Ferill 428. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 488  —  428. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (málsmeðferð hjá Endurupptökudómi).

Frá dómsmálaráðherra.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef Endurupptökudómur telur að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti fyrir 1. janúar 2018 uppfylli skilyrði til endurupptöku skv. 232. gr. er dóminum heimilt að vísa málinu til meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti.

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með úrskurði Endurupptökudóms í máli nr. 26/2021, frá 30. desember 2021, var fallist á beiðni um endurupptöku á máli sem dæmt hafði verið í Hæstarétti Íslands 31. október 2013, mál nr. 135/2013. Samkvæmt úrskurðinum skyldi málið endurupptekið fyrir Hæstarétti. Endurupptakan byggðist á því að verulegur galli hefði verið á meðferð máls endurupptökubeiðanda fyrir Hæstarétti og var í því sambandi einkum vísað til niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli endurupptökubeiðanda um að brotið hefði verið gegn reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu. Hið endurupptekna mál fékk meðferð fyrir Hæstarétti, sbr. mál nr. 7/2022. Með dómi réttarins í því máli, frá 5. október 2022, var málinu vísað frá Hæstarétti. Með lögum nr. 49/2016 var felld úr gildi heimild fyrir Hæstarétt til að ákveða að munnleg sönnunarfærsla færi fram fyrir réttinum. Með lögum nr. 47/2020 þar sem Endurupptökudómi var komið á fót hafði verið lögfest heimild fyrir Endurupptökudóm til að ákveða að máli sem dæmt hefði verið í Hæstarétti yrði vísað til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti. Var þar enn fremur rakið að munnleg sönnunarfærsla gæti ekki farið fram fyrir Hæstarétti eftir gildistöku laga nr. 47/2020. Jafnframt kvað Hæstiréttur á um að Endurupptökudómi hefði að réttu lagi borið, miðað við þær ástæður sem dómurinn lagði til grundvallar endurupptöku málsins, að nýta þá heimild sem hann hefði skv. 2. málsl. 1. mgr. 232. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, til að vísa málinu til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti. Þar sem málið hefði verið endurupptekið af þeirri ástæðu að meðferð þess fyrir Hæstarétti hefði verið í ósamræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu yrði ekki úr því bætt nema með því að leiða endurupptökubeiðanda og vitni fyrir dóm til skýrslugjafa. Hæstarétti væri ókleift að bæta úr þessu og hefði hann heldur ekki að lögum heimild til að hnekkja að þessu leyti niðurstöðu Endurupptökudóms eða vísa málinu til meðferðar hjá Landsrétti. Því væri óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti, enda þjónaði meðferð þess fyrir réttinum fyrirsjáanlega engum tilgangi.
    Með úrskurði Endurupptökudóms í máli nr. 15/2022, frá 31. október 2022, var fallist á að annað mál, nr. 842/2014, sem dæmt hafði verið í Hæstarétti 4. febrúar 2016, skyldi endurupptekið fyrir Hæstarétti. Í úrskurðinum segir að það falli undir Endurupptökudóm, sem sé sérdómstóll, að taka afstöðu til þess hvort mál sem dæmd hafa verið í Hæstarétti og fallist sé á endurupptöku á eigi með réttu að sæta endurupptöku hjá Hæstarétti samkvæmt meginreglu 1. málsl. 1. mgr. 232. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, eða hvort beita eigi undantekningunni um að þau séu endurupptekin hjá Landsrétti. Samkvæmt þessu virðist dómurinn ekki telja sig bundinn af túlkun Hæstaréttar á 232. gr. laga um meðferð sakamála um heimildir Endurupptökudóms til að vísa málum sem dæmd hafa verið í Hæstarétti til meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti. Í úrskurði Endurupptökudóms er enn fremur vísað til þess að við túlkun ákvæðisins sé meðal annars til þess að líta að skv. 59. gr. stjórnarskrárinnar verði skipan dómsvaldsins ekki ákveðin nema með lögum en ákvæðið nái ekki aðeins til þess að þessum stofnunum sé komið á fót með lögum heldur einnig að þar sé mælt fyrir um málsmeðferðina. Sama leiði af 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Af þessu leiði eðli máls samkvæmt, sem og því að um undantekningarreglu sé að ræða, að við skýringu ákvæðisins verði orðum þess ekki léð rýmri merking en felist í bókstaflegum skilningi þess. Lagði dómurinn til grundvallar að hefðbundin orðskýring sýndist fela það í sér að einungis væri heimilt að notast við þetta heimildarákvæði við þær aðstæður að mál hefði áður sætt meðferð og dómsuppsögu í Landsrétti og að það gæti þar með ekki átt við um endurupptöku mála sem hafa verið dæmd í Hæstarétti án þess að hafa áður fengið meðferð fyrir Landsrétti. Þá tiltók Endurupptökudómur jafnframt að af lögskýringargögnum verði ekki ráðið að til hafi staðið að ákvæðið gæti átt við þegar mál hefði ekki áður sætt meðferð og dómsuppsögu í Landsrétti. Að teknu tilliti til alls þessa lagði dómurinn þá skýringu til grundvallar að ekki væri heimilt að vísa máli til meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti sem ekki hefði áður fengið meðferð þar heldur yrði að beita meginreglunni um að endurupptekið mál væri tekið fyrir á ný fyrir sama dómstól og dæmt hefði í málinu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Nauðsynlegt er að bregðast við niðurstöðu Endurupptökudóms um að dómurinn hafi ekki heimild til að vísa málum sem dæmd hafa verið í Hæstarétti til endurtekinnar málsmeðferðar í Landsrétti þrátt fyrir að Hæstiréttur telji þá heimild vera fyrir hendi. Því verður ekki hjá því komist að gera breytingar á lögum um meðferð sakamála og veita Endurupptökudómi slíka heimild. Verði ekki við brugðist með lagasetningu er ljóst að mál sem dæmd hafa verið í Hæstarétti fyrir tilkomu Landsréttar og Endurupptökudómur telur að uppfylli skilyrði til endurupptöku, sökum þess að brotið hafi verið gegn milliliðalausri sönnunarfærslu, fá ekki endurtekna málsmeðferð fyrir dómi eins og endurupptökubeiðendur eiga rétt á. Því er lagt til að gera breytingar á lögum um meðferð sakamála og gefa þeim sem fá mál sitt endurupptekið tækifæri til að fá munnlega sönnunarfærslu í málum sínum á áfrýjunarstigi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins er að veita Endurupptökudómi heimild til að vísa máli sem dæmt hefur verið í Hæstarétti fyrir tilkomu Landsréttar til nýrrar meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti. Um er að ræða mál sem á sínum tíma voru dæmd í héraði og var áfrýjað til Hæstaréttar sem felldi endanlegan dóm. Málin voru dæmd í Hæstarétti áður en Landsréttur var stofnaður og hlutu þar af leiðandi ekki meðferð þar. Með þessari heimild er alveg skýrt að mál af þessu tagi geta hlotið meðferð og dómsuppsögu í Landsrétti. Eftir atvikum verður unnt að óska leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpinu er brugðist við því að málsmeðferð endurupptekinna mála sé í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir þá sem fá mál sín sem dæmd voru í Hæstarétti fyrir 1. janúar 2018 endurupptekin og nauðsyn er við endurupptöku málsins á áfrýjunarstigi að viðhafa munnlega sönnunarfærslu. Þess háttar sönnunarfærsla getur á æðra dómsstigi eingöngu farið fram fyrir þeim dómstól sem til þess hefur lagaheimild, sem er Landsréttur. Nauðsynlegt var að bregðast hratt við fyrrgreindri stöðu og gera breytingar á lögunum. Því vannst ekki tími til almenns samráðs við gerð frumvarpsins en þó var leitað álits réttarfarsnefndar á frumvarpinu.

