hefur að taka afstöðu til við vinnslu málsins. Samráð hefur verið haft við Þjóðskrá Íslands, fjármálaráðuneytið og þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Ekki hefur tekist að ljúka frumvarpagerð tímanlega fyrir þinglok og því hefur málið verið tekið aftur upp á þingmálaskrá enda hefur vilji ekki staðið til annars en að innleiða ný nafnskírteini.

     2.      Hvernig ber að túlka þá ákvörðun ráðherra að boða ekki framlagningu slíks frumvarps á þingmálaskrá yfirstandandi löggjafarþings?
    Í ráðuneytinu stendur nú yfir vinna við að undirbúa frumvarp að nýjum lögum um nafnskírteini sem er meðal annars ætlað að innleiða þær öryggiskröfur sem gerðar eru til persónuskilríkja í reglugerð (ESB) 2019/1157, sem er í innleiðingarferli hjá sameiginlegu EES-nefndinni. Vonir standa til þess að frumvarpið verði tilbúið til framlagningar á vormánuðum.

     3.      Hvaða áform eru uppi um útgáfu nýrra nafnskírteina fyrir einstaklinga sem jafnframt væru ferðaskilríki á Schengen-svæðinu?
     4.      Hversu mörg gætu nýtt sér handhæg og nútímavædd nafnskírteini umfram þau opinberu persónuskilríki sem nú eru framleidd?
    Til stendur að nafnskírteini samkvæmt nýjum lögum verði ferðaskilríki á Schengen-svæðinu og uppfylli þær kröfur sem eru gerðar til ferðaskilríkja á vettvangi Schengen-samstarfsins. Ætla má að hópur fólks kjósi að nota örugg og handhæg persónuskilríki sem einnig má nota sem ferðaskilríki þegar ferðast er innan Schengen-svæðisins. Þá þykir líklegt að sér í lagi ungmenni og aðrir sem ekki njóta ökuréttinda muni kjósa að nota nafnskírteini, fremur en vegabréf, sem persónuskilríki til auðkenningar í daglegu lífi.

     5.      Hversu algengt telur ráðuneytið vera að einstaklingar framvísi fölsuðum nafnskírteinum, t.d. til að leysa út ávana- og fíknilyf?
    Ráðuneytið hefur ekki undir höndum upplýsingar um hversu algengt það er að einstaklingar framvísi fölsuðum nafnskírteinum, t.d. til að leysa út ávana- og fíknilyf. Hvað varðar slík mál sem hafa komið á borð lögreglu hefur embætti ríkislögreglustjóra upplýst ráðuneytið um að fölsunarmál eru ekki skilgreind með þessum hætti í LÖKE-upplýsingakerfinu en samkvæmt textalýsingu fölsunarmála sem þar hafa verið skráð síðustu ár varðaði aðeins eitt þeirra falsað nafnskírteini sem var notað til að reyna að ná út lyfjum.