Ferill 377. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 726  —  377. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur um aðgerðir í þágu barna.


     1.      Hyggst ráðherra vinna að því með ríkisstofnunum að stytta biðlista og efla úrræði tengd sálrænum og geðrænum vanda barna? Ef svo er, hvernig?
    Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna tóku gildi 1. janúar sl. Markmið laganna er að allt samstarf vegna þjónustu við börn fari í skýran farveg og að öll börn og foreldrar þeirra sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.
    Þáverandi félags- og barnamálaráðherra og þáverandi heilbrigðisráðherra ákváðu í desember 2020 að fá óháða ráðgjafa til þess að greina bið barna eftir heilbrigðis-, félags- og skólaþjónustu og setja fram tillögur um leiðir til þess að draga úr bið barna eftir þjónustunni.
    Niðurstöður greiningarinnar voru kynntar fyrir ráðherrunum í mars 2021 þar sem fram kom að óásættanleg bið sé eftir þjónustu á öllum þjónustustigum um land allt, en aðgengi að þjónustu sé þó misjafnt eftir landshlutum. Fjöldi barna á bið eftir stigskiptri geðheilbrigðisþjónustu hafði aukist og biðtími lengst jafnt og þétt frá árinu 2017. Fjöldi barna á bið eftir greiningu hjá þáverandi Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hafði einnig aukist og hið sama er að segja um bið eftir þjónustu í úrræði á vegum þáverandi Barnaverndarstofu. Einnig kom fram í greiningunni að skortur væri á heilbrigðisstarfsfólki og mikil samkeppni væri um starfsfólk á milli stofnana ríkis og sveitarfélaga.
    Fyrri hluta árs 2021 var áhersla lögð á breytingar á uppbyggingu stofnana sem heyrðu undir félags- og barnamálaráðuneytið, t.d. með tilkomu nýrrar Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Var einkum horft til Barna- og fjölskyldustofu að gegna lykilhlutverki við innleiðingu samþættingarinnar og gera henni kleift að takast á við ný og breytt verkefni sem henni var ætlað. Á sama tíma var einnig unnið að breytingum á lögum um þáverandi Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, nú Ráðgjafar- og greiningarstöð, til að samræma þær áherslur sem tengjast auknu samstarfi og samþættingu þjónustu í þágu barna. Lögð var rík áhersla á að ryðja í burtu hindrunum sem kunna að vera á því að börn njóti þjónustu sem þau eiga rétt á og að samvinna þjónustukerfa sé best til þess fallin að stuðla að því að barn fái þjónustu við hæfi.
    Í mars 2022 áttu félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra samstarf um aðgerðir til að bæta aðgengi að þjónustu fyrir börn. Ráðherrarnir voru sammála um að til að markmið laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna gætu náð fram að ganga væri ljóst að tryggja þyrfti að börn hefðu aðgang að viðeigandi úrræðum í stigskiptri þjónustu þegar þeirra væri þörf. Lögð var áhersla á að bið barna og fjölskyldna þeirra eftir fullnægjandi þjónustu og úrræðum getur haft veruleg áhrif á farsæld barns og velsæld fjölskyldna. Fullnægjandi og greiður aðgangur að árangursríkri þjónustu stuðlar að aukinni farsæld, m.a. bættu geðheilbrigði, og dregur úr líkum á þyngri vanda síðar meir.
Ákveðið var að skipaður yrði sérstakur stýrihópur um aðgengi að þjónustu fyrir börn auk þess sem lagt var til að huga sérstaklega að viðkvæmum hópi barna, t.d. börnum með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir.
    Þann 16. júní sl. skipaði mennta- og barnamálaráðherra stýrihóp um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Í stýrihópnum eru fulltrúar frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu, félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og Barna- og fjölskyldustofu. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að kortleggja og greina þjónustuþörf barna með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir og endurskoða fyrirkomulag úrræða og þjónustu í þessum málaflokki, með réttindi barna og aðgengi þeirra að fullnægjandi þjónustu að leiðarljósi. Einnig á stýrihópurinn að leggja til verka- og kostnaðarskiptingu vegna þeirrar þjónustu á milli sveitarfélaga og ríkisins. Samkvæmt skipunarbréfi stýrihópsins átti hann að skila tillögum til ráðherra ekki síðar en 1. nóvember 2022 en ljóst er að hópurinn mun ekki skila tillögum til ráðherra fyrr en í byrjun árs 2023.
    Þá skipaði ráðherra stýrihóp um aðgengi að þjónustu fyrir börn þann 14. nóvember sl. Verkefni stýrihópsins er að kortleggja stigskipta heilbrigðis-, félags- og skólaþjónustu fyrir börn og fjölskyldur um land allt. Greina styrkleika og veikleika þjónustunnar og leggja fram tillögur til þess að styrkja heildstæða, samhæfða og árangursríka velferðarþjónustu við börn og fjölskyldur sem veitt er af þar til bæru fagfólki á réttum tíma og á réttu þjónustustigi. Skal stýrihópurinn skila tillögum til ráðherra ekki síðar en 31. maí 2023.
