Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 646  —  338. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur um skuldbindingar vegna stöðlunar.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við ákalli Staðlaráðs Íslands um að ríkið skili umsaminni hlutdeild í tryggingagjaldi sem atvinnulífið greiðir til staðlastarfs?
    Ráðuneytið hefur undanfarna mánuði og vikur átt fundi með Staðlaráði Íslands þar sem farið hefur verið yfir fjármögnun verkefna Staðlaráðs og stöðu þess. Í bréfi menningar- og viðskiptaráðuneytisins til Staðlaráðs, dags. 6. október 2022, var m.a. farið yfir eldra fyrirkomulag um hlutdeild Staðlaráðs í tryggingagjaldi og fjármögnun Staðlaráðs. Kemur þar fram að frá 1996 til 2011 var gert ráð fyrir að hluti af gjaldstofni tryggingargjalds (0,007%) færi í að standa straum af starfsemi Staðlaráðs. Var kveðið á um það fyrirkomulag í lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, sem eru á forræði fjármála- og efnahagsráðherra. Aðrar tekjur Staðlaráðs, sbr. lög nr. 36/2003, um staðla og Staðlaráð Íslands, eru aðildargjöld sem ráðið ákveður, tekjur af verkefnum fyrir opinbera aðila og sala á stöðlum og þjónustu. Með lögum nr. 164/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum (aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar o.fl.), var gerð sú breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, að felldur var brott 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna, þar sem kveðið var á um hlutdeild Staðlaráðs í tryggingargjaldi. Umrædd breyting var ekki í frumvarpi því sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði fyrir Alþingi í lok árs 2011, en kom fram með breytingartillögu og í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þann 12. desember 2011. Þær skýringar sem er að finna á þessari breytingu í nefndarálitinu eru eftirfarandi:
    „Lögð er til breyting á 2. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að hlutdeild Staðlaráðs í almennu tryggingagjaldi falli niður. Breytingin er gerð til samræmis við forsendur fjárlaga næsta árs.“
    Var því umrædd breyting hluti af almennum efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar á þeim tíma sem og forsendur fjárlaga 2012. Var frumvarpið afgreitt með þeim hætti frá Alþingi 17. desember 2011 og kom til framkvæmda 2012.
    Í kjölfar framangreindrar lagabreytingar var framlagi ríkisins til starfsemi Staðlaráðs fundinn annar farvegur, þ.e. með árlegu framlagi á fjárlögum hvers árs. Hefur það verið með þeim hætti síðan, og nánar útfært í þjónustusamningi á milli fagráðuneytis staðlamála og Staðlaráðs.
    Að því er aðkomu menningar- og viðskiptaráðuneytisins (og forvera þess) varðar er bent á að umrædd lagabreyting 2011 á fyrirkomulagi fjármögnunar framlags ríkisins til Staðlaráðs var, eins og rakið hefur verið, á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytis og Alþingis. Í núgildandi þjónustusamningi við Staðlaráð segir í gr. 2.2: „Framlag ríkisins til samnings þessa er ákveðið í fjárlögum hvers árs.“ Framlög ríkisins til Staðlaráðs eru því í höndum Alþingis á hverjum tíma.
    Til upplýsinga þá var hlutdeild Staðlaráðs í tryggingargjaldi frá 2007 til 2011 sem hér segir:
2007 50.946.000 kr.
2008 61.164.000 kr.
2009 59.793.000 kr.
2010 50.400.000 kr.
2011 56.000.000 kr.
    
    Frá framangreindri lagabreytingu í lok árs 2011 hafa framlög ríkisins til Staðlaráðs hafa verið sem hér segir frá árinu 2012:

2012 54.000.000 kr.
2013 56.100.000 kr.
2014 58.100.000 kr.
2015 57.100.000 kr.
2016 61.500.000 kr.
2017 63.000.000 kr.
2018 63.000.000 kr.
2019 63.000.000 kr.
2020 70.000.000 kr.
2021 70.000.000 kr.
2022 70.000.000 kr.

     2.      Hefur þjónustusamningur við Staðlaráð, sem rennur út um næstu áramót, verið endurnýjaður? Ef ekki, hefur ráðherra í hyggju að tryggja áframhaldandi rekstur ráðsins þannig að það geti uppfyllt lögbundnar kröfur til þess?
    Gildandi þjónustusamningur milli menningar- og viðskiptaráðuneytis og Staðlaráðs var til þriggja ára og rennur út í lok árs 2022. Ráðuneytið hefur átt fundi með Staðlaráði á árinu um endurnýjun og framlengingu þess samnings. Er sú vinna yfirstandandi. Markmið ráðuneytisins er að halda áfram árlegum framlögum til Staðlaráðs, í gegnum fjárlög, til að tryggja áframhaldandi starfsemi Staðlaráðs og að það geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum. Ráðuneytið hefur undanfarin ár staðið vörð um árlegt framlag ríkisins til Staðlaráðs, þ.e. framlagið hefur ekki sætt aðhaldskröfu eða skerðingu eins og framangreint yfirlit sýnir. Ráðuneytið hefur lagt áherslu á mikilvægi staðlastarfs í landinu og alþjóðlegra skuldbindinga Íslands í því samhengi. Á sama tíma er rík aðhaldskrafa í ríkisfjármálum og eru ráðuneytum því settar ákveðnar skorður þegar fram koma beiðnir um aukin framlög til stofnana eða félagasamtaka, jafnvel þótt um lögbundin verkefni kunni að vera að ræða. Þrátt fyrir framangreint, og í ljósi aukinna verkefna Staðlaráðs á síðustu árum, hefur ráðuneytið lagt fram breytingartillögu á frumvarpi til fjárlaga 2023 um varanlegt aukið framlag til Staðlaráðs til að ráðið geti með fullnægjandi hætti uppfyllt lögbundnar kröfur á sviði staðla. Er tillagan sú að framlag ríkisins til Staðlaráðs hækki varanlega frá og með 2023 um 31.450.000 kr. (þ.e. fari úr 70.000.000 kr. í 101.450.000 kr.). Er sú tala byggð á nýlegu uppfærðu kostnaðarmati um starfsemi Staðlaráðs og er um að ræða þjónustu sem Staðlaráði ber að uppfylla samkvæmt lagakröfum sem taka mið af EES-skuldbindingum Íslands.
    Endanlegur frágangur uppfærðs þjónustusamnings við Staðlaráð fyrir næsta ár bíður því afgreiðslu Alþingis á fjárlögum, sbr. þá breytingartillögu sem liggur fyrir Alþingi á framlögum til Staðlaráðs.

     3.      Hyggst ráðherra tryggja að skuldbindingum Íslands á sviði stöðlunar samkvæmt EES-samningnum verði fullnægt? Ef svo er, hvernig verður þeirri tryggingu háttað?
    Með sama hætti og undanfarin tíu ár mun skuldbindingum Íslands á sviði stöðlunar samkvæmt EES-samningnum verða fullnægt með gerð þjónustusamnings milli fagráðuneytis staðlamála og Staðlaráðs Íslands og árlegu framlagi ríkisins til Staðlaráðs á fjárlögum hvers árs.