Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 429  —  313. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um sjúkrasjóði stéttarfélaga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvert er markmið og hlutverk sjúkrasjóða samkvæmt lögum?
     2.      Hvernig er eftirliti með sjúkrasjóðum stéttarfélaga háttað? Hefur hið opinbera eftirlit með starfsemi sjúkrasjóða að einhverju marki?
     3.      Hve margir sjúkrasjóðir tóku við iðgjöldum 20. september 2022 í samræmi við greiðsluskyldu 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980?
     4.      Hver er réttur starfsmanns sem ekki á aðild að stéttarfélagi til bóta? Ber atvinnurekanda að greiða iðgjald af launum starfsmanns sem ekki á aðild að stéttarfélagi eða grípa til annarra ráðstafana til að tryggja bótarétt viðkomandi starfsmanns?
     5.      Hvert er iðgjald sem hlutfall af launum sem greiða skal í sjúkrasjóði og hvaða laun eru lögð til grundvallar hjá einstökum sjúkrasjóðum?
     6.      Hvernig er iðgjald sem greiða skal í sjúkrasjóði ákveðið eða því breytt hjá einstökum sjúkrasjóðum? Hafa einhver viðmið vegna þessa verið bundin í lög eða reglugerðir?
     7.      Er sjúkrasjóðum stéttarfélaga alfarið í sjálfsvald sett að útfæra reglur um greiðslu bóta? Hverjar eru reglur um bætur hjá einstökum sjúkrasjóðum sem ráðherra hefur aðgang að upplýsingum um?
     8.      Hafa einhver viðmið eða reglur verið bundin í lög eða reglugerðir vegna:
                  a.      fjárfestingarstefnu einstakra sjúkrasjóða,
                  b.      fjármálaeftirlits og endurskoðunar reikninga einstakra sjúkrasjóða,
                  c.      skipanar stjórna einstakra sjúkrasjóða?
     9.      Hefur ráðherra aðgang að nýjustu upplýsingum úr ársreikningum einstakra sjúkrasjóða um eftirtalin atriði:
                  a.      tekjur vegna iðgjalds skv. 3. tölul.,
                  b.      aðrar tekjur,
                  c.      bótagreiðslur,
                  d.      rekstrarkostnað,
                  e.      annan kostnað,
                  f.      eignir,
                  g.      skuldir,
                  h.      hreina eign?
     10.      Hverjar voru heildareignir í sjúkrasjóðum hér á landi í árslok 2021?
     11.      Hver er heildarfjárhæð iðgjaldagreiðslna skv. 3. tölul., sundurliðað síðustu 5 ár?
     12.      Hver er heildarfjárhæð greiðslna úr sjúkrasjóðum hér á landi, sundurliðað síðustu 5 ár?

    Í gildandi lögum hér á landi er hvorki kveðið á um markmið né hlutverk sjúkrasjóða stéttarfélaga en það er aftur á móti gert í almennum kjarasamningum milli samtaka aðila vinnumarkaðarins sem og í reglum hvers sjóðs fyrir sig.
    Um greiðslur í sjúkrasjóði stéttarfélaga er fjallað í 1. mgr. 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Þar er kveðið á um að „öllum atvinnurekendum er skylt að greiða í fræðslusjóði atvinnulífsins sem og sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni, og samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.“ Í 7. gr. laga um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, nr. 19/1979, er kveðið á um að vinnuveitendur skuli greiða 1% af útborguðu kaupi verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags, nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum. Iðgjald sem greiða skal í einstaka sjúkrasjóði er því ákveðið í almennum kjarasamningum milli samtaka aðila vinnumarkaðarins og skal nema að lágmarki 1% af útborguðu kaupi verkafólks. Viðmið um greiðslu iðgjalds í sjúkrasjóði hafa að öðru leyti ekki verið bundin í lög eða reglugerðir. Þá fer um réttindi til greiðslna úr einstökum sjúkrasjóðum eftir nánari reglum hvers sjóðs fyrir sig.
    Stéttarfélög eru frjáls félagasamtök og lúta sem slík ekki eftirliti opinberra aðila og hafa því hvorki ráðuneyti né stofnanir eftirlit með starfsemi þeirra. Hið sama á við um sjúkrasjóði innan tiltekinna stéttarfélaga og býr ráðherra því ekki yfir upplýsingum um reglur sjúkrasjóða einstakra stéttarfélaga. Ráðherra fer sömuleiðis ekki með eftirlit með fjármunum sjúkrasjóða stéttarfélaga og er ráðuneytinu því ekki kunnugt um fjárfestingarstefnu einstakra sjóða né heldur hvernig fjármálaeftirliti eða endurskoðun reikninga er háttað. Þá er ekki á valdsviði ráðherra að veita upplýsingar úr ársreikningum einstakra sjúkrasjóða auk þess sem ráðherra býr ekki yfir þeim tölulegu upplýsingum sem spurt er um í fyrirspurninni.