Ferill 578. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 810  —  578. mál.




Beiðni um skýrslu


frá ríkisendurskoðanda um breytingar á stjórnarmálefnum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Frá Helgu Völu Helgadóttur, Kristrúnu Frostadóttur, Loga Einarssyni, Jóhanni Páli Jóhannssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Andrési Inga Jónssyni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Gísla Rafni Ólafssyni, Lenyu Rún Taha Karim, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, Daða Má Kristóferssyni, Guðbrandi Einarssyni, Sigmari Guðmundssyni, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur og Þorgerði K. Gunnarsdóttur.


    Með vísan til 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, er þess óskað að ríkisendurskoðandi geri stjórnsýsluendurskoðun á undirbúningi breytinga á skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem tóku gildi 1. febrúar 2022, og þeim afleiðingum sem þær höfðu í för með sér.
    Er óskað eftir að í skýrslunni verði farið yfir:
     a.      hvaða ástæður og rök lágu til grundvallar ákvörðun um uppstokkun á málefnasviðum ráðuneyta,
     b.      hvernig undirbúningi var háttað við stofnun nýrra ráðuneyta og hvenær hann fór fram,
     c.      hvernig undirbúningi var háttað við tilfærslu á málaflokkum milli ráðuneyta og hvenær hann fór fram,
     d.      hver aðkoma stjórnenda og starfsfólks ráðuneyta var að undirbúningi og ákvörðun um uppstokkun á málefnasviðum ráðuneyta,
     e.      hver aðkoma stjórnenda og starfsfólks undirstofnana ráðuneyta var við undirbúning og ákvörðun um tilfærslu verkefna milli ráðuneyta,
     f.      hvaða leiðsögn forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti veittu öðrum ráðuneytum um flutning starfsfólks milli ráðuneyta skv. 2. mgr. 7. gr. og 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og um starfslok sem boðin voru skv. 34. gr. sömu laga, sbr. 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar,
     g.      hvernig þeirri leiðsögn hafi verið fylgt eftir í einstökum ráðuneytum,
     h.      hvaða samráð hafi verið haft við stéttarfélög starfsfólks vegna breytinga á högum þess og hvernig gætt hafi verið að hagsmunum starfsfólks í breytingunum,
     i.      hverjir hafi verið möguleikar starfsfólks á að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar voru um flutning þess milli ráðuneyta eða fyrirkomulag starfsloka vegna synjunar um flutning eða niðurlagningar starfa,
     j.      hvort dæmi séu um að breytingarnar hafi verið nýttar af ráðuneytum til að segja upp tilteknu starfsfólki og stjórnendum,
     k.      hver starfsmannavelta hafi verið í Stjórnarráði Íslands fyrir uppstokkun og í kjölfar hennar, sundurliðað eftir ráðuneytum,
     l.      hvaða áhrif uppstokkun á málefnasviðum ráðuneyta og tilfærsla á málaflokkum milli þeirra hafi haft á stefnumótun, fjárlagagerð, framgang lögbundinna verkefna, málshraða, starfsfólk Stjórnarráðs Íslands, sundurliðað eftir ráðuneytum,
     m.      hvaða áhrif uppstokkun á málefnasviðum ráðuneyta og tilfærsla á málaflokkum milli þeirra hafi haft á starfsfólk undirstofnana ráðuneyta, stefnumótun, framgang lögbundinna verkefna og málshraða, sundurliðað eftir ráðuneytum.

Greinargerð.

    Ný ríkisstjórn kynnti samhliða nýjum stjórnarsáttmála 28. nóvember 2021 breytingar á Stjórnarráði Íslands. Breytingarnar fólu í sér eina umfangsmestu uppstokkun á ráðuneytum og tilfærslu á málaflokkum milli þeirra sem framkvæmd hefur verið, með tilheyrandi flutningi starfsfólks og undirstofnana milli ráðuneyta og til nýrra ráðuneyta. Dæmi um það er að málefnasviðum þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneytis var dreift á þrjú mismunandi ráðuneyti og málefnasviðum þáverandi félagsmálaráðuneytis var sömuleiðis dreift víða.
    Fram hefur komið að félagar í Félagi starfsmanna stjórnarráðsins hafi ekki fengið upplýsingar um uppstokkun á málefnasviðum ráðuneytanna fyrir fram en tilkynning þess efnis barst ekki fyrr en um það leyti sem stjórnarsáttmálinn var kynntur hinn 28. nóvember 2021. Af því má draga þá ályktun að uppstokkunin hafi ekki verið undirbúin sérstaklega. Í viðtali við formann Félags starfsmanna stjórnarráðsins kom fram að óvissa ríkti um framkvæmdina og að ekki væri öllu starfsfólki ljóst hvar það ætti að starfa eftir uppstokkunina. Við meðferð málsins á Alþingi komu fram í umsögnum og fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ábendingar um að þekking og reynsla starfsfólks Stjórnarráðsins hefði ekki verið nýtt þegar tekin var ákvörðun um breytingar á Stjórnarráðinu.
    Skýrslubeiðendur telja að þörf sé á því að skoða undanfara þessara breytinga á Stjórnarráði Íslands og afleiðingar, m.a. aðkomu starfsfólks ráðuneytanna og undirstofnana að undirbúningi og ákvörðunartöku sem og starfsmannaveltu fyrir og eftir breytingar þar sem sérstaklega yrðu teknar saman upplýsingar um ráðningar, skipanir og uppsagnir, sem og uppsagnir embættismanna og starfsfólks að eigin frumkvæði.
    Samkvæmt 1. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, starfar ríkisendurskoðandi á vegum Alþingis og er trúnaðarmaður þess við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins. Þá er ríkisendurskoðandi sjálfstæður og engum háður í störfum sínum. Skv. 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016, felur stjórnsýsluendurskoðun í sér mat á frammistöðu þeirra sem ríkisendurskoðandi hefur eftirlit með og er m.a. litið til þess hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort framlög ríkisins skili þeim árangri sem að er stefnt. Í 3. gr. er kveðið á um hlutverk ríkisendurskoðanda og í 2. mgr. m.a. að hann skuli gera tillögur að úrbótum, bættri stjórnsýslu, skýrari ábyrgð og betri nýtingu ríkisfjár.
    Skýrslubeiðendur telja ríka ástæðu til þess að ríkisendurskoðanda verði falið að fara ígrundað yfir þessar umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á Stjórnarráðinu síðustu ár og þar með stjórnkerfi landsins svo að læra megi af því hvað betur hefði mátt fara og forðast að mistök, ef einhver voru, verði endurtekin.