Ferill 343. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 719  —  343. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli.


     1.      Hversu mörg fyrirtæki og félög á Íslandi, einka- sem og opinber, höfðu árið 2022 heimild hjá ársreikningaskrá skv. 7. gr. laga um ársreikninga til að færa bókhaldsbækur í erlendum gjaldmiðli og semja og birta ársreikninga í erlendum gjaldmiðli í stað íslenskrar krónu?
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur ársreikningaskrá ríkisskattstjóra veitt 248 félögum heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendri mynt.

     2.      Hver var skipting þessara félaga og fyrirtækja milli atvinnugreina samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofunnar?
    Skipting umræddra félaga milli atvinnugreina er sem hér segir í samræmi við ÍSAT2008:

Fjöldi

ISAT
Lýsing
2 11.07.0 Framleiðsla á gosdrykkjum, ölkelduvatni og öðru átöppuðu vatni
1 24.10.0 Framleiðsla á járni, stáli og járnblendi
10 03.11.2 Útgerð fiskiskipa
5 03.21.0 Eldi og ræktun í sjó
2 08.91.0 Nám og vinnsla á steinefnum til efnaiðnaðar og áburðargerðar
1 08.99.0 Nám og vinnsla annarra ótalinna hráefna úr jörðu
1 09.90.0 Þjónustustarfsemi fyrir vinnslu annarra hráefna úr jörðu
9 10.20.1 Frysting fiskafurða, krabbadýra og lindýra
3 10.20.2 Söltun, þurrkun og hersla fiskafurða, krabbadýra og lindýra
3 10.20.4 Framleiðsla lagmetis úr fiskafurðum, krabbadýrum og lindýrum
1 10.89.0 Önnur ótalin framleiðsla á matvælum
3 13.94.0 Framleiðsla á köðlum, seglgarni og netum
1 20.42.0 Framleiðsla á ilmvatni og snyrtivörum
4 21.20.0 Lyfjaframleiðsla
4 24.42.0 Álframleiðsla
1 25.62.0 Vélvinnsla málma
1 26.51.0 Framleiðsla á tækjum og búnaði til mælinga, prófana og leiðsögu
1 26.60.0 Framleiðsla á búnaði til geislunar, raftækjabúnaði til lækninga og meðferðar
1 28.93.0 Framleiðsla á vélum fyrir matvæla-, drykkjarvöru- og tóbaksvinnslu
1 32.50.0 Framleiðsla á tækjum og vörum til lækninga og tannlækninga
2 33.16.0 Viðgerðir og viðhald á loftförum og geimförum
1 33.20.0 Uppsetning á vélum og búnaði til nota í atvinnuskyni
2 35.11.0 Framleiðsla rafmagns
1 35.12.0 Flutningur rafmagns
1 35.14.0 Viðskipti með rafmagn
1 35.21.0 Gasframleiðsla
1 35.30.0 Hitaveita
1 41.20.0 Bygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis
1 42.21.0 Gerð þjónustumannvirkja fyrir vatn
1 43.21.0 Raflagnir
9 46.17.1 Umboðsverslun með fisk og fiskafurðir
1 46.21.0 Heildverslun með korn, óunnið tóbak, fræ og dýrafóður
3 46.38.1 Heildverslun með fisk og fiskafurðir
2 46.46.0 Heildverslun með lyf og lækningavörur
1 46.71.0 Heildverslun með fast, fljótandi og loftkennt eldsneyti og skyldar vörur
1 46.72.0 Heildverslun með málma og málmgrýti
2 46.90.0 Blönduð heildverslun
1 49.42.0 Flutningsþjónusta
2 50.20.0 Millilanda- og strandsiglingar með vörur
3 51.10.1 Farþegaflutningar með áætlunarflugi
2 51.10.2 Farþegaflutningar með leiguflugi
1 51.21.0 Vöruflutningar með flugi
1 52.10.0 Vörugeymsla
1 52.23.0 Þjónustustarfsemi tengd flutningum með flugi
1 52.29.0 Önnur þjónusta tengd flutningum
2 55.10.1 Hótel og gistiheimili með veitingaþjónustu
1 58.21.0 Útgáfa tölvuleikja
1 59.11.0 Framleiðsla á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni
1 61.10.0 Fjarskipti um streng
2 61.20.0 Þráðlaus fjarskipti
13 62.01.0 Hugbúnaðargerð
2 62.02.0 Ráðgjafarstarfsemi á sviði upplýsingatækni
1 62.09.0 Önnur þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni
1 63.11.0 Gagnavinnsla, hýsing og tengd starfsemi
1 63.12.0 Vefgáttir
1 64.19.0 Önnur fjármálafyrirtæki
68 64.20.0 Starfsemi eignarhaldsfélaga
9 64.99.0 Önnur ótalin fjármálaþjónusta, þó ekki vátryggingafélög og lífeyrissjóði
1 65.12.0 Skaðatryggingar
1 66.12.0 Starfsemi við miðlun verðbréfa og hrávörusamninga
3 66.19.0 Önnur ótalin starfsemi tengd fjármálaþjónustu, þó ekki vátryggingafélögum og lífeyrissjóðum
1 68.10.0 Kaup og sala á eigin fasteignum
9 68.20.2 Leiga atvinnuhúsnæðis
2 70.10.0 Starfsemi höfuðstöðva
2 70.22.0 Viðskiptaráðgjöf og önnur rekstrarráðgjöf
3 71.12.1 Starfsemi verkfræðinga
1 72.11.0 Rannsóknir og þróunarstarf í líftækni
4 72.19.0 Aðrar rannsóknir og þróunarstarf í raunvísindum og verkfræði
2 74.10.0 Sérhæfð hönnun
3 74.90.0 Önnur ótalin sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi
4 77.35.0 Leiga á loftförum
1 78.10.0 Ráðningarstofur
4 79.11.0 Ferðaskrifstofur
2 79.90.0 Önnur bókunarþjónusta og önnur starfsemi tengd ferðaþjónustu
1 82.91.0 Innheimtuþjónusta og upplýsingar um lánstraust
1 85.53.0 Ökuskólar, flugskólar o.þ.h.
1 90.01.0 Sviðslistir
1 93.13.0 Heilsu- og líkamsræktarstöðvar

