Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 444  —  173. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um ávísun fráhvarfslyfja.


     1.      Hverjum er heimilt að skrifa upp á fráhvarfslyf til einstaklinga með vímuefnavanda sem tengist morfínlyfjum?
    Ávísun lyfja sem eru uppbótarmeðferð við ópíatfíkn (buprenorfinum) er bundin við sérfræðinga í geðlækningum og sérfræðinga í meðferð á ópíatfíkn. Sé um ávísun á forðastungulyf að ræða er notkun þeirra bundin við ávísun og gjöf á heilbrigðisstofnun (H-merkt).

     2.      Hefur komið til skoðunar að veita heimilislæknum heimild til að ávísa slíkum lyfjum til einstaklinga sem glíma við vímuefnavanda?
    Í umsókn um markaðsleyfi koma fram takmarkanir við ávísun lyfs og það er síðan ákvörðun Lyfjastofnunar að útfæra það með tilliti til sérgreina og afgreiðslumerkinga. Þá hafa Sjúkratryggingar Íslands og SÁÁ gert með sér samning um viðhaldsmeðferð gegn ópíumfíkn sem starfrækt er á göngudeild á Sjúkrahúsinu Vogi á Stórhöfða. SÁÁ hefur sinnt meginhluta þessarar meðferðar. Til upplýsingar þá eru umrædd lyf flokkuð leyfisskyld sem þýðir að þau eru kostnaðarsöm og/eða vandmeðfarin. Leyfisskyld lyf eru greidd af fjárlagalið leyfisskyldra lyfja og sjúklingum að kostnaðarlausu. Samkvæmt upplýsingum frá lyfjanefnd Landspítala sem hefur umsjón með fjárlagalið leyfisskyldra lyfja er meðferð þessi einnig veitt á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri auk þess sem nokkur hluti sjúklinga í göngudeildarþjónustu SÁÁ eða undir eftirliti geðlækna sækir lyfin sín í apótek.