Ferill 220. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 607  —  220. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um stefnu um afreksfólk í íþróttum.


     1.      Hvað líður mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum sem Alþingi fól mennta- og menningarmálaráðherra að leggja fram fyrir 1. júní 2022, sbr. ályktun Alþingis nr. 33/151?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að áfram verði unnið með félagasamtökum að því að efla umgjörð um afreksstarf íþróttafólks. Þessi áform eru einnig í takti við stefnumótun í íþróttamálum frá 2019. Afreksíþróttir og hvernig faglegu skipulagi og stuðningi við málaflokkinn er háttað hefur lengi verið til umfjöllunar. Fremsta afreksíþróttafólk hér á landi hefur um áraraðir bent á að aðbúnaður og umhverfi standist ekki samanburð við keppinauta þess á alþjóðlegum vettvangi. Íþróttahreyfingin hefur kallað eftir auknum stuðningi til að geta betur stutt við umgjörð og aðbúnað okkar fremsta íþróttafólks. Hlutverk stjórnvalda í þessu samhengi er ekki að setja stefnu fyrir hönd íþróttahreyfingarinnar. Afreksstefna Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) á að vera sú stefna sem liggur til grundvallar öllu afreksstarfi ÍSÍ, sérsambanda og íþróttafélaga. Hlutverk stjórnvalda er að tryggja að umgjörð starfsins sé með þeim hætti að meiri möguleikar séu á því að Íslendingar eigi hverju sinni afreksfólk og afreksflokka sem eru meðal þeirra bestu í heimi. Þetta markmið er mjög háleitt fyrir þjóð eins og Íslendinga en endurspeglar mikilvægan metnað sem ávallt hefur verið til staðar í íþróttum hér á landi. Því er mikilvægt að skoða með reglubundnum hætti hvernig sú umgjörð sem stjórnvöld skapa sé í samræmi við þau markmið sem sett hafa verið. Mikilvægt er að skoða alla þætti þessa máls svo hægt sé að gera heildstæðar tillögur um hvort og hvernig gera megi betur.
    Þingsályktunin sem samþykkt var á síðasta löggjafarþingi og fyrirspyrjandi vísar til styrkir þá vinnu sem fram undan er. Mennta- og barnamálaráðherra lagði fram tillögu í ríkisstjórn dags. 30. september 2022 um stofnun starfshóps með fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis auk fulltrúa íþróttahreyfingarinnar og annarra hagsmunaaðila til að yfirfara og leggja til breytingar á fyrirkomulagi, löggjöf og öðru sem þurfa þykir til að stuðningur við afreksíþróttafólk hér á landi verði í fremstu röð. Skoða þarf sérstaklega kostnaðarþátttöku í landsliðsstarfi. Hópurinn kynni sér gögn og skýrslur sem fyrir liggja um þetta efni bæði hérlendis og í nágrannalöndum. Í framhaldi af þessu verði lagðar fram tillögur að breytingum í þessu efni.

     2.      Hafa Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélög verið kölluð saman til þess að útbúa stefnuna? Ef ekki, hvenær verður það gert?
    Eins og fram kom í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar er að fara af stað vinna sem miðar að því að bæta alla umgjörð um afreksíþróttastarf í landinu. Því hafa ekki átt sér stað formlegir fundir vegna þessa en á nokkrum fundum ráðherra með forystu ÍSÍ hefur málið verið reifað og eru aðilar sammála um að brýn þörf sé á því að bæta umgjörð afreksstarfsins. Fyrirhugað er að starfshópurinn hefji störf á næstu vikum.

     3.      Hvenær gerir ráðherra ráð fyrir því að leggja stefnuna fram á Alþingi?
    Eins og fram kemur í framangreindum svörum er gert ráð fyrir að starfshópurinn hefji störf á næstu vikum. Heildstæðar tillögur geta verið tilbúnar næsta vor.