     3.      Hvaða gjaldmiðlar voru notaðir í stað íslenskrar krónu?
    Þeir gjaldmiðlar sem notaðir voru í stað íslenskrar krónu voru sem hér segir (fjöldi félaga eftir gjaldmiðli):
Gjaldmiðill Fjöldi félaga
EUR 129
USD 101
GBP 7
SEK 5
NOK 3
CAD 1
DKK 1
CHF 1
SAMTALS 248

     4.      Hvaða gjaldmiðill var oftast notaður í stað íslenskrar krónu?
    Um 52% félaga með annan starfrækslugjaldmiðil en íslenskar krónur gerir upp í evrum. Um 41% félaga með annan starfrækslugjaldmiðil en íslenskar krónur gerir upp í bandaríkjadölum og um 7% félaga með annan starfrækslugjaldmiðil en íslenskar krónur gerir upp í öðrum gjaldmiðlum en evrum eða bandaríkjadölum.

     5.      Hversu mörg fyrirtæki sóttu um og hversu mörg fyrirtæki fengu heimild til að færa bókhaldsbækur og semja og birta ársreikninga í erlendum gjaldmiðli í stað íslenskrar krónu?
    Þær kröfur sem gerðar eru til félaga sem fá heimild til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli er að finna í 8. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, og reglugerð nr. 942/2014, um veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli.
    Þegar félag sækir um heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli til ársreikningaskrár hefur félagið kynnt sér þær reglur sem gilda um veitingu slíkrar heimilda og verið í samskiptum við ársreikningaskrá áður en það sækir um formlega til skárinnar.
    Síðustu fimm ár hefur eftirfarandi fjöldi félaga sótt um og fengið heimild ársreikningaskrár til að færa bókhaldsbækur og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli:
    Fyrir reikningsárið 2018 – 13 félög.
    Fyrir reikningsárið 2019 – 6 félög.
    Fyrir reikningsárið 2020 – 12 félög.
    Fyrir reikningsárið 2021 – 23 félög.
    Fyrir reikningsárið 2022 – 8 félög.


