Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 409  —  264. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um brottvísanir barna til Grikklands.


     1.      Hversu mörgum börnum hefur Útlendingastofnun tekið ákvörðun um að vísa til Grikklands á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, á þessu ári? Svar óskast sundurliðað eftir mánuðum.
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun tók stofnunin fyrstu átta mánuði ársins 2022 alls 18 ákvarðanir í málum barna um synjun á efnismeðferð skv. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga vegna þess að þau nutu þegar alþjóðlegrar verndar á Grikklandi.

Janúar Febrúar Mars Apríl Maí Júní Júlí Ágúst
0 3 2 11 2 0 0 0
Tafla 1. Ákvarðanir Útlendingastofnunar árið 2022 um synjun á efnismeðferð í málum barna vegna þess að þau nutu þegar alþjóðlegrar verndar á Grikklandi, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

     2.      Hversu margar slíkar ákvarðanir Útlendingastofnunar hefur kærunefnd útlendingamála staðfest með úrskurði sínum á þessu ári? Svar óskast sundurliðað eftir mánuðum.
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun staðfesti kærunefnd útlendingamála allar fyrrgreindar 18 ákvarðanir stofnunarinnar.

Janúar Febrúar Mars Apríl Maí Júní Júlí Ágúst
0 0 0 3 0 13 0 2
Tafla 2. Staðfestingar kærunefndar útlendingamála árið 2022 á ákvörðunum Útlendingastofnunar í töflu 1.

     3.      Hóf lögregla á einhverjum tímapunkti þessa árs vinnu við flutning barna til Grikklands samkvæmt ákvörðun eða úrskurði stjórnvalda byggðum á 36. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016?
    Stoðdeild ríkislögreglustjóra starfar á grundvelli verkbeiðna frá Útlendingastofnun og hefst undirbúningur stoðdeildar við flutning þegar slík beiðni berst. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hefur stofnunin á árinu 2022 sent 16 verkbeiðnir til stoðdeildar í málum barna sem synjað hefur verið um efnismeðferð á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga vegna þess að þau nutu þegar alþjóðlegrar verndar á Grikklandi.

     4.      Stendur til að gefa út formleg, almenn stjórnvaldsfyrirmæli til Útlendingastofnunar um að senda ekki börn og barnafjölskyldur til Grikklands á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga?
    Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eru rakin þau skilyrði sem geta verið fyrir hendi svo að stjórnvöld megi hafna því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Á það m.a. við í málum þegar umsækjanda hefur þegar verið veitt alþjóðleg vernd eða annars konar vernd í öðru ríki, sbr. a-lið málsgreinarinnar. Samkvæmt gildandi lögum er það á ábyrgð Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála að meta hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi að fá efnismeðferð hér á landi, og þannig mögulega áframhaldandi dvöl, eða hvort vísa eigi honum úr landi. Við rannsókn þeirra er litið til frásagnar umsækjanda, gagna sem hann leggur fram og til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í viðtökuríki hans, t.d. skýrslur og gögn alþjóðlegra samtaka, frjálsra félagasamtaka og annarra ríkja. Öll mál eru því skoðuð og metin á einstaklingsbundnum grundvelli með tilliti til sérstakra aðstæðna hvers og eins. Í þeirri málsmeðferð njóta allir umsækjendur þjónustu löglærðs talsmanns á báðum stjórnsýslustigum. Loks geta útlendingar, sem fá endanlega synjun á stjórnsýslustigi um efnismeðferð hér á landi með vísan til a-liðar 1. mgr. 36 gr. laga um útlendinga, skotið úrlausninni til dómstóla. Í þessu samhengi telur ráðuneytið rétt að taka fram að mat Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála á almennum aðstæðum flóttamanna á Grikklandi hefur verið staðfest af dómstólum hér á landi. Að þessu virtu telur ráðuneytið ekki tilefni til sérstakra viðbragða.