Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 401  —  308. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Önnu Kolbrúnu Árnadóttur um hjálpartæki fyrir börn.


     1.      Hvernig er „mikil fötlun“ skilgreind við framkvæmd á 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 760/2021, er heimilar veitingu styrkja vegna tveggja hjálpartækja af sömu gerð til mikið fatlaðra barna og unglinga?
    Hér er átt við börn með miklar hreyfiskerðingar. Börn og unglingar sem þurfa á þeim hjálpartækjum að halda sem talin eru upp í 3. gr. reglugerðarinnar falla undir þá skilgreiningu. Gert er einstaklingsbundið mat hverju sinni.

     2.      Hvernig eru skil á milli frístundar og þjálfunar, með virkni og viðhaldsfærni barna og unglinga með fötlun í huga, ákvörðuð við framkvæmd á fyrrgreindri reglugerð?
    Gert er einstaklingsbundið mat á aðstæðum hverju sinni en oft er vandkvæðum bundið að skilja á milli frístundar og þjálfunar þegar börn eiga í hlut. Við mat á umsóknum eru höfð til hliðsjónar þau skilyrði sem fram koma í 2. gr. reglugerðarinnar, þ.e. að hjálpartæki skuli aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun.

     3.      Hvað mælir gegn því að barn eða unglingur með fötlun geti fengið styrk til þess að kaupa passandi reiðhjól til þess m.a. að viðhalda eða auka jafnvægi, færni og almenna hreyfingu og styrk?
    Samkvæmt reglugerðinni eru þríhjól greidd fyrir fjölfötluð börn sem ekki geta nýtt sér hefðbundin hjól á almennum markaði. Að jafnaði er ekki greitt fyrir þríhjól fyrir börn yngri en tveggja ára. Sjúkratryggingar hafa sett það viðmið vegna samþykktar á þríhjólum fyrir börn og unglinga að fyrir liggi mat þjálfara um að umsækjandi hafi færni til að hjóla á sambærilegu þríhjóli og sótt er um. Gert er einstaklingsbundið mat hverju sinni á því hvort hjól komi til með að auka eða viðhalda færni barnsins og bæta sjálfsbjargargetu.

     4.      Hvað mælir gegn því að barn með fötlun geti fengið styrk til þess að kaupa hjálpartæki til nota utan heimilis þó svo að slíkt hjálpartæki finnist á heimili barnsins, veggfast?
    Samkvæmt reglugerð er eingöngu heimilt að samþykkja eitt tæki af hverri gerð. Þó er undantekning á því í 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar þar sem fram kemur að heimilt er að samþykkja fleiri en eitt tæki af sömu gerð til mikið fatlaðra barna og unglinga sem vegna leikskóla- eða grunnskólagöngu eða dvalar á þjálfunar- og dagvistarstofnunum yrðu ella að vera án hjálpartækja sinna daglangt. Skal þá annað hjálpartækið vera til nota á heimili og hitt í skóla eða á stofnun. Hér er að jafnaði um að ræða sérhannaða stóla, standgrindur og göngugrindur. Sjúkratryggingum Íslands er jafnframt heimilt að veita styrki vegna tveggja hjálpartækja af sömu gerð til barna sem eiga fasta búsetu á tveimur stöðum. Heimildin nær til hjálpartækja við salernisferðir, sjúkrarúma, dýna og stuðningsbúnaðar. Í ár var vinnustólum bætt við þessa upptalningu. Þegar um er að ræða veggföst tæki, t.d. loftlyftukerfi, eru fordæmi fyrir því að ferðalyftarar hafi verið samþykktir eða þeir lánaðir til skemmri tíma ef nauðsynlegt er.