Ferill 387. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 622  —  387. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um uppbyggingu stúdentagarða í Skerjafirði.


     1.      Hvenær mun starfshópur ráðherra um rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar og íbúðauppbyggingu í Skerjafirði skila niðurstöðum sínum sem áttu að berast 1. október 2022?
    Áætlað er að starfshópurinn skili niðurstöðum sínum í desember.

     2.      Hvers vegna taldi ráðherra þörf á að unnin væri önnur skýrsla um málið til viðbótar við skýrsluna sem unnin var af P.J. van der Geest fyrir Isavia árið 2020?
    Ríki og Reykjavíkurborg gerðu þann 28. nóvember 2019 með sér samkomulag sem m.a. felur í sér að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verði tryggt meðan á undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur. Er þar átt við rekstraröryggi þeirra flugbrauta sem þar eru nú í notkun, rekstraröryggi flugvallarins sem varaflugvallar, sjúkraflugvallar og miðstöðvar innanlandsflugs og einnig rekstraröryggi annarrar flugstarfsemi á vellinum, þ.m.t. annars atvinnuflugs.
    Þann 9. júlí 2021 var auglýst deiliskipulag Nýja-Skerjafjarðar þar sem gert er ráð fyrir nýrri byggð nærri flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Samhliða deiliskipulagsvinnunni fékk Reykjavíkurborg verkfræðistofuna EFLU til þess að framkvæma vindgreiningu í kringum nýju byggðina. Einnig voru áhrif nýju byggðarinnar á meðalvindhraða á flugvallarbrautirnar skoðuð fyrir valdar vindáttir. Isavia fékk síðan Royal Netherlands Aerospace Centre (NLR) til þess að greina áhrif byggðarinnar á flugvöllinn.
    Rekstraraðili Reykjavíkurflugvallar, Isavia, lýsti í kjölfarið yfir áhyggjum af því að hin nýja byggð í Skerjafirði og framkvæmdir við hana myndu skerða flugöryggi og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Þá taldi Samgöngustofa að huga þyrfti nánar að athugasemdum Isavia þar sem breytingar á aðstæðum flugvallarins gætu haft áhrif á starfsleyfi hans og kallað á íþyngjandi mótvægisaðgerðir og/eða rekstrartakmarkanir.
    Í ljósi framkominna upplýsinga og athugasemda taldi ráðuneytið að greina þyrfti hvort og þá hvernig tryggja mætti að framkvæmdir og uppbygging í Nýja-Skerjafirði skerti ekki flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Var því skipaður áðurnefndur starfshópur sérfræðinga sem m.a. var falið að:
     1.      Rýna skýrslur EFLU og NLR og leggja mat á hvort þær geri með fullnægjandi hætti grein fyrir þeim breytingum sem fyrirhuguð byggð veldur á aðflugs- og lendingarskilyrðum. Gera grein fyrir áhrifum á flug- og rekstraröryggisleg atriði, svo sem þjónustustig og nýtingarhlutfall og framkvæma áhættumat.
     2.      Rýna athugasemdir Isavia.
     3.      Eftir atvikum leita nánari skýringa eða upplýsinga hjá skýrsluhöfundum og Isavia og eftir atvikum framkvæma aðrar þær athuganir sem þörf er talin á.
     4.      Meta áhrif uppbyggingar og framkvæmda í Nýja-Skerjafirði á öryggissvæði flugbrauta og rekstrarforsendur flugvallarins samkvæmt starfsleyfi, einnig í ljósi annarra skerðinga á flugvallarsvæðinu og uppbyggingar við hann á undanförnum árum.
     5.      Gera grein fyrir hvort uppbygging Nýja-Skerjafjarðar sé möguleg án þess að skerða flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar og ef svo er, sýna fram á hvernig því verði náð.
     6.      Tilgreina eftir atvikum aðgerðir eða breytingar á uppbyggingaráformunum sem að gagni mega koma og greina kostnað og mögulegan ávinning þeirra.
     7.      Gera grein fyrir hvernig sannreyna megi að tilætluðum árangri hafi verið náð.

     3.      Hvaða áhrif hefur krafa ráðuneytisins um frestun framkvæmda á hagsmuni og húsnæðisöryggi námsmanna?
    Krafa ráðuneytisins um framangreinda greiningarvinnu starfshóps sérfræðinga byggir á þeirri samningsskuldbindingu Reykjavíkurborgar að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verði ekki skert á meðan á undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur.
    Ráðuneytið á hins vegar ekki aðild að samningum Reykjavíkurborgar um uppbyggingu í Skerjafirði og getur því ekki svarað því hvernig þeim samningsskuldbindingum borgarinnar er háttað.

     4.      Lét ráðherra meta þessi áhrif áður en ráðuneytið krafðist þess að Reykjavíkurborg frestaði úthlutun lóða og byggingarréttar í júní 2022?
    Sjá svar við 3. lið fyrirspurnarinnar.

     5.      Verður komið með einhverjum hætti til móts við námsmenn sem eru á biðlista eftir íbúð vegna þessara tafa?
    Sjá svar við 3. lið fyrirspurnarinnar.