Ferill 265. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 426  —  265. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um hagsmunaskráningu dómara.


     1.      Á grundvelli hvaða laga byggist birting á upplýsingum um hagsmunatengsl hæstaréttardómara sem hafa verið aðgengilegar frá byrjun árs 2017?
    Fjallað er um heimild dómara til að taka að sér önnur störf eða eiga hlut í félagi í 45. gr. laga nr. 50/2016, um dómstóla. Enn fremur mælir 2. tölul. 2. mgr. 10. gr. laganna fyrir um að nefnd um dómarastörf setji í samráði við dómstólasýsluna reglur um hvaða upplýsingar um aukastörf dómara skuli birtar og með hvaða hætti. Samkvæmt sama ákvæði er það hlutverk nefndar um dómarastörf að halda og birta opinberlega skrá um aukastörf dómara og þau störf sem dómari gegndi áður en hann tók við embætti.
    Reglur samkvæmt framangreindu voru settar 18. janúar 2018 og er þær að finna á heimasíðu dómstólasýslunnar. Samkvæmt þeim skal birta eftirfarandi upplýsingar opinberlega:
     a.      Fullt nafn dómara ásamt tilgreiningu á stöðu hans og frá hvaða tíma hann tók við embættinu.
     b.      Upplýsingar um það aðalstarf sem dómari gegndi áður en hann tók við embættinu. Hafi dómari gegnt síðasta aðalstarfi sínu í skamman tíma getur nefndin ákveðið að skrá fleiri aðalstörf dómarans.
     c.      Aukastörf sem dómari gegnir aðgreint eftir því hvort um er að ræða störf sem dómari hefur tekið að sér að fenginni heimild frá nefnd um dómarastörf eða störf sem tilkynna ber til nefndarinnar.
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá Hæstarétti Íslands hafa dómarar við réttinn að eigin frumkvæði ákveðið að birta meiri upplýsingar á vef réttarins en leiðir af því sem rakið er að framan.

     2.      Telur ráðherra ástæðu til sambærilegrar birtingar á upplýsingum um hagsmunatengsl landsréttardómara, þar eð Landsréttur á lokaorðið í flestum dómsmálum frá því að hann tók til starfa í byrjun árs 2018?
    Við ákvörðun um hvaða upplýsingar dómurum er skylt að birta opinberlega vegast annars vegar á sjónarmið um aðgengi almennings að upplýsingum um dómara og hins vegar friðhelgi einkalífs og persónuvernd þeirra sem gegna embætti dómara og er mikilvægt að fundið sé hæfilegt jafnvægi í þeim efnum. Í lögum um dómstóla er mótaður sá rammi sem gildir um opinbera birtingu upplýsinga um hagsmunatengsl dómara, auk þess sem lögin mæla fyrir um að nefnd um dómarastörf, í samráði við dómstólasýsluna, útfæri það nánar í reglum. Ráðherra hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort rétt sé að birta frekari upplýsingar af þessu tagi.
    Að lokum er vakin athygli á því að skv. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga um dómstóla setur nefnd um dómarastörf reglur um hvers konar aukastörf og eignarhald á hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki, eða þátttöku og störf í þágu annarra félaga og samtaka, geti samrýmst embættisstörfum dómara. Í gildi eru nú reglur nr. 1165/2017 frá 12. desember 2017 og skv. 9. gr. þeirra á aðili dómsmáls meðal annars rétt á að fá upplýsingar um aukastörf dómara, sem fer með mál hans, sem og um eignarhluti dómara í félagi eða atvinnufyrirtæki, telji nefndin tilefni til þess. Með öðrum orðum þá á aðili dómsmáls rétt á að fá upplýsingar um hagsmunatengsl dómara til að gæta hagsmuna sinna, umfram það sem leiðir af skyldu til að birta slíkar upplýsingar opinberlega. Reglurnar er að finna á heimasíðu dómstólasýslunnar.