Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 728  —  352. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bjarna Jónssyni um tækjabúnað á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni og meðhöndlun bráðavanda.


     1.      Eru áform uppi um að útvega heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni nýjan tækjabúnað svo að þar verði betur unnt að takast á við bráðavanda og slys?
     2.      Ef svo er, hvernig verður þjálfun og endurmenntun starfsfólks vegna nýrra tækja háttað svo að það geti sinnt bráðavanda?
     3.      Hvernig er slíkri þjálfun háttað nú? Eru áform uppi um átak í þeim efnum?


    Á vegum heilbrigðisráðuneytis er að störfum viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu sem hefur haft til skoðunar hvaða breytingar og umbætur í bráðaþjónustu á landinu öllu skuli ráðast í með það að markmiði að bæta þjónustu, minnka sóun og auka árangur. Megináhersla viðbragðsteymisins er á móttöku bráðatilvika innan veggja heilbrigðiskerfisins, svo sem slysamóttöku heilsugæslustöðva, bráðamóttökur og aðra vaktþjónustu.
    Sem liður í þeirri vinnu hefur verið skilgreindur lágmarkstækjabúnaður starfsstöðva heilbrigðisstofnana sem eru bráðamóttökur eða ígildi þeirra, ein á hverri heilbrigðisstofnun, samtals átta á landinu.
    Kannað hefur verið hjá hverri heilbrigðisstofnun hvort lágmarkstækjabúnaður sé til staðar á þessum skilgreindu móttökustöðum og hvert ástand hans sé. Niðurstaðan, byggð á svörum frá framangreindum stofnunum, hefur leitt í ljós umtalsverðan mun á tækjabúnaði milli heilbrigðisstofnana.
    Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fara í átak til að jafna aðstöðu á landinu til að veita bráðaþjónustu milli heilbrigðisstofnana og mikilvægur liður í því er að jafna tækjabúnað. Því hefur heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins verið úthlutað 113,5 milljónum króna til kaupa á tækjabúnaði sem styrkir bráðaþjónustu um allt land. Auk þess stendur yfir endurnýjun tölvusneiðmyndatækja á heilbrigðisstofnunum.
    Lágmarkstækjabúnaður á heilsugæslustöðvum og í heilsugæsluseljum verður einnig skilgreindur og staða fyrirliggjandi búnaðar könnuð. Fyrirhugað er að þessari vinnu viðbragðsteymisins ljúki fyrir 15. desember nk. og stefnt að því að úthluta fé til heilbrigðisstofnana til innkaupa og endurnýjunar á þeim tækjum sem sú könnun leiðir í ljós að þurfi á hverjum stað.
    Hluti af innleiðingarferli nýrra tækja felst í þjálfun starfsmanna sem koma til með að nota þau. Stærstur hluti þjálfunarinnar fer fram annars vegar á starfstöðinni við afhendingu tækjanna og hins vegar með þjálfun á netinu. Vonast er til að samræmdur tækjabúnaður milli stofnana auðveldi samræmda þjálfun og þar með færni sem aftur auðveldar starfsfólki að starfa á mismunandi starfsstöðvum og lækkar kostnað vegna viðhalds og þjónustu.
    Samhliða úttekt á tækjabúnaði starfsstöðva heilbrigðisstofnana vinnur viðbragðsteymið að tillögum um þjálfun starfsfólks sem sinnir móttöku bráðveikra og slasaðra auk þess að skoða fýsileika þess að koma á faglegum fjarstuðningi vegna bráðaþjónustu og sjúkraflutninga fyrir landið allt.