Ferill 394. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 428  —  394. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um starfsaðstöðu fyrir sjálfstætt starfandi fjölmiðlafólk hjá Ríkisútvarpinu.


Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela menningar- og viðskiptaráðherra að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, og lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, til þess að heimila sjálfstætt starfandi fjölmiðlafólki að nýta sér starfsaðstöðu RÚV með svipuðu móti og hugmyndafræði stafrænna smiðja byggist á, sbr. þingsályktun nr. 19/148, um aðgengi að stafrænum smiðjum. Ráðherra leggi einnig fram áætlun um uppbyggingu á sambærilegri aðstöðu úti um allt land.
    Ráðherra leggi fram áætlun og tillögur til breytinga á framangreindum lögum á haustþingi 2023.

Greinargerð.

    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að auðvelda sjálfstætt starfandi fjölmiðlafólki aðgengi að tækjum og tólum til þess að gera hágæða fjölmiðlaefni. RÚV á, samkvæmt lögum, að starfa í almannaþágu, sbr. 1. gr. laga um Ríkisútvarpið: „Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.“
    Allir fjölmiðlar eiga að starfa í almannaþágu eins og kveðið er á um í 1. mgr. 26. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, um lýðræðislegar grundvallarreglur: „Fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti, og einnig friðhelgi einkalífs nema lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.“
    Hugmyndafræðin um stafrænar smiðjur (e. fab lab) snýst um að bjóða öllum upp á aðstöðu til þess að læra á og nota tæki fjórðu iðnbyltingarinnar. Þótt mjög margir geti deilt skoðunum sínum í samfélagsmiðlaumhverfi dagsins í dag þá er stigsmunur á slíku efni og því sem hægt er að búa til með þeirri aðstöðu sem RÚV hefur upp á að bjóða.
    Þegar fjallað er um starfsaðstöðu í þessari þingsályktunartillögu er átt við aðgengi að tækjabúnaði, upptökusvæðum og miðlun þegar slík aðstaða er annars ekki í notkun. Það gæti þýtt að efni sem sjálfstætt starfandi fjölmiðlafólk framleiðir sé birt á vef RÚV eða í sjónvarps- eða útvarpssendingum utan dagskrár. Tryggja þyrfti að slíkt efni væri hvorki háð ritstjórn RÚV né á ábyrgð RÚV samkvæmt lögum.