6. Mat á áhrifum.
    Áhrif frumvarpsins eru þau að unnt verður að endurupptekin mál fái réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Sakamál sem dæmd voru í Hæstarétti fyrir 1. janúar 2018 geta þá farið til meðferðar í Landsrétti. Kostnaður við frumvarpið er óverulegur þar sem við mat á áhrifum laga nr. 47/2020 var ráðgert að þessi mál færu til meðferðar hjá Landsrétti.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 232. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, getur Endurupptökudómur leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Landsrétti eða Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 228. gr. sömu laga. Þó getur dómurinn ákveðið að sömu skilyrðum uppfylltum að máli sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði vísað til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti. Eins og rakið er í 1.–3. kafla í greinargerð þessa frumvarps var það niðurstaða Endurupptökudóms í máli sem dæmt hafði verið í Hæstarétti og dómurinn taldi rétt að yrði endurupptekið að ekki væri heimilt til að vísa því máli til endurtekinnar meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti þar sem það hefði ekki áður verið þar til meðferðar. Hæstiréttur hafði áður komist að annarri niðurstöðu við meðferð annars dómsmáls og talið að við þær aðstæður þegar brotið hefði verið gegn reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu í málinu bæri Endurupptökudómi að vísa málinu til endurtekinnar meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti samkvæmt heimild í 2. málsl. 1. mgr. 232. gr. laga um meðferð sakamála. Í ljósi þessar aðstöðu verður ekki hjá því komist að veita Endurupptökudómi skýra heimild til að vísa slíkum málum til meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti
    Gert er ráð fyrir að þessari heimild verði beitt þegar reynir á gildi munnlegs framburðar eða endurmat sönnunar við endurtekna málsmeðferð. Ber Endurupptökudómi að gæta að þessu að sjálfsdáðum og er ekki háður kröfu frá aðila máls. Þá verður, eins og áður er fram komið, unnt að óska eftir áfrýjunarleyfi Hæstaréttar að fengnum dómi Landsréttar. Með því verður endurupptökubeiðanda veittur möguleiki á málsmeðferð á þremur dómstigum til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru á dómskerfinu með upptöku Landsréttar 1. janúar 2018. Einungis er hér um að ræða mál sem dæmd voru í Hæstarétti fyrir 1. janúar 2018, þ.e. áður en Landsréttur tók til starfa. Önnur sakamál, þ.m.t. mál sem áfrýjað hafði verið til Hæstaréttar fyrir fyrrgreint tímamark en var ólokið þegar Landsréttur tók til starfa, fengu meðferð í Landsrétti og er um þau fjallað í 2. málsl. 1. mgr. 232. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Mikilvægt er að lögin taki gildi sem fyrst gildi svo að unnt sé að veita enduruppteknum málum nauðsynlega málsmeðferð. Er þá jafnframt horft til þess að mikilvægt er að þeir sem óska endurupptöku mála sem dæmd voru fyrir 1. janúar 2018 verði ekki sviptir þeim möguleika á að fá mál sitt skoðað á þremur dómstigum.