    Í niðurstöðum landskönnunar embættis landlæknis frá 2019 um geðrækt, forvarnir og stuðning í leik-, grunn- og framhaldsskólum kom fram að tryggja þyrfti betur að nemendur á öllum skólastigum gætu fengið viðeigandi stuðning í skólanum. Einnig kom fram að starfsfólk þarfnaðist aukinnar leiðsagnar og ráðgjafar til að styðja við velferð nemenda.
    Niðurstöðurnar undirstrikuðu að leggja þarf meiri áherslu á geðrækt, fyrirbyggjandi aðgerðir og hagnýtingu gagna til að styðja við farsæla skólagöngu barna. Starfshópur fulltrúa embættis landlæknis, þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneytis, Kennarasambands Íslands, Menntamálastofnunar, Heimilis og skóla og Sambands íslenskra sveitarfélaga, lagði í kjölfarið fram aðgerðaáætlun sem miðar að því að styrkja umgjörð, skipulag og innviði skólakerfisins. Áætlunin gerir ráð fyrir innleiðingu á þrepaskiptum stuðningi í öllu menntakerfinu sem felur í sér breytta starfshætti skóla og skólaþjónustu með aukinni áherslu á þverfaglega samvinnu, snemmtækan stuðning, gagnreyndar aðferðir og markvissa hagnýtingu gagna í skólastarfi. Aðgerðaáætlunin var samþykkt af ríkisstjórn árið 2020 og í framhaldi voru nánari markmið um heildstæða skólaþjónustu, sem byggir á þrepaskiptum stuðningi, skilgreind í fyrstu aðgerðaáætlun við menntastefnu til 2030.
    Þar er kveðið á um uppbyggingu heildstæðrar skólaþjónustu sem byggir á þrepaskiptum stuðningi þar sem markmiðið er að samhæfa þjónustu þvert á skólastig hvað varðar aðgengi, þjónustustig og framkvæmd, eflingu rafrænna lausna og þverfaglega samvinnu milli skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu í þágu farsældar nemenda óháð búsetu.
    Í stefnumótun á sviði geðheilbrigðis og lýðheilsu hefur sömuleiðis verið lögð áhersla á að efla skólann sem vettvang geðræktar, forvarna og stuðnings, í ljósi þess að í skólastarfi má ná til allra barna og ungmenna í samfélaginu.
    Fyrirhugað er að setja nýja heildstæða löggjöf um skólaþjónustu sem byggir á þrepaskiptum stuðningi fyrir öll skólastig í víðtæku samráði við framhaldsskóla, grunnskóla, leikskóla, sveitarfélög, skólastjórnendur, kennara, nemendur og foreldra og annað starfsfólk í skóla-, frístunda- og tómstundastarfi.
    Þá er gert ráð fyrir að ný menntamálastofnun verði fagleg þekkingarmiðstöð skólaþróunar og skólaþjónustu og styðji við ofangreinda innleiðingu í samvinnu við sveitarfélög og skóla.

     2.      Stendur til að lögfesta þjónustu félagsmiðstöðva í sveitarfélögum í ljósi þess að rannsóknir sýna fram á þau forvarnaáhrif sem skipulagt frístundastarf hefur?
    Hluti af innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er að endurskoða verkefni þjónustuveitenda sem fjallað er um í lögunum, þar á meðal er starfsemi félagsmiðstöðva. Í farsældarlögunum eru félagsmiðstöðvar nefndar sem mögulegur þjónustuveitandi og því þarf að skoða sérstaklega stöðu félagsmiðstöðva í því samhengi. Félagsmiðstöðvar hafa fyrir löngu sannað gildi sitt sem mikilvægur aðili þegar kemur að forvörnum og skipulögðu starfi barna og ungmenna. Við vinnu að nýrri heildstæðri löggjöf um skólaþjónustu sem byggir á þrepaskiptum stuðningi fyrir öll skólastig verður hugað sérstaklega að því hvort og þá með hvaða hætti skólaþjónusta ætti að koma að starfsemi frístundaheimila, félagsmiðstöðva og ungmennahúsa. Nú þegar eru einstök sveitarfélög farin að nýta þá sérþekkingu sem er til staðar innan félagsmiðstöðva og frístundaheimila þegar kemur að þjónustu við börn og ungmenni með góðum árangri.
    Í stefnu stjórnvalda um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna, sem ráðuneytið setti fram fyrr á þessu ári, er sérstaklega fjallað um gildi skipulags frístundastarfs. Forsenda öflugs starfs og uppbyggingar til lengri tíma er að rekstrar- og starfsumhverfi tómstunda- og félagsstarfs barna og ungmenna sé traust, faglegt, öruggt og aðgengilegt fyrir alla.