Ferill 160. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 423  —  160. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um mislæg gatnamót.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Verða gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar annars vegar og gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar hins vegar mislæg og með frjálsu flæði umferðar samkvæmt þeim áformum sem nú eru uppi?

    Síðustu mánuði hefur verið unnið að hönnun á þriðja áfanga Arnarnesvegar frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut. Verkhönnun, sem er lokastig hönnunar, er lokið. Vegagerðin mun bjóða verkið út þegar Reykjavíkurborg og Kópavogur hafa veitt framkvæmdaleyfi.
    Fyrirhugað er að Arnarnesvegur verði á brú yfir Breiðholtsbraut. Umferð sem fer um vinstri beygju af nýjum Arnarnesvegi inn á Breiðholtsbraut og um vinstri beygju af Breiðholtsbraut inn á nýjan Arnarnesveg verður stýrt með umferðarljósum. Núverandi umferðarljós við Vatnsendahvarf verða fjarlægð auk þess sem miðeyju verður lokað. Hægt verður að aka um hægri beygju inn á og út af Vatnsendahvarfi eftir breytingarnar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Unnið hefur verið að gerð frumdraga að útfærslu gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar síðastliðið eitt og hálft ár. Í þeirri vinnu er einnig unnið að útfærslu Borgarlínu frá Stekkjarbakka að Vogabyggð. Sá kafli er hluti af þriðju lotu Borgarlínu.
    Ýmsar lausnir hafa verið skoðaðar. Þær miða allar að því að núverandi umferðarljós á gatnamótunum verði fjarlægð og að umferð á Reykjanesbraut flæði því óhindrað. Hægri beygjur af og frá Bústaðavegi eru einnig skipulagðar þannig að flæði umferðar verður óhindrað. Vinstri beygja af Reykjanesbraut á Bústaðaveg verður á brú. Brúin verður hluti af mislægum gatnamótum og umferð mun því einnig flæða þar óhindrað.
    Vinna við frumdrög er á lokametrunum. Breytingar á gatnamótunum eru háðar mati á umhverfisáhrifum. Vinna við matsáætlun er í gangi og verður vonandi fljótlega send inn til Skipulagsstofnunar.