     6.      Á hvaða grundvelli höfðu þessi fyrirtæki og félög óskað eftir því að færa bókhaldsbækur í erlendum gjaldmiðli?
    Félögin höfðu óskað eftir því að færa bókhaldsbækur í erlendum gjaldmiðli á þeim grundvelli að viðkomandi mynt væri starfrækslugjaldmiðill viðkomandi félags.
    Starfrækslugjaldmiðill er sá gjaldmiðill sem vegur hlutfallslega mest í aðalefnahagsumhverfi félagsins. Aðalefnahagsumhverfið er þar sem félagið aðallega myndar og notar handbært fé. Við mat starfrækslugjaldmiðils skal litið til þess gjaldmiðils sem tekjur og gjöld af rekstrarhreyfingum eru ákvörðuð og greidd í enda sé það sá gjaldmiðill sem mest áhrif hefur á kostnaðarverð og söluverð vara og þjónustu félagsins, m.a. fyrir tilstilli samkeppnisafla, laga og reglna. Þá skal einnig litið til þeirra gjaldmiðla sem mestu varða við fjármögnun félagsins og varðveislu fjármuna þess.
    Við mat á því í hvaða gjaldmiðli meginhluti viðskipta fer fram skal litið heildstætt til tekna, gjalda, eigna, skulda og annarra viðskiptalegra þátta í rekstri viðkomandi félags.
    Ákvæði laganna um veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendri mynt var þrengt verulega á árinu 2013 og eftir það er einungis heimilt að veita slíka heimild ef félagið uppfyllir skilyrði 8. gr. laganna um starfrækslugjaldmiðil. Fyrir lagabreytinguna gátu félög fengið heimild byggða á því að meginhluti starfsemi þeirra væri erlendis eða að þau væru hluti af erlendri samstæðu, ef þau áttu erlend dótturfélög og meginhluti viðskipta þeirra væri við dótturfélögin, ef félögin töldust vera stór félög og höfðu verulegan hluta fjárfestinga sinna í erlendum fjárfestingarvörum og að lokum ef þau uppfylltu skilyrðið um starfrækslugjaldmiðil.
    Nánar vísast til 8. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, og reglugerðar nr. 942/2014 um veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli.

     7.      Hver var velta þessara fyrirtækja og félaga sem nýttu sér þessa heimild á síðasta ári?
    Ársreikningaskrá heldur ekki utan um slíkar upplýsingar og ráðuneytið hefur slíkar upplýsingar ekki undir höndum.

     8.      Hversu stór hluti af þjóðarframleiðslunni var velta þessara fyrirtækja og félaga á síðasta ári?
    Ársreikningaskrá heldur ekki utan um slíkar upplýsingar og ráðuneytið hefur slíkar upplýsingar ekki undir höndum.

     9.      Hver hefur þróunin verið sl. 10 ár hvað varðar fjölda félaga og fyrirtækja sem hafa sótt um framangreinda heimild og fengið hana, um hvaða gjaldmiðla hefur verið að ræða og hvaða gjaldmiðill hefur verið oftast notaður á tímabilinu?
    Samkvæmt upplýsingum frá ársreikningaskrá hafa á sl. 10 árum 107 félög fengið heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli. Þar af hafa 56 þeirra eða 52% verið með starfrækslugjaldmiðil í evrum, 44 þeirra eða 41% verið með starfrækslugjaldmiðil í bandaríkjadölum, þrjú þeirra eða 3% verið með starfrækslugjaldmiðil í sænskum krónum, eitt þeirra eða 0,9% verið með starfrækslugjaldmiðil í norskum krónum, tvö þeirra eða 1,9% verið með starfrækslugjaldmiðil í breskum pundum og eitt þeirra eða 0,9% verið með starfrækslugjaldmiðil í svissneskum frönkum.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.