Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 597  —  351. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um sektir vegna nagladekkja.


    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra og svarið unnið í samvinnu við embættið.

     1.      Hversu oft hefur lögregla sektað ökumenn vegna nagladekkjanotkunar hvert undanfarinna fimm ára? Svar óskast sundurliðað eftir lögregluembættum. Þá er þess óskað að tilgreint sé hversu oft sektir hafi verið gefnar út vegna nagladekkjanotkunar á fyrstu tveimur vikum eftir og síðustu tveimur vikum fyrir það tímabil sem notkun nagladekkja er bönnuð.
    Í eftirfarandi töflu má sjá fjölda tilvika þar sem ökumenn hafa verið sektaðir af lögreglu fyrir notkun nagladekkja á tímabilinu 2018–2022 (staðan 6. nóvember 2022). Samkvæmt reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, er ekki heimilt að nota nagladekk á tímabilinu 15. apríl til 31. október ár hvert nema þess sé þörf vegna akstursaðstæðna. Á tímabilinu var engin sekt gefin út fyrstu tvær vikur eftir að bann tók gildi og síðustu tvær vikur áður en bannið rann út.

Ár Austurl. LRH Norðurl. eystra Norðurl. vestra Suðurl. Suðurn. Vestfj. Vestm. eyjar Vesturl. Alls
2018 2 45 1 4 1 53
2019 63 1 11 9 3 4 91
2020 4 14 14 1 2 5 40
2021 2 28 6 1 2 1 6 46
2022 2 87 4 2 9 2 9 1 116
Alls 6 227 6 2 40 30 12 7 16 346

     2.      Hvaða lögreglustjóraembætti hafa tilkynnt önnur tímamörk varðandi nagladekkjanotkun en kveðið er á um í reglugerð á sama tímabili? Á hvaða lagaheimild byggist slík tilkynning? Við hvaða dagsetningar var miðað í hverju tilviki, á hvaða mati byggðist ákvörðun viðkomandi embættis um að miða við þá dagsetningu og hvaða samráð átti sér stað í aðdraganda ákvörðunarinnar?
    Við vinnslu 2. tölul. fyrirspurnarinnar óskaði ríkislögreglustjóri eftir upplýsingum frá öllum lögregluembættunum.
    Í 16. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, nr. 822/2004, er fjallað um hjól og búnað hjóla. Samkvæmt 1. mgr. 16.02 gr. ( Hjólbarðar með nöglum eða keðjum) reglugerðarinnar skulu hjólbarðar vera búnir með tilteknum hætti þegar snjór eða ísing er á vegi. Þá kemur fram í 6. mgr. sömu greinar að keðjur og neglda hjólbarða megi ekki nota á tímabilinu frá og með 15. apríl til og með 31. október nema þess sé þörf vegna akstursaðstæðna.
    Reglugerðin á stoð í 2. mgr. 69. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, en þar kemur fram að eigandi (umráðamaður) beri ábyrgð á að ökutæki sé í lögmæltu ástandi og í samræmi við reglur sem ráðherra setur, sbr. 1. og 4. mgr. 69. gr. laganna. Brot gegn 69. gr. umferðarlaga varðar sektum skv. 1. mgr. 94. gr. sömu laga. Á grundvelli framangreindrar refsiheimildar hefur lögregla sektað eigendur og umráðamenn ökutækja ef keðjur eða negldir hjólbarðar eru notaðir á tímabilinu frá og með 15. apríl til og með 31. október nema akstursaðstæður krefjist þess að slíkur búnaður sé notaður. Ef t.d. snjór eða ísing er á vegi eftir 15. apríl þá er ekki heimilt að sekta fyrir brot gegn framangreindri reglugerð eins og ákvæði 6. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar ber með sér. Þegar hlýnar eftir þetta tímamark og ísing og snjór hverfur af vegum hefur til að mynda lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu látið almenning vita í gegnum samfélagsmiðla embættisins að aðstæður séu nú með þeim hætti að sektarheimildum verði beitt ef keðjur eða negldir hjólbarðar verði notaðir, enda refsiskilyrði uppfyllt.
    Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur tilkynnt að sektum verði ekki beitt vegna notkunar á nagladekkjum þar sem veðurskilyrði séu með þeim hætti að þörf sé á að hjólbarðar séu búnir með tilhlýðilegum hætti. Umferðardeild embættisins fylgist með veðurskilyrðum að teknu tilliti til umferðaröryggis og kemur tilkynningum á framfæri þegar við á.
    Embætti lögreglustjórans á Suðurlandi hefur gefið út tilkynningu um önnur tímamörk varðandi nagladekkjanotkun, sbr. tilkynningu embættisins í ár þess efnis að ekki yrði sektað þrátt fyrir að ökumenn væri komnir á nagladekk 13. október 2022. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu byggist sú tilkynning á XIII. kafla umferðarlaga, nr. 77/2019, um ökutæki, auk þess sem gæta þurfi meðalhófs við beitingu viðurlaga. Sérstakar dagsetningar hafa ekki verið skráðar um þessi mörk og veðurfarslegar og landfræðilegar aðstæður hverju sinni ráðið nokkru þar um. Ákvörðunin byggðist á mati yfirmanna lögreglu í umdæminu.
    Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra hefur í einhverjum tilvikum sl. ár gefið út tilkynningar þess efnis að ekki verði sektað fyrir notkun nagladekkja á tilteknu tímabili fyrir 31. október, þegar slæm akstursskilyrði hafa verið farin að myndast sökum hálku og ófærðar, sem og í ljósi slæmrar veðurspár.
    Önnur embætti hafa ekki gefið út tilkynningar um önnur tímamörk vegna nagladekkjanotkunar en mælt er fyrir um í lögum og